Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 17:04:17 (7728)


[17:04]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mikið hefði það verið æskilegt ef ráðherrar Alþfl. hefðu á undanförnum árum gert jafnskýran greinarmun á því sem hæstv. ráðherra kallar ábyrgðarvæðingu og hinu sem kallað er einkavæðing. Fyrirrennari hans á ráðherrastóli, Jón Sigurðsson, ruglaði þessu ávallt saman og kynnti það sem einkavæðingu hvað eftir annað að ríkisfyrirtæki væri breytt í hlutafélagaform. Það er auðvitað engin einkavæðing, það er bara breyting á rekstrarformi ríkiseigna. Einkavæðing er að flytja ríkiseign yfir í hendur einkaaðila. Þannig að ég fagna því að það skuli vera kominn ráðherra frá Alþfl. í iðnrn. og viðskrn. sem gerir sér grein fyrir muninum á því hvort um rekstrarform er að ræða eða eignarform og væri æskilegt að því yrði framfylgt. En ég vek athygli ráðherrans á því að í greinargerð með þessu frv. er ekki minnst á ábyrgðarvæðingu, ekki einu orði. Þetta frv. er kynnt í greinargerðinni eingöngu sem einkavæðingarfrumvarp og þess vegna spyr ég ráðherrann: Er þetta einkavæðingarfrumvarp eða ábyrgðarvæðingarfrumvarp?
    Síðan sagði ráðherrann að það væri ekkert á valdi ráðherra að ákveða hvaða verð væri á orkunni frá Landsvirkjun til Áburðarverksmiðju ríkisins. Það er alveg rétt hjá ráðherranum. Fulltrúar Reykjavíkurborgar, Akureyrar og hluti ríkisfulltrúa í stjórninni geta með einfaldri samþykkt á stjórnarfundi breytt orkuverðinu til Áburðarverksmiðjunnar. Það var þess vegna sem ég spurði: Hefur ríkisstjórnin látið gera rekstrarathugun á arðsemi eignarinnar í Áburðarverksmiðju ríkisins út frá mismunandi orkuverði? Það hefur ekki enn þá komið fram neitt svar við þeirri spurningu. Hún er ítrekuð hér. Ég sé að hæstv. iðnrh. hefur ekki séð þá athugun þannig að ég bíð þá eftir því að hæstv. landbrh. svari spurningu minni um það hvort hann hefur látið gera slíka athugun.