Stjórn fiskveiða

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 12:12:35 (7708)


[12:12]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hef óskað eftir viðveru hæstv. viðskrh. Ég setti þá ósk fram við 2. umr. málsins, ég setti þá ósk fram nú í morgun og ég ítreka enn þá ósk og vildi nú gjarnan fá að heyra það frá forsetastól hvort við henni verður orðið.
    ( Forseti (VS) : Já. Forseti mun að sjálfsögðu verða við þeirri beiðni hv. þm. að biðja hæstv. viðskrh. að koma í þingsalinn. --- Hæstv. viðskrh. er ekki í þinghúsinu sem stendur en forseti mun gera ráðstafanir til þess að hann verði kallaður til þingfundar.)
    Ég get út af fyrir sig rætt eitt og annað um stjórn fiskveiða en það er dálítið erfitt að fyrirbyggja að ekki verði endurtekningar ef hæstv. viðskrh. heyrir ekki mál mitt.
    Ég tel rétt að fara í nokkrum orðum yfir þá stöðu sem verið hefur að þróast. Allt frá því að mönnum varð ljóst að ekki væri hægt að stunda óheftar veiðar við Íslandsstrendur þá hefur það verið að gerast að menn hafa verið að selja auðæfin í hafinu annaðhvort í skipsverði eða með beinni sölu á kvóta. Ég gat um það að það elsta sem ég hef fundið um kvóta á Íslandi er frá árinu 1975. Mér hefur þó verið tjáð að í tíð Emils sem sjútvrh. hafi hann sett reglur um kvótaskiptingu á innfjarðarækju. Ég hef ekki fundið það og má vel vera að það sé ekki rétt en sá sem mér tjáði var alþýðuflokksmaður sem var mjög sáttur við þessa ákvörðun á sínum tíma, taldi hana af hinu góða og þess vegna tel ég rétt að segja þetta hér ef ég skyldi vera að halla réttu máli með því að segja að þetta hafi hafist 1975. Þáv. hæstv. sjútvrh. Matthías Bjarnason gerði sér grein fyrir því að óheft veiði á innfjarðarækju gengi ekki upp. Þess vegna beitti hann sér fyrir lögum um samræmda vinnslu sjávarafla og veiða sem háðar voru sérstökum leyfum. Það kerfi sem þá var sett upp var á þann veg að bátum sem þessar veiðar stunduðu var ætlað visst magn af veiðinni í hverjum firði sem var sérstakt veiðisvæði, Arnarfjörður var t.d. sérstakt veiðisvæði og Ísafjarðardjúp annað. En verksmiðjunum, sem þá voru nokkuð margar, var einnig ætlaður viss hluti af þessu magni. Þess vegna voru útgerðarmenn skuldbundnir til þess að selja ákveðnum verksmiðjum sinn afla. Þetta kerfi var um margt lausn á því að menn væru komnir í þrot með óheftar veiðar, en auðvitað gerðist það um leið og þessu kerfi var komið á að leyfið til að mega veiða rækju fór inn í verðið á viðkomandi skipi. Ef þú ætlaðir að kaupa lítinn bát við Ísafjarðardjúp og hann hafði jafnframt leyfi til að veiða rækju, þá seldist sá bátur á hærra verði en jafnstór bátur af sambærilegri gerð sem seldur var og hafði ekki rækjuveiði. Verðið á bátnum var hærra vegna þess að með honum var verið að selja hluta af auðæfum Ísafjarðardjúps.
    Það sama gerðist með verksmiðjurnar. Verksmiðja sem átti þann rétt að fá afla af ákveðnum bátum var verðmeiri en verksmiðja sem hafði ekki þennan rétt og þess vegna má segja að í verði verksmiðjanna var líka komin ákveðin stærð, ákveðinn hluti af verðinu sem var vegna þess að menn voru að selja auðæfi djúpsins.
    Þegar úthafsveiðirækjan kom til sögunnar hefði mátt spyrja sjálfan sig: Var þá rökrétt að halda áfram að hafa sérstaka kvöð á þessum skipum til að landa hjá sérstökum vinnslustöðvum í landi? Það var ekki samræmi í því gagnvart öðrum fisktegundum sem var úthlutað aðeins til útgerða en ekki til vinnslustöðva. Hörpudiskurinn var settur undir sömu reglu. Þegar ákvörðun er tekin um það að skipta fiskveiðiheimildum á þeim fiskstofnum á Íslandi, sem menn töldu að ekki væri hægt að veita frjálsar veiðar í, þá gerist það að þeim afla er skipt niður á skipin en vinnslustöðvarnar í landi eru algerlega skildar eftir. Þeirra réttur til hafsins verður enginn, en aftur á móti sögðu menn: Vinnslustöðvarnar eiga 70--80% af fiskiskipaflotanum. Þess vegna er verið að veita þeim þennan rétt á óbeinan hátt. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að verðið á fiskvinnslustöðvunum féll við þessa aðgerð en verðið á fiskiskipunum hækkaði. Þetta skipulag var þess vegna í eðli sínu fjandsamlegt fiskvinnslu í landinu. Það var í eðli sínu fjandsamlegt fiskvinnslu í landinu hvað þennan þátt snerti, en á móti kom að það gaf eigendum skipanna, ef það var sami eigandi og fiskvinnslustöðvanna, tækifæri til að dreifa veiðinni á allt árið og að því leyti til var það hagstætt fiskvinnslunni í landi ef sami aðili átti skipið og vinnslustöðina.
    Það má þess vegna segja að það hafi verið tvær hliðar á þessu máli. Annars vegar var það hagstætt og hins vegar var það fjandsamlegt eða óhagstætt, hvort sem menn vilja kalla það í þessum efnum. Því segi ég þetta að þegar farið var í að skipta réttinum niður á skip var t.d. fundið út að hér við land ættu að vera tvö svæði fyrir togara og meðalrétturinn til veiða var ekki sá sami eftir því á hvoru svæðinu menn voru. Þar kom það til að annað svæðið náði frá Látrabjargi að Hornafirði, og Hornafjörður meðtalinn, hitt

svæðið náði þá yfir hinn hluta landsins. Vestfirðingar voru með langmesta afla á skip. Þeir voru því skertir mest en það var sagt: Það getur ekki verið neitt óhagstæðara fyrir ykkur að gera út skip en aðra þannig að þið hljótið að geta borið þessa miklu skerðingu.
    En það sem gleymdist var það að bak við þessa togara voru frystihús og þessi frystihús voru þess vegna skert meira um afla en nokkur önnur frystihús á landinu. Og það var ekkert sem gat réttlætt það að þau yrðu skert jafnmikið um afla til vinnslu eins og þarna gerist.
    Þetta er grunnsagan á bak við það að frystihúsin á Vestfjörðum hafa verið að gefa eftir vegna þess að þau voru skert meira en nokkur önnur hús. Ég ætla ekki að tala um þá vitleysu sem sett var inn í fyrstu lögin, að það var bæði hægt að fá aflareynslu út á skipið og aflareynslu út á skipstjórann. Mér vitanlega voru aldrei nema tveir aðilar sem fengu úthlutað á þennan hátt. Annað skipið var á Akureyri, sem frægt er orðið, og hitt héðan úr Reykjavík. ( VE: Þau voru fleiri.) Fleiri, segir hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Það væri kannski vel þess virði að hann læsi upp þann lista hverjir það voru sem fengu þessa súperúthlutun því að ég vissi að það var sótt um þetta frá Vestfjörðum og því var hafnað. Þá var nýtt skip að koma inn sem var ráðinn á góður skipstjóri en það fékkst ekki samþykkt að flytja aflareynslu hans með honum yfir á þetta skip.
    Á þeim tíma þegar sóknarmarkið var notað var hreint ekki vandalaust að glíma við það mál hvernig ætti að standa að því að tryggja hæfilega fækkun skipa við veiðarnar svo að það væri eitthvað í samræmi við það magn sem hægt væri að úthluta rétti til veiða á. Frægasta dæmið í þeim efnum var úthlutun á rétti til síldveiða. Það lá fyrir að mjög mörg skip hér sunnan lands fyrst og fremst en þó einnig frá öðrum svæðum höfðu áhuga á að fara á síldveiðar og til þessa ráðs var gripið að skipa sérstaka nefnd sem átti að gera tillögur um hvernig að þessu yrði staðið. Einn maður í þessari nefnd, Gunnar Flóvenz, hafði reynslu á þessum málum og hann varð undir í nefndinni. Hans reynsla var ekki metin. Hinir skiluðu meirihlutaáliti. Og meirihlutaálitið hljóðaði upp á það að nú skyldi saltað um borð.
    Við skulum örlítið fara yfir þessa sögu því að hún segir dálítið um í hvaða óefni við vorum komnir. Um leið og það var ákveðið var verið að ýta út af borðinu öllum smærri skipunum. Þetta veit ég að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson gerir sér fulla grein fyrir hvað sem um aðra má segja. Það er einfaldlega ekki pláss fyrir tunnurnar um borð og það var þá heldur ekki pláss fyrir annað búnað í þessu sambandi. Þetta leiddi til gífurlegrar fækkunar á áhugaaðilum um að stunda síldveiðarnar. Svo var farið af stað að veiða. Og eftir nokkra daga komu fréttir um það að síldin væri farin að fljóta dauð úti af Reykjanesi. Hvernig stendur á þessu? sögðu menn í landi? Af hverju er síldin farin að fljóta dauð? Jú, það kom nefnilega í ljós að afkastagetan við veiðarnar og afkastagetan við söltunina um borð í skipunum var ekki á sömu gráðu. Afkastagetan við söltunina var sáralítil. Karlarnir voru hundfúlir yfir því að vera settir í það verk sem handfljótar síldarstúlkur höfðu leyst áður, þeir fengu myndarlegt kast af síld eða full net og það var ekki um annað að gera en að fleygja megninu af þessu því að þetta var orðið úldið áður en þeir höfðu haft möguleika á að salta þetta. Þá fóru menn aftur að lesa reglugerðina. Auðvitað var það óhagræði að salta síldina um borð í fiskiskipum sem ultu mikið. Það var farið að skoða reglugerðina og þá kom í ljós að eina skilyrðið var að það yrði saltað um borð. Það stóð hvergi í reglugerðinni að menn þyrftu að vera úti á rúmsjó, það væri allt í lagi að leggjast við bryggju og binda fast og salta. Og það var það næsta sem gerðist að menn fóru með aflann í land, settu fast og fóru að salta. Afköstin jukust eitthvað af því að skipið var þá kyrrt en það sem bættist við þessar hörmungar var það að síldarstúlkurnar fóru að koma niður á bryggjuna og gera athugasemdir við vinnubrögðin. ( GHall: Sinaskeiðabólga var mikil meðal sjómannanna.) Og sinaskeiðabólga var mikil meðal sjómanna, segir Guðmundur Hallvarðsson sem greinilega man eftir þessu skrautlega ævintýri á því tímabili þegar menn voru að þreifa sig áfram með stjórnun fiskveiða.
    Skapið í sjómönnum hélt áfram að harðna. Það endaði með því að þeir héldu á fund útgerðarmanna hreint út sagt arfavitlausir og sögðu: Þessari vitleysu verður að linna. Við kunnum ekkert að salta síld, það er ekki okkar verk. Við höfum unnið önnur störf. Þeir orðuðu þetta kannski á einhvern annan veg en þetta, en niðurstaðan varð sú að útgerðarmenn á Suðurnesjum söfnuðu liði, héldu inn til Reykjavíkur, handsömuðu einn þingmann af Reykjanesinu, framsóknarþingmann, hafa kannski tekið fleiri, og skipuðu honum að koma með sér á fund ráðherra. Þáv. ráðherra Matthías Bjarnason tók vel á móti þessum mönnum eins og öðrum en þegar hann heyrði erindi þeirra að krafan væri að reglugerðin yrði strax numin úr gildi, þá súrnaði nú skapið fyrst en þeir hótuðu hörðu og sögðu að það væri óhjákvæmilegt að þetta færi allt í fjölmiðla, hvernig staðið væri að þessu, og þetta væri hrein hringavitleysa og það yrði að breyta þessu. Eftir að hafa hlustað á mál þeirra gerðist það að Matthías lét vit ráða, breytti þessum ákvæðum og lét heimila söltun í landi á nýjan leik eins og hafði verið fram að þeim tíma. Allur kostnaðurinn við að undirbúa skipin til þess að þau væru fær um að taka á móti salti, fær um að geyma tunnur og standa að söltun um borð, var sem sagt hluti af kostnaði við það að koma á vitrænni stjórn fiskveiða hér við land.
    ( Forseti (VS) : Forseta heyrðist að það væri komið að þáttaskilum í ræðu hv. þm. Klukkan er hálfeitt þannig að það er kominn sá tími sem áætlað var að gera matarhlé og hlé fyrir þingflokksfundi og því vill forseti beina því til hv. þm. að hann fresti ræðu sinni.)
    Þingmaðurinn verður að sjálfsögðu við þeirri ósk forseta.