Stjórn fiskveiða

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 11:47:29 (7706)


[11:47]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt að ef það yrði liðugri verslun með fiskinn heldur en hefur verið þá má alveg gera ráð fyrir því að verðið jafnist og lækki. Ég held að það gæti orðið gott ef menn næðu því að ná samkomulagi um eitthvert nýtt kerfi í sölu á fiski sem mundi valda því að við fengjum jafnara fiskverð sem yrði þá til með meiri markaðstengingu heldur en við höfum áður séð. En það er ekki fyrirséð að það gerist á næstunni. Hitt vil ég svo segja að ég er ekki að mótmæla þeirri hugmynd sem kom fram í tillögu ríkisstjórnarflokkanna núna undir lokin og felst í því að fella niður þessa 15% tillögu og taka upp annað fyrirkomulag. Hún er að mínu viti til bóta og ég tel að það sé líka verið að viðurkenna þar að það eigi að tengja réttinn til að veiða fisk við skipin og það eru fleiri atriði í þeim tillögum sem liggja hér fyrir sem eru einmitt í þá átt og það er að mínu viti jákvætt í þeim tillögum sem liggja fyrir.