Stjórn fiskveiða

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 15:09:32 (7712)


[15:09]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við 3. umr. um brtt. við frv. um stjórn fiskveiða finnst mér rétt að leggja áherslu á nokkur atriði. Í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða er kveðið á um að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögunum myndi ekki eignarrétt. Ég tel að það hafi verið misráðið að fella tillögu Alþb. um það mál. Menn segja það almennt alls staðar að þetta sé sameign þjóðarinnar, en hæstaréttardómurinn sem gekk í máli Hrannar á Ísafirði hefur afsannað það. Það þýðir ekkert fyrir menn að koma hér upp og segja að sá dómur sé ekki marktækur á þann veg að hér sé neitt frekar um eign ákveðinna manna að ræða. Hæstaréttardómurinn segir svo að ekki er um villst að það er í uppsiglingu og þróunin verður áfram á þann veg. Hingað til hafa menn treyst á það og gert þessi kvótakaup þannig upp að um kostnað væri að ræða, sem var settur inn í rekstrarkostnað útgerðanna, en þetta væri ekki eign sem ætti að afskrifa.
    Ég vil einnig leggja áherslu á að ég tel að lögin um stjórn fiskveiða hafi ekki skilað því sem þau áttu að gera. Þau áttu að stuðla að fækkun fiskiskipa, þau áttu að stuðla að verndun fiskstofna og tryggja trausta atvinnu og byggð um landið. Rétt áðan var verið að ræða um innflutning skipa að nýju og það er búið að ákveða það með þeirri afgreiðslu að aftur verður hleypt inn þeim skipum sem búið er að afskrá út úr landinu. Það er því ekki um það að ræða að lögin um stjórn fiskveiða hafi þau áhrif að um fækkun fiskiskipa verði að ræða.
    Það er einnig rætt um verndun fiskstofna en það er staðreynd að menn kasta fiski í sjóinn og samkvæmt því sem kom fram á fundi sjútvn. gæti það verið allt upp í 30%. ( Gripið fram í: Hver sagði það?) Það sögðu ákveðnir aðilar á fundi hjá sjútvn. Ég var ekki stödd á þeim fundi þar sem ég á ekki aðild að nefndinni, virðulegi þingmaður, en menn vita það samt sem áður, hvort sem það er 30% eða hvað sem það er, að fiski er kastað í sjóinn. Og þegar menn eru að tala um verndun fiskstofna sem á aðallega að gera með því að setja á aflatakmörkun sem segir okkur að ákveðnar þúsundir tonna megi veiða úr sjónum, þá er í raun og veru ekki verið að tala um verndun fiskstofna. Það er ekki verið að tala um það hvað kemur upp úr sjónum. Það er verið að tala um það hverju er landað. Þetta vilja menn ekki horfast í augu við á Alþingi. Þeir vilja ekki horfast í augu við að þegar verið er að tala um aflatakmarkanir og verndun fiskstofna með því að setja ákveðið hámark á það hve mikið skip fái úthlutað í aflamarki, þá eru menn ekki að tala um verndun fiskstofnanna vegna þess að það er miklu meira sem veiðist.
    Ef við tökum 30% af þorskstofninum, þá eru það 49.500 tonn. 30% sem verið er að tala um að sé kastað í sjóinn eru tæp 50 þús. tonn. Er þá rétt að tala um það að með því séum við að vernda fiskstofnana og sjá um að nýting þeirra sé sjálfbær og það sé verið að byggja þá upp með því að setja þetta aflamark á sem er bara það sem menn eiga að koma með að landi? Menn geta verið að henda tugum þúsunda tonna í sjóinn. Það hlýtur að hafa áhrif á uppbyggingu fiskstofnanna.
    Þessu vilja menn ekki taka á og tillaga sextánmenninganna, sem stundum hefur verið nefnd í umræðunni, gekk einmitt út á að viðurkenna það og reyna að hamla á móti því að fiski væri kastað í sjóinn, menn kæmu með aflann að landi.
    Það hefur stundum verið sagt að trillubátar væru með mikið af smáfiski í lönduðum afla. Hver

skyldi vera skýringin á því að trillukarlar séu stundum með mikið af smáfiski í lönduðum afla? Vegna þess að þeir eru utan kvóta. Þeir koma með allt að landi sem þeir veiða. Það skiptir ekki máli fyrir þá. Þeir koma með það sem kemur á öngulinn nema það séu smæstu fiskar sem þeir geta kastað lifandi en þeir koma með allt sem er dautt á önglinum eða er að drepast þegar þeir koma með þetta upp. Það liggur auðvitað þannig í því að vegna þess að þeir eru ekki háðir því að það sé metið hvað þeir koma með að landi í ákveðnu aflamarki, þá koma þeir með það sem veiðist að landi.
    Ég ætla ekki að fara að halda neitt langa ræðu um stjórn fiskveiða. Ég tel þetta vera eitt af þeim stóru atriðum sem menn ættu að þora að taka á á Alþingi. Það gerist bara ekki samkvæmt því sem stefnir í lok umræðu um þetta mál. En ég vil leggja áherslu á að ég tel að það verði enginn friður um stjórn fiskveiða meðan menn þora ekki að viðurkenna sannleikann. Það er jafnvel svo að Morgunblaðið, þetta málgagn allra eins og það á að heita, ( Gripið fram í: Blað allra landsmanna.) blað allra landsmanna, hefur viðurkennt það og varað við því að það verði enginn friður um stjórn fiskveiða nema tekið sé á öllum þessum málum í heild.
    Í 2. umr. um þetta mál ræddi ég nokkuð aflamark báta undir 10 tonnum. Nú er komin fram brtt. frá Jóhanni Ársælssyni og Steingrími J. Sigfússyni þar sem reynt er að koma að einhverju leyti til móts við báta undir 6 brl. sem hafa verið á aflamarki. Mér sýnist að hér sé verið að leita ákveðinna lausna. Þó að það leysi ekki málið er það þó tilraun í þá átt að viðurkenna þann vanda sem þeir standa frammi fyrir sem völdu aflamarkið á sínum tíma og hafa síðan tekið á sig ómælda skerðingu á þorskveiðikvótanum. Ég vil bara fagna því að þessi tillaga skuli vera komin fram og vænti þess að menn skoði hvort ekki sé hægt að samþykkja þessa tillögu á Alþingi. Allir vita að það hefur verið rætt mikið um það að þær eru lítils háttar lagfæringar, það er vissulega verið að samþykkja á hinu háa Alþingi nokkrar lagfæringar á lögunum um stjórn fiskveiða, en þessir bátar og þeirra vandamál standa algerlega eftir.
    Ég vil, virðulegi forseti, leggja áherslu á að á þessu þarf að taka. Ég tel einnig að því miður hafi ekki verið tekið á þeim vanda sem við er að etja í sambandi við það að menn kasta fiski í sjóinn.