Sjónvarpsútsendingar frá þingfundum

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 10:06:50 (7771)


[10:05]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér liggur fyrir afsökunarbeiðni frá sjónvarpsstöðinni Sýn vegna þeirra atburða sem urðu í gærkvöldi þegar brotið var samkomulag frá 8. apríl 1992, sem kveður með skýrum hætti á um það að útsendingar verði órofnar frá upphafi til loka funda. Það er eitt af ákvæðum þessa samnings.
    Ég ætla ekki að gera þá atburði sérstaklega að umræðuefni umfram þetta, en óska eftir því við virðulegan forseta að till. til þál., 332. mál þingsins, um sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi, verði tekin á dagskrá þingsins til síðari umræðu. Tillagan var til fyrri umræðu fyrir nokkrum vikum síðan og það varð að samkomulagi að tillagan færi með óformlegum hætti til forsætisnefndar þingsins sem skoðaði málið. Nú hefur forsætisnefnd haft ráðrúm til þess að fara yfir efni tillögunnar um nokkurt skeið og ég tel alveg nauðsynlegt, m.a. í ljósi þess sem hér gerðist í gær, að þessi tillaga komi til síðari umr. fyrir þinglok og vil vinsamlega fara þess á leit við forseta að forseti hlutist til um að tillagan komi hér til umræðu og afgreiðslu í þinginu.