Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 11:12:49 (7787)


[11:12]

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Hvar eru þeir nú staddir í dag, hæstv. forseti, sem boðuðu velferð á varanlegum grunni fyrir þremur árum? Maðurinn sem er verkstjóri þessarar ríkisstjórnar, sem sagði hér fyrir örfáum dögum þegar eldhúsdagur var haldinn og gera átti þjóðinni grein fyrir árangri ríkisstjórnarinnar, þá sagði þessi hæstv. forsrh., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Vorið og sumarkoman hafa sérstaka þýðingu hér á Íslandi og þessa tíma er beðið með óþreyju. Að þessu sinni hefur vorað nokkuð seint, en nú er breyting að verða og senn er allt komið í sumarskrúða hér á landinu bjarta rétt eins og í náttúrunni skiptast á skin og skúrir í hinni efnahagslegu tilveru þessarar þjóðar. Gerbreyting hefur orðið á íslenskum efnahagsmálum á þremur árum. Það hefur kostað töluverð átök og fórnarlund en nú er árangurinn að koma í ljós á öllum sviðum.``
    Hvaðan kemur þessi maður og hvar er hann núna? Slík veruleikafirring er með ólíkindum. Það sem blasir við er að skuldir íslenskra heimila eru samtals 256 milljarðar í árslok. Það er meira en tvöföld fjárlög íslenska ríkisins og svo segir þessi maður að gerbreyting sé að verða í efnahagsmálum. Hann hefði átt að vera hér í dag og ræða við t.d. hvort sem það eru nú kennarar eða fóstrur sem hér eru með þessi yndislegu börn á pöllunum og spyrja það fólk hvað það sé með í laun á mánuði fyrir að gæta framtíðar þjóðarinnar. Það gerði ekkert til að hann vissi það. Það er með hreinum ólíkindum hvernig þessir hæstv. ráðherrar haga sér.
    Hér vorum við sem sagt að gera þjóðinni grein fyrir þessu kalda vori sem minnti meira á vorið í Prag en nokkurt annað vor. Og ef maður lítur yfir árangur vetrarins á þessu ári fjölskyldunnar, höfum við verið að vinna að einhverjum málum sem hafa bætt stöðu fjölskyldunnar í landinu? Nei. Þegar maður lítur yfir listann yfir þau lög sem samþykkt hafa verið á þessu þingi verða fyrir manni mál eins og afréttarmálefni, eftirlit með fóðri, lög um sölu notaðra ökutækja, heimild til að selja Seltjarnarneskaupstað eyjuna Gróttu og annað þess háttar. Þetta eru svo sem allt ágæt mál. En maður hefði nú haldið að þetta hv. þing hefði haft eitthvað þarfara að gera.
    Það liggur fyrir sem sagt, hæstv. forseti, að skuldir heimilanna hafi aukist á síðasta ári um 26 milljarða eða um 8,7% að raungildi og skýringanna er að leita eftir því sem skýrsla þessi segir. Hér segir á bls. 9 í skýrslunni:
    ,,Árið 1992 eru skuldir heimilanna 2% hærri en ráðstöfunartekjur. Bráðabirgðatölur fyrir síðasta ár benda til að vöxtur á skuldum heimilanna hafi enn haldið áfram að aukast og þær nú orðnar 16% hærri en ráðstöfunartekjur.`` Og hverjar eru skýringarnar? Það segir hér: ,,Eins og myndin og tafla 1 bera með sér hefur hækkun skuldahlutfallsins verið næsta samfelld en augljóslega farið vaxandi hin síðari ár. Það er helst að skuldahlutfallið sé stöðugt á árunum 1985--1987 en þá jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna í kringum 40%. . . .   Til skýringa á aukningu skulda frá 1990 má nefna mikla lækkun ráðstöfunartekna, mikla hækkun raunvaxta`` og mætti nú hæstv. fjmrh. hlýða á þetta ,,og loks aukið framboð lána til heimilanna með tilkomu húsbréfakerfisins.``
    Eitt er það sem gleymist í þessari skýrslu og það er að auðvitað eru skuldir heimilanna miklu meiri en þetta. Það vill nefnilega svo til að hvert einasta heimili er í fangelsi greiðslukortanna og sú var tíðin að ég stóð hér heldur einmana einhvern tíma á árunum eftir 1980 og varaði við að hleypa hér af stað greiðslukortakerfinu og hef margsinnis síðan auglýst eftir lögum um það fyrirbæri og spáði nú þá ef ég man rétt að það mundi í fyrsta lagi brjóta niður verkalýðshreyfinguna, enda væri leikurinn til þess gerður, mundi hækka vöruverð og hleypa íslenskum fjölskyldum í fangelsi skuldanna. Og reyni nú einhver að mótmæla því að svo sé nú.
    Einn er sá maður sem hefur skilið þetta eftir alllanga umhugsun. Sá maður heitir Sverrir Hermannsson og er bankastjóri í Landsbanka Íslands. Hér er viðtal við hann í Morgunblaðinu í dag og hann er spurður m.a. --- annars væri nú ástæða til að lesa þetta viðtal yfir hv. þingheimi, ( GÁ: Hlífðu okkur við því.) en hann er spurður: ,,Er samdráttur okkar í þorskafla ekki jafnstór þáttur í kreppunni og menn hafa viljað vera láta?`` ,,Ekki nálægt því`` segir bankastjórinn, ,,þó ég ætli ekki að draga úr alvöru hans. Ég vil benda á að á síðstu áratugum hefur á fárra ára bili fundist nýtt sjávardýr nýtanlegt. Ég bendi á hvað hefur komið í staðinn fyrir þorskinn: morðveiði af loðnu og stóraukinn afli í síldarstofnunum, humar og stórkostleg aukning á rækju og fleira. Auðvitað þolum við ekki mikil skakkaföll á meðan við erum að borga niður hundruð milljarða króna offjárfestingu og eyðslu.`` Og hann er spurður hvort þetta sé nú ekki hálfbillegt að hann sé að halda þessari gagnrýni á lofti þar sem hann hafi verið samábyrgur. Og hann er spurður: ,,Er ekki ábyrgðin alveg eins þín þegar horft er til stjórnmálaferils þíns?`` Þá segir bankastjórinn, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ég hef aldrei haldið því fram að ég væri saklaus í þessum efnum. Ég á ekki von á að axarsköftin þyki neitt betri þó ég hafi lagt hönd að smíði þeirra.``
    Það er ánægjulegt þegar einhver gengst við verkum sínum. Hér hafa menn verið að reyna, bæði hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh., að slá ryki í augu manna með því að svara út í hött þeirri gagnrýni við þeim alvörumálum sem hér eru á ferð því það er einfaldlega svo komið, hæstv. forseti, að á ári fjölskyldunnar er íslenska fjölskyldan gjaldþrota, hún er einfaldlega gjaldþrota. Skuldir heimilanna eru yfir 3 milljónir á hverja einustu fjölskyldu í landinu.
    Auðvitað eru til þær fjölskyldur sem skulda kannski miklu meira en hafa ekki áhyggjur af því eða þær skulda ekki neitt. Og það sem við höfum verið að eyða tíma okkar í hér í vetur er að færa enn fleiri milljarða á enn færri hendur, áfram er haldið. Þetta verður auðvitað að stöðva. Þessi ríkisstjórn hefur þess utan, eins og hv. 5. þm. Suðurl. minntist á áðan, verið að skerða kjör fjölskyldunnar hvarvetna, í almannatryggingakerfinu, í heilbrigðiskerfinu, í skólakerfinu og launakerfið er eins og við öll þekkjum það. Í landinu er því að skapast alvarleg fátækt. Það liggur fyrir að á sjúkrahúsum Reykjavíkurborgar er fjöldi sjúklinga sem ekkert er að annað en fjárhagsáhyggjur, fólk sem hefur brotnað undan álaginu, fólk sem er búið að missa heimili sín, í mörgum tilfellum splundrast fjölskyldur af þeirri angist sem fylgir því að geta ekki unnið fyrir sér og sínum. Til að bæta gráu ofan á svart ganga svo 8.000 Íslendingar atvinnulausir án þess að lyft sé litla fingri til að koma til móts við það fólk og sjá um að það hafi frumframfærslu.
    Ég veit ekki hvernig samviska þeirra manna er sem stjórna landinu, að geta farið heim af hinu háa Alþingi og látið þetta eins og vind um eyru þjóta. Og það verður að segjast eins og er að það hefur valdið mér miklum vonbrigðum að hæstv. félmrh., sem hefur oft talað í þá veru að hún væri áhugasöm um velferð fjölskyldnanna í landinu og launþeganna í landinu sem ekki eiga möguleika á öðru en sínum eigin vinnulaunum, skuli ekki hafa tekið til hendinni meira en gert hefur verið á þessu ári fjölskyldunnar. Einasta málið sem hún hefur beitt sér fyrir og ber að þakka það er að nú hefur orðið að lögum embætti umboðsmanns barna, en það er bara ekki hennar hugmynd. ( Félmrh.: Húsaleigubætur.) Húsaleigubætur, segir hæstv. félmrh., sem hefur leyft sveitarfélögunum í landinu ef þau vilja að greiða fólki húsaleigubætur. Tryggingin fyrir því að þau öll geri það er auðvitað engin. Ég legg því ekki mikið upp úr því. Nú eru menn mjög óþolinmóðir að leggja fram frv. sem ég ætla að vona að ekki gefist tími til, frv. til laga um Lífeyrissjóð sjómanna, til þess að skerða kjör sjómanna og ekki í fyrsta skipti á þessu kjörtímabili. En það verður reynt að koma í veg fyrir það að vísu og kannski springur það á tíma.
    Virðulegur forseti. Hér er ekki neitt gamanmál á ferðinni. Það er auðvitað hægt að ræða þetta mál frá ýmsum hliðum. Yfirlýsingarnar um eignir landsmanna í lífeyrissjóðum eru kannski hæpnar og held ég að flestum sé það ljóst að það er ekki örugg innstæða. Svo er nú komið að bankarnir, sem við hefðum auðvitað átt að taka heila umræðu um, færa sig æ lengra þannig að þær angistarfullu fjölskyldur sem þurfa að fylgjast með skuldum sínum þurfa nú að greiða peninga fyrir að fá að vita hvað þær skulda mikið. Á sama tíma eyðir ríkisstjórnin tíma okkar hér í að selja þau fyrirtæki landsmanna sem best ganga og færa þau yfir á hendur þeirra sem allt áttu og eiga fyrir.
    Virðulegur forseti. Ég held að vor hæstv. forsrh. sé í líkingu við vorið í Prag og ég held að það sé eins með okkur eins og Tékka forðum að við þurfum byltingu og við skulum gera þá byltingu. Við skulum gera flauelsbyltingu eins og þeir gerðu í Tékkóslóvakíu. Þessi ríkisstjórn verður að fara frá. Við þetta verður ekki unað.