Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 11:01:46 (7781)


[11:01]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ef ég þekkti ekki hv. þm. mundi ég halda að það væri vindhani sem hefði komið hér í ræðustól því að hann snerist slíka marga hringi að maður undraði sig á hvers konar skepna þetta var eiginlega. Hv. þm. gat auðvitað engu svarað af því sem ég beindi til hans. Hann hafði loksins áttað sig á því að Jóhanna Sigurðardóttir er þingmaður Reykvíkinga og Jón Baldvin líka og Alþfl. er í framboði Reykjavík með Framsfl. en hann baðst ekki afsökunar á því. Hann reyndi að snúa sig út úr því og fór hring eftir hring eftir hring eftir hring. Hv. þm. þarf líka að átta sig á því að það er ekki þessi ríkisstjórn sem hefur hækkað skattana. --- Ég skal gefa hlé meðan hv. þm. Svavar Gestsson hvíslar í eyrað á honum fleiri vísdómsorðum til að hann geti farið einn hringinn í viðbót hér á eftir. (Gripið fram í.) Það verður fróðlegt að heyra hvað hann segir þá þegar búið er að setja nýja snældu í hann af hálfu Alþb. (Gripið fram í.)
    ( Forseti (SalÞ) : Engin frammíköll.)
    Það er talað um skatta. Vill ekki hv. þm. bera saman skattahækkanir núverandi ríkisstjórnar og þeirrar sem síðast var, ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Hann ætti að gera það, hafa dug og döngun í sér til að gera það en þorir það ekki af því að hann veit að hann getur ekki staðist samanburð milli þessara tveggja ríkisstjórna.
    Það sem situr eftir í máli þessa hv. þm. er það að lífeyrissjóðirnir hafa bólgnað út sem betur fer. Það eru eignir fólksins. Skuldir heimilanna uxu langmest þegar Framsfl. var við völd. Þær hafa aldrei vaxið minna heldur en á sl. ári. Það eru staðreyndir sem liggja fyrir og nú held ég að hv. þm. ætti að koma hér upp og biðja forustumenn Alþfl. afsökunar á þessum mistökum sínum því að hann gleymdi sér rétt áðan þegar hann lýsti því yfir að það ætti að láta ríkisstjórnina hafa það í komandi borgarstjórnarkosningum. Þá væri kannski hv. þm. maður að meiri. En við skulum sjá hvort hann þorir að gera það eða ekki.