Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 16:50:13 (7723)



[16:50]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Mér er ljúft að svara spurningum hv. þm. en ég treysti mér ekki til að gera það á svo skömmum tíma að andsvar nægi en engu að síður mun ég ekki taka langan tíma í svörin.
    Í fyrsta lagi er honum það kunnugt eins vel og mér, slíkum áhugamanni sem hann er eða segist vera um málefni sósíaldemókratismans í heiminum, að jafnaðarmenn, t.d. á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu, eru miklir áhugamenn um ábyrgðarvæðingu ríkisrekstrar, þar á meðal að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélagaform þannig að sömu kröfur séu gerðar til reksturs fyrirtækja án tillits til þess hvort hlutafjáreign eða eignarhaldið á þeim er að meiri eða minni hluta í eigu opinberra aðila eða einkaaðila. Þannig að það sem hér er á ferðinni, að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög þannig að rekstur þeirra sé með sama hætti og rekstur annarra fyrirtækja í landinu óháð eignaraðild, er bara einfaldlega sú þróun sem er að verða í löndunum í kringum okkur, þróun sem jafnaðarmenn t.d. á Norðurlöndum beita sér mjög ákaft fyrir um þessar mundir. Þetta hef ég kallað ábyrgðarvæðingu og er síður en svo spor aftur á bak. Ég teldi eðlilegt að fleiri atvinnufyrirtækjum en hér um ræðir í ríkiseigu eða eigu sveitarfélaga yrði breytt með sama hætti.
    Í öðru lagi ef það væri rétt hjá hv. þm. að orkusölusamningar þeir sem í gildi eru eða sambærilegir samningar við Áburðarverksmiðjuna væru mismunun, óheimil samkvæmt reglum EES, þá mundi engu máli skipta hver væri eigandi slíkrar verksmiðju, hvort það væru einkaaðilar eða félag eða ríkisvaldið. Það er ekkert betri mismunun nema síður sé að ríkið mismuni fyrirtæki í eigu sjálfs sín en að ríkið mismuni fyrirtæki í eigu samvinnuhreyfingar eða í eigu einkaaðila. Væru það því rök í máli hv. þm. að menn væru að ráðgera mismunun í orkusölusamningum til Áburðarverksmiðjunnar eftir að búið var að breyta henni í hlutafélag þá væri sú mismunun sú hin sama þó ríkið ætti verksmiðjuna og jafnóheimil.
    En þetta er bara einfaldlega ekki rétt hjá hv. þm. Það er ekkert sem bannar það að orkusölufyrirtæki geti gert samninga um orkusölu til einstakra orkukaupenda. Það er ekkert í EES-samþykktum sem bannar slíka samninga milli orkusala og orkukaupa. Nú er verið að undirbúa nýja tilskipun um orkumál á vegum Evrópusambandsins. Þar er gert ráð fyrir því að skipulag orkumála verði þannig að það verði sérstök félög mynduð um orkuvinnslu, það verði sérstök félög mynduð um orkudreifingu og það verði sérstök félög mynduð um orkusölu. Það er t.d. gert ráð fyrir því að það geti vel svo farið að menn telji það vera rétt af ýmsum ástæðum, m.a. byggðarlegum ástæðum, að það séu opinberir aðilar sem eigi orkudreifingarfyrirtæki, þ.e. orkuflutningsfyrirtæki, svo ég fari nú rétt með, en bæði orkuöflunarfyrirtæki og smásölufyrirtæki í orkusölu séu í höndum einstaklinga, sveitarfélaga eða ríkisins eins og verkast vill. Og svo við tökum t.d. ástandið í Noregi þá vita hv. þm. það væntanlega að þar eru mörg mismunandi orkusölufyrirtæki sem hafa hvert um sig samninga við fyrirtæki sem kaupa af þeim orku, t.d. garðyrkjubændur, t.d. stóriðjufyrirtæki sem þurfa á mikilli orku að halda og orkuverðið sem samið er um á milli þessara orkusölufyrirtækja og orkukaupanna er mismunandi eftir því hvaða sölufyrirtæki eiga í hlut, eftir því hvaða orkukaupaaðilar eiga í hlut og þetta hefur ekkert að gera með samkeppnisreglur EES vegna þess að samkeppnisreglur EES eru ekki við það miðaðar að þeir sem hafa með höndum sölu vöru eða þjónustu verði að selja öllum kaupendum vöru eða þjónustu sömu vöruna og sömu þjónustuna á sama verði. Það er því ekkert sem mælir gegn því að sá aðili sem selur orkuna, hvort sem það er Rafmagnsveita Reykjavíkur, Rarik, Orkubú Vestfjarða, Landsvirkjun eða einhver annar, geri þann orkusölusamning við orkukaupa sem þeir telja rétt að gera sín á milli. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. eins og best sést á því að í EES-tilskipununum sem í undirbúningi eru er einmitt gert ráð fyrir því að það séu mörg orkusölufyrirtæki sem starfi samhliða, sum

þeirra geti verið í eigu einkaaðila, sum í eigu sveitarfélaga, sum í eigu samvinnufélaga, sum í eigu opinberra aðila og að það sé frjáls samkeppni þeirra á milli um sölu á orku með nákvæmlega sama hætti og það er frjáls samkeppni á milli fyrirtækja sem selja aðrar tegundir af vöru og þjónustu.
    Þess vegna held ég að það sé engin hætta á því að Landsvirkjun eða hver sá aðili sem mundi taka við orkusölu til Áburðarverksmiðju ríkisins eða sambærilegra aðila á innanlandsmarkaði geti ekki gert þá samninga við þessa aðila sem þeir koma sér saman um og teljast vera hagfelldir fyrir báða.
    Virðulegi forseti. Ég tel með öðrum orðum að fyrirspurn hv. þm. byggist á misskilningi. Hún er ekki í samræmi við þá tilskipun sem Evrópusambandið er nú að undirbúa um skipulag orkumála á því svæði sem væntanlega kemur þá til kasta Alþingis að fjalla um þegar liggur fyrir niðurstaða í því máli sem verið er að vinna núna á vegum Evrópusambandsins.