Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 11:07:57 (7784)


[11:07]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það hlaut að vera að hæstv. félmrh. gæti svarað fyrir sig og þyrfti ekki að hafa hæstv. fjmrh. í því. En ég vil segja við hæstv. félmrh. Hún stóð að því ásamt Alþfl. og þeirri ríkisstjórn sem var á undan þessari að koma hér á þjóðarsátt, slá verðbólguna niður. Þetta gerðist 1990. Eftir þann tíma ætluðu félagshyggjuflokkarnir að keyra þetta þjóðfélag með þeim hætti að fyrirtækin, að fólkið, að þjóðin sjálf næði tökum á sínum málum. Þess vegna er staðan sú alvarlegust að fyrirtækin hafa að einhverju leyti verið að ná tökum á sínum málum. En þessi skýrsla staðfestir það að þyngstu drápsklyfjarnar hafi verið lagðar á heimilin af þessari ríkisstjórn og þegar engin verðbólga hefur verið á Íslandi þetta tímabil, þá hafa raunskuldir heimilanna verið að aukast með þeim hætti að það er ískyggilegt.
    Við getum farið aftur í verðbólgutímann og tekið einhver ár. Um það þýðir ekkert að vera að deila. Auðvitað ríkti hér óðaverðbólga og menn glímdu við mörg mál, misgengi og fleira. Þetta er allt rétt. En það er, hæstv. fjmrh., framtíðin sem skiptir máli og um hana verðum við að hugsa.
    Hvað húsbréfakerfið varðar þá er það auðvitað áhyggjuefni hvernig það var keyrt áfram og hvernig það hefur valdið því að húsnæðisskuldir hafa hækkað verulega og hæstv. félmrh. þekkir það allra best að mjög margar fjölskyldur eru í neyð vegna þess að þar var gengið of langt, lánað of mikið og ekki síst að fyrstu aðgerðir þessarar ríkisstjórnar juku stórlega afföll og ég hygg að það sé hér neyðarhópur inni í þessari skýrslu á ungum aldri sem þarf á hjálp að halda vegna fyrstu aðgerða ríkisstjórnarinnar.