Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 18:05:43 (7744)


[18:05]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. spurði um það hvað gert hafi verið til þess að reyna að auka áburðarnotkun. Í fáum orðum sagt hefur verið gerð athugun á því hverjir möguleikar séu á því að flytja áburð út til Færeyja eða Grænlands. Það hefur lítils háttar verið flutt út til Grænlands ef ég man rétt og það er í athugun um Grænlandsviðskipti. Ég skal ekki um það segja á þessari stundu hvað úr því verður.
    Að öðru leyti er það rétt hjá hv. þm. að auðvitað er það gagnlegt að nota áburð til gróðurverndarstarfa, uppgræðslu og þar fram eftir götunum, en því eru auðvitað takmörk sett hversu miklum fjármunum ríkið kýs að verja til slíkrar áburðarnotkunar á hverju ári. Einhvers staðar eru takmörkin og samkvæmt fjárlögum getum við ekki gengið lengra í þeim efnum en gengið hefur verið á undanförnum árum.