Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 17:19:19 (7735)


[17:19]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er alveg hættur að skilja hæstv. ráðherra. Hann segir: Þessi gögn eru til um orkuverðið. Þau hafa verið lögð fram í landbn. En hann er ekki reiðubúinn til að leggja þau fram í þinginu. Ef þau hafa verið lögð fram í landbn., hæstv. ráðherra, þá er búið að leggja þau fram í þinginu. Auðvitað er það jafngildi þess að leggja gögnin fyrir þingið að þau séu lögð fram í þingnefnd. Ég geri enga athugasemd við það. Mér fullkomlega nægilegt að þau séu lögð fram í þingnefnd, en ég heyri hins vegar að einn nefndarmaður í landbn. lýsti því yfir í þingsalnum að hún minnist þess ekki að þessi gögn hafi verið lögð fram í þingnefnd. Þessi gögn um orkuverðið og áhrif þess á rekstrarstöðu og arðsemi Áburðarverksmiðjunnar eru því greinilega feimnismál fyrir hæstv. ráðherra. Hann getur ekki sagt bara einfaldlega: Gögnin eru í landbn. og það er velkomið fyrir þingmenn að kynna sér þau gögn, heldur lýsir hann því yfir alveg skýrt og skorinort að hann muni ekki leggja neina slíka reikninga fyrir þingið. Þar með er auðvitað ráðherrann að segja að hann telji að það þoli ekki dagsins ljós að sýna arðsemi Áburðarverksmiðjunnar út frá mismunandi orkuforsendum. Því auðvitað er það alveg ljóst eins og mun koma nánar fram í umræðunni á eftir að þegar búið er að selja þessa verksmiðju einkaaðilum þá eru nánast engin rök fyrir stjórn Landsvirkjunar að láta verksmiðjuna njóta áfram þeirra forréttinda í verðlagningu sem hún hefur notið til þessa vegna þess að þá væri verið að styrkja einkaaðila og arðsemi þeirra með fullkomlega óeðlilegum hætti samanborið við aðra einkaaðila á kaupendamarkaði Landsvirkjunar.