Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 15:54:31 (7718)


[15:54]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það hefur orðið stefnubreyting í þessu máli. Nú liggur það fyrir að þessi sjóður eigi

að liggja í dái í einhvern tíma en ekki að verða lagður niður eins og tillagan var nú um. Ég vil segja um það, sérstaklega vegna orða hæstv. ráðherra hér áðan, að það er mín skoðun að það eigi ekki að láta þennan sjóð liggja í dái lengi. Mér finnst að að þurfi að taka á þessu máli strax, að undirbúa það með hvaða hætti sjóðurinn á að starfa í framtíðinni. Ég tel að það sé það mikilvægt verkefni sem þessi sjóður á og getur haft að það yrði mikið slys ef það ætti að láta þá hluti liggja lengi ógerða að undirbúa það með hvaða hætti hann á að starfa.
    Ég vil líka segja það að ég tel að það hefði verið miklu skynsamlegra að vera ekki að ráðstafa þeim fjármunum sem eru í sjóðnum einfaldlega vegna þess að það er þá meiri möguleiki til þess að sjóðurinn verði settur á stað til þess að þjóna því hlutverki sem til er ætlast af sjóði sem þessum með styttri fyrirvara heldur en ella. Mér finnst að það beri svolítinn brag af því að það sé ekki fullur hugur á bak við þennan viðsnúning málsins að tæma peningana úr sjóðnum og tala síðan um það eins og það sé sjálfsagt mál að hann muni verða óvirkur árum saman eftir að Alþingi skilur við málið með þessum hætti eins og nú liggur fyrir. Þess vegna lýsi ég yfir áhyggjum mínum af þessu, að það sé ekki full meining í því að ætla að nýta sér þennan sjóð, og segi ég það sem mína skoðun að það þurfi að vinna að þessum málum skipulega og strax og koma botni í það með hvaða hætti sjóðurinn á að vinna í framtíðinni.