Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 19:23:18 (7755)


[19:23]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við munum lengi minnast þess að á þessum degi, rétt fyrir kl. 19:30, lýsti landbrh. Sjálfstfl. Halldór Blöndal því yfir að stærstu skrefin í atvinnusögu Íslendinga hefðu verið þjóðnýtingarskrefin. Það var merkileg yfirlýsing. Við munum tryggja að hún komist áleiðis til frjálshyggjuliðsins í Sjálfstfl. Hann kallaði þau dæmi sem ég tók hér stærstu skrefin í atvinnusögu Íslendinga. Það voru allt saman ríkisrekstrar- og þjóðnýtingarskref sem ég var hér að fjalla um. Það má vel kalla það stærstu skrefin í atvinnusögu Íslendinga. Ég tel þó að ýmislegt fleira komi þar til. En mér finnst þetta merkilega nýr tónn hjá ráðherranum miðað við það sem hann hefur sagt fyrr í dag og í gær. Ástæðan fyrir því að ég tók ekki álverið og Kísiliðjuna er einfaldlega hlutur erlendra aðila í þeim rekstri. Ég var eingöngu að tala um þær verksmiðjur sem Íslendingar ættu alfarið einir eða að meiri hluta.
    Það er í sjálfu sér ánægjulegt að ráðherrann vill allt í einu nú kannast við sögu Sjálfstfl. í þjóðnýtingu atvinnulífs á Íslandi, en þá ætti hann að tala varlegar en hann hefur gert fyrr í þessum umræðum.
    Varðandi raforkuverðið þá var ég einfaldlega að vekja athygli á því að í fyrri ræðum sínum hér í dag gerði ráðherrann lítið úr því hvað hlut raforkan bæri í kostnaði fyrirtækisins og nefndi aðeins 7%. Nú er hann hins vegar réttilega, að mínum dómi, farinn að átta sig á því að raforkukostnaður fyrirtækisins er afgerandi.