Stjórn fiskveiða

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 11:37:07 (7698)


[11:37]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér þykir þetta síðasta afskaplega furðulegt. Hvar er eiginlega samviska manna sem halda því fram að það sé ekki hægt að ná fram tillögu sem kostar ekki nokkurn skapaðan hlut. Þessi tillaga er ekkert um það að þessi hópur í heildina fái einum einasta fiski meir heldur en gert er ráð fyrir að hann fái samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar. Svo talar hv. þm. um að það sé ekki hægt að ná öllu fram. Hvað er þetta eiginlega? Er það einhver meinbægni sem ræður afstöðu manna til svona tillagna? Ég skil ekki hvað það er. Ég tel að ef hv. Alþingi samþykkir ekki þessa tillögu þá hljóti það að vera vegna einhverra ástæðna sem ég hef ekki heyrt fyrr. Ég geri þá kröfu að menn segi hv. þm. hverjar ástæðurnar eru. Það hlýtur að vera hægt að fá það fram í þessari umræðu. Ég mun a.m.k. illa geta sætt mig við það að menn beri ekki fram frambærilegri ástæðu heldur en þá að það sé ekki hægt að ná öllu fram.