Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 10:59:13 (7780)


[10:59]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Ekki kemur mér það á óvart að hæstv. fjmrh. hafi sofið illa í nótt þegar hann gerði sér ljóst að rætt yrði um skuldastöðu heimilanna og öll börnin sem búa hér einhvers staðar í borginni væru mætt á pallana til þess að hlýða á þessa umræðu, því að slíkar eru aðferðir Sjálfstfl. á þessu tímabili. Ég taldi að það yrði gert upp við Sjálfstfl. í borgarstjórnarkosningunum og líkti honum við íhaldið í Bretlandi. Alþfl. litli hefur áttað sig í Reykjavík. Hann stendur með félagshyggjuöflunum. Hann er vafinn inn í sterkasta framboð sem hefur komið í Reykjavík um langt tímabil og mun sigra íhaldið hér og það veit á gott að nú kemur það fram í skoðanakönnun að hæstv. félmrh., sem er þó eina hjartað í þessari ríkisstjórn, hefur 70% fylgi í sínum flokki meðan EB-sinninn, hæstv. utanrrh. Jón Baldvin, hefur aðeins 20%. Þetta veit á tíðindi og nýja tíma.
    Hæstv. fjmrh. fór út í það að lífeyrissjóðseignirnar væru miklar. Ég ræddi hér mjög um kynslóðina sem fædd er eftir 1950. Gera menn sér grein fyrir því að lífeyrissjóðirnir eru staddir með þeim hætti að þegar þessi kynslóð kemur að þeim sjóðum, þá verða þeir gjaldþrota? Ég hef mjög talað fyrir þá kynslóð sem nú á erfiðast á Íslandi, sem fastast og harðast hefur orðið fyrir barðinu á hæstv. fjmrh., skattakóngi Íslands um áratugi, þeim manni sem ber kannski þyngsta ábyrgðina á þeirri stöðu sem nú ríkir í þjóðfélaginu í atvinnu- og efnahagsmálum. Það ætti kannski, hæstv. forseti, fyrst og fremst að flytja vantraust á þennan hæstv. fjmrh. sem ætlar að skila ríkissjóði með 20 milljarða halla til þess að geta knúið upp vextina á nýjan leik.