Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 19:20:57 (7754)


[19:20]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er laukrétt hjá hv. þm. að þegar stærstu skrefin hafa verið stigin í atvinnusögu okkar Íslendinga hefur Sjálfstfl. ævinlega komið við sögu og hefur henn gert mjög rækilega grein fyrir því. Gleymdi að vísu Kísiliðjunni, gleymdi álverinu og ýmsu öðru sem til mætti tína. En það er auðvitað laukrétt hjá hv. þm. að aðrir flokkar geta ekki borið sig saman við Sjálfstfl. í þeim efnum. Það er líka laukrétt hjá þingmanninum að hér á árum áður var takmarkað fjármagn til hjá einkaaðilum þannig að þeir gátu ekki frekar en nú tekist á við hin stærstu verkefni, þannig er nú þetta. En í sambandi við Áburðarverksmiðjuna þá er sá kostur nú óhjákvæmilegur að minni hyggju að henni verði breytt í hlutafélag til að hægt sé að bregðast við nýrri samkeppni og til að Áburðarverksmiðjan geti leitað eftir nýjum færum til að tryggja því fólki atvinnu sem hjá henni vinnur. Ég held að það sé auðskilið, a.m.k. þeim sem hafa sett sig inn í rekstur verksmiðjunnar. Það er athyglisvert að hv. þm. er ósammála hv. þm. Svavari Gestssyni um hvort Áburðarverksmiðjan sé sterkt fyrirtæki eða ekki og ósammála hv. þm. Svarvari Gestssyni um það hvort hlutabréf Áburðarverksmiðjunnar séu góð eða vond söluvara.
    Það var ósatt hjá hv. þm. að ég hefði sagt að raforkukostnaður skipti ekki máli. Það voru ósannindi. Ég ætla ekki hv. þm. að hafa farið rangt með vitandi vits og vísvitandi, en þetta voru ósannindi. Staðreyndin er sú að orkukostnaður hækkaði um 20--25% á milli áranna 1992 og 1993 og er um 10% af rekstrargjöldum á árinu 1993, er afgerandi fyrir framleiðslukostnaðinn nú, eins og auðvelt er að sýna fram á. Undarlegt að hv. þm. skuli lesa rekstrarreikningana með þeim hætti að orkuverð skipti ekki máli.