Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 17:11:32 (7732)


[17:11]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. iðnrh. hefur í máli sínu svarað hv. 8. þm. Reykn. Ólafi Ragnari Grímssyni mjög skýrlega og skal ég ekki endurtaka það sem hann sagði hér. En varðandi þá fyrirspurn hv. þm. hvort ég geti lagt fram hér í þinginu athugun á arðsemi Áburðarverksmiðjunnar miðað við mismunandi orkuverð er því til að svara að auðvitað hafa slíkir reikningar verið lagðir fyrir á fundi með mér og forstjóra verksmiðjunnar. Ég vil líka segja að landbn. heimsótti Áburðarverksmiðjuna og forstjóri Áburðarverksmiðjunnar kom á fund landbn. Það er alveg vafalaust að þar hefur verið farið yfir rekstrarforsendur Áburðarverksmiðjunnar. Mér dettur ekki í hug að halda að fram hjá því hafi verið gengið í vinnu nefndarinnar og hygg að þau mál liggi þess vegna alveg hreint fyrir.
    Hins vegar svaraði hv. þm. sér sjálfur. Hann tók það skýrt fram síðar í sinni ræðu eftir að hann bar fram fyrirspurnina að hann sem stjórnarmaður í Landsvirkjun hafi átt þátt í því að samþykkja lægra orkuverð til Áburðarverksmiðju ríkisins en til annarra orkufyrirtækja þar sem rresturinn hefði ekki getað staðið undir jafnháu orkuverði. Hann svaraði sjálfur spurningunni og svar hans og ályktun þýðir jafnframt að slíkar athuganir hafa verið kunnar stjórn Landsvirkjunar.
    Ég vil að öðru leyti segja að eins og fram kom í máli hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, og kemur auðvitað ekki á óvart, er hann þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að fyrirtæki eins og Áburðarverksmiðja ríkisins séu rekin af opinberum aðilum, séu ríkisfyrirtæki, þó hann að hinu leytinu hafi ekki gert grein fyrir því hversu langt hann vilji fara í ríkisvæðingu á verksmiðjurekstri. Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar frá hv. þm. hvort hann telji eðlilegt að ríkið fari þar inn á ný svið, hasli sér völl í verksmiðjuiðnaði almennt hér á landi eða hvar hann telji að takmörkin eigi að vera. Það var algjörlega óhugsandi að skilja hv. þm. með öðrum hætti, enda kemur sú afstaða hans ekki á óvart. Alþb. hefur verið helsti málsvari þeirra sem vilja ríkisafskipti. Ég hélt að Alþb. hefði nokkuð horfið frá þeirri stefnu upp á síðkastið en það hefur komið fram í þessum umræðum að ýmsir þingmenn Alþb. virðast enn við það sama heygarðshorn.