Þróunarsjóður sjávarútvegsins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 21:37:10 (7760)


[21:37]
     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég fagna sérstaklega því að hv. þm. Jóhann Ársælsson tekur allt í einu svo mikið mark á tilskrifum samtaka í sjávarútvegi eins og LÍÚ og Samtaka fiskvinnslustöðvanna og útvegsmannafélögum hingað og þangað um landið. Sérstaklega er ég að velta fyrir mér hvort hann muni ekki fara að taka líka mark á þessum aðilum þegar kemur að hugmyndum þeirra um löggjöfina um stjórn fiskveiða og hvað þau halda um þá hluti, kvótakerfið og því um líkt. Það kemur mér ekkert á óvart að þessi samtök skuli bregðast svona við varðandi Þróunarsjóðinn og þessa gjaldtöku. Samtökin lögðust á sínum tíma gegn þeirri gjaldtöku sem var notuð til að fjármagna Hafrannsóknastofnun þannig að það kemur ekkert á óvart að síðan þegar þessi arftaki hennar er kominn leggjast þau líka gegn henni því að að sjálfsögðu eru samtökin í sjávarútvegi ekkert hress með að þurfa yfirleitt að greiða nokkurn skapaðan hlut. En ég held að þegar upp er staðið muni þessi sjóður reynast farsæl ráðstöfun fyrir sjávarútveginn og þessi 1.000 kr. gjaldtaka á tonn er að sjálfsögðu jafnórafjarri því að vera hagrænt stjórntæki í fiskvinnslu eins og tunglið er frá jörðinni.