Sjónvarpsútsendingar frá þingfundum

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 10:02:27 (7770)


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Út af þeim umræðum sem urðu hér í gær á kvöldfundi er sjónvarpsstöðin Sýn rauf útsendingu frá fundinum þvert gegn ákvæðum samnings sem í gildi er um þessar útsendingar hefur forseti haft samband við framkvæmdastjóra stöðvarinnar og óskað skýringar og viðbragða. Í morgun barst svo forseta svofellt bréf frá framkvæmdastjóranum, dagsett í dag:
    ,,Fyrir hönd Íslenska útvarpsfélagsins hf., sem sér um útsendingar Sýnar hf. samkvæmt sérstökum samningi, vil ég taka fram eftirfarandi:
    Eftir því sem næst var komist fyrir nokkrum vikum var það ætlan Alþingis að ljúka störfum um mánaðamótin apríl/maí. Í ljósi þess buðu forráðamenn Sýnar stjórnmálasamtökum á útbreiðslusvæði Sýnar aðgang að dreifikerfi sjónvarpsstöðvarinnar fyrir kynningarefni í tengslum við viðkomandi sveitarstjórnarkosningar eftir fyrstu viku maímánaðar og töldu sig hafa borð fyrir báru. Þegar ljóst var í gærkvöldi að þingfundir og útsending á umsömdu kynningarefni eins af fyrrgreindum stjórnmálaflokkum mundu skarast var það metið sem skársti kosturinn að gera um 20 mínútna hlé á útsendingu frá þingfundi og hleypa að einum af þremur fyrrgreindum kynningarþáttum. Þarna var reynt að gæta sanngirnissjónarmiða þar sem viðkomandi stjórnmálasamtök höfðu lagt í umtalsverðan kostnað við kynningu á umræddu dagskrárefni.

    Forráðamönnum Sýnar er ljóst að þetta kann að hafa gengið á svig við eitt ákvæði í samningi Sýnar og Alþingis og er hér með beðist afsökunar á því. Útsendingar Sýnar frá þingfundum verða ekki rofnar aftur að óbreyttum samningi.``
    Undir þetta bréf ritar Páll Magnússon útvarpsstjóri.
    Það er von forseta að með þessu bréfi sé máli þessu lokið.