Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 11:24:41 (7788)


[11:24]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af síðustu orðum síðasta hv. ræðumanns má kannski minna á að fram undan er tækifæri til þess að gera ýmsar byltingar, hvort sem þær verða úr flaueli eða öðru. En það sem við erum að ræða er skýrsla hæstv. félmrh. um skuldastöðu heimilanna. Ég þakka fyrir það að þessi skýrsla skuli komin hér fram, en minni jafnframt á að það var sérkennileg tilviljun að henni skyldi dreift daginn eftir eldhúsdagsumræðurnar og má segja að það hafi verið skvett framan í okkur köldu vatni þó að við höfum reyndar vitað að skuldastaðan var slæm. Það kom m.a. fram í frv. til lánsfjárlaga. Þar voru afar athyglisverðar upplýsingar um skuldir heimilanna og hvernig þær skiptast á milli hinna ýmsu geira samfélagsins. En í skýrslunni er farið nánar ofan í þessar tölur og þar er auðvitað margt mjög athyglisvert og umhugsunarvert.
    Í rauninni á það ekki að vera megininntak þessarar umræðu hvað er hverjum að kenna heldur fyrst og fremst það að greina ástandið og reyna að átta sig á því hvað er til ráða. Það er alveg ljóst að við stöndum frammi fyrir miklum vanda sem hangir saman við annað sem hefur verið að gerast í okkar efnahagslífi, því, eins og kemur fram í þessari skýrslu og ef við lítum til Norðurlandanna, þá hefur versnandi hagur heimilanna mjög mikil áhrif á alla neyslu í samfélaginu og þar með hag fyrirtækjanna og það hvernig framleiðslan nýtist, hvernig fólk kaupir framleiðsluvöru síns lands og þar með líka framleiðslu annarra. Allt hangir þetta saman, tekjur ríkissjóðs dragast saman og eitt leiðir af öðru þannig að það er mjög mikilvægt að gleyma ekki þeim hluta efnahagslífsins sem snýr að heimilunum í landinu.
    Í mínum huga þarf fyrst og fremst að greina þessi mál niður í þrennt. Það er í fyrsta lagi ástandið: Hvernig er ástandið, hvernig sjáum við það? Í öðru lagi: Hverjar eru orsakir þess ástands sem við stöndum frammi fyrir? Og í þriðja lagi: Hver eiga viðbrögðin að vera? Hvað á að gera til þess að grípa á þessum vanda?
    Ef ég fer nú í þessa þrjá liði, þá blasir það við okkur, sem fram hefur komið í þessari umræðu, að skuldir heimilanna í landinu sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafa aukist jafnt og þétt ef horft er þau 13 ár aftur í tímann sem tekin eru fyrir í skýrslu Þjóðhagsstofnunar.
    Því er við að bæta að samkvæmt þjóðhagsspá sem lögð var fram sl. haust var reiknað með að það mundi draga úr skuldaaukninginni og leiðir þar eitt af öðru því að auðvitað þarf fólk að bregðast við sínum fjárhagsvanda og þegar ráðstöfunartekjur minnka reynir fólk að bregðast við því. En það breytir ekki því að

fjöldi heimila í landinu og þá einkum þar sem hinir fullorðnu eru undir fimmtugu, á við miklar skuldir að stríða. Við hljótum að spyrja okkur að því: Hvaða þarfir er verið að uppfylla? Hvað er það sem veldur því að fólk tekur slík lán? Það er einkum tvennt sem kemur til. Það er annars vegar kostnaður vegna kaupa á húsnæði og hins vegar það sem við getum kallað aðrar þarfir heimilanna. Það sem er athyglisvert í þessum tölum er að skuldir vegna húsnæðiskaupa hafa heldur minnkað, en það sem við getum kallað neyslulán hafa aukist. Þar blasir við okkur að fólk er einfaldlega að leita allra leiða til þess að reka sín heimili og eins og þróunin hefur orðið þá er það staðreynd að fólk veltir bagganum áfram og bjargar sér sitt á hvað með lánum og greiðslukortum, en það hlýtur að koma að því fyrr eða síðar ef samdrátturinn heldur áfram í okkar þjóðfélagi að fólk getur einfaldlega ekki meira.
    Ef við skoðum ástæðurnar fyrir þessari miklu skuldaaukningu, þá á hún að hluta til rætur að rekja nokkuð aftur í tímann og ekki síst til þeirra kollsteypna sem hér hafa orðið í húsnæðismálum. Þar er fyrst að nefna það sem gerðist 1983 þegar vísitölur voru teknar úr sambandi og launafólk stóð frammi fyrir því að launin rýrnuðu meðan allt annað æddi áfram. Við þurfum ekki að rekja þá sögu lengi en fjöldamargir eru enn þá að glíma við þann bagga. Síðan var húsnæðiskerfið frá 1986 sem hvatti fólk mjög til þess að fjárfesta í húsnæði og eins og við minnumst, þá þróaðist það náttúrlega þannig að ekkert blasti við nema gjaldþrot þess kerfis. Það verður að horfast í augu við það. Þá gerðist það með þeim tilboðum sem þá voru í húsnæðiskerfinu að margir fóru út í ævintýri sem þeir réðu ekki við.
    Ég þekki það frá minni reynslu úr félagslega húsnæðiskerfinu sem fulltrúi í stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík að jafnvel þar, þar sem er þó nokkuð grannt fylgst með stöðu þeirra sem eru að sækja um íbúðir, komu upp fjöldamörg dæmi um fólk sem réði ekki við þau kjör sem þar var boðið upp á. Staðan er einfaldlega sú að það er allstór hópur fólks í okkar þjóðfélagi sem ekki ræður við húsnæðiskaup hvaða kjör sem í boði eru en fólk fer út í þau samt. Þær breytingar sem hafa verið gerðar, bæði með húsbréfakerfinu og með þeim breytingum sem gerðar voru á sínum tíma á félagslega húsnæðiskerfinu, eiga í rauninni að koma í veg fyrir að slíkt gerist vegna þess að það er þó reynt núna að meta greiðslugetu fólks sem ekki tíðkaðist áður, t.d. í félagslega húsnæðiskerfinu, og leiddi auðvitað til ýmiss konar vandræða.
    Það sem okkur verður einkum starsýnt á eru þessi síðustu ár þar sem við höfum orðið vitni að mikilli skuldaaukningu. Þar er orsökin auðvitað sú efnahagsþróun sem við höfum horft upp á á undanförnum árum, samdrátturinn sem við höfum verið að ganga í gegnum og svo stefna ríkisstjórnarinnar ofan í þann samdrátt. Þar verður mér ekki síst starsýnt á þróun launamála undanfarin ár.
    Ég hygg að sá órói sem við höfum orðið vör við að undanförnu, sérstaklega í hópi opinberra starfsmanna, sýni að margar stéttir eru við það að springa vegna þess að launaþróunin hefur verið þannig að laun hafa nánast staðið í stað um árabil meðan vextir hafa verið himinháir og jafnframt hefur orðið mikill samdráttur í vinnu. Bæði hjá hinu opinbera og annars staðar hefur það gerst að yfirvinna hefur verið skorin niður og í hinum opinbera geira hafa menn heldur reynt að deila niður á sig vinnunni. Síðan bætist við atvinnuleysið og þeir erfiðleikar sem fjöldi fjölskyldna hefur lent í út af því þannig að það er margt sem þarna veldur. Staðan er orðin sú að við horfum upp á fátækt. Hér er því miður mikil fátækt til staðar og það sést ekki síst á því að að undanförnu hefur áttunda hver fjölskylda í Reykjavík þurft að leita aðstoðar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar, áttunda hver fjölskylda, og mætti nú Sjálfstfl. líta í eigin barm þegar hann er að undrast það að honum er ekki spáð sigri í Reykjavík. Þarna er ein ástæðan fyrir því.
    Þar á ofan bætast ýmsar þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur gripið til á undanförnum þremur árum, aukning á skattbyrði, þjónustugjöld og ýmiss konar álögur sem auðvitað bitna á fjölskyldunum í landinu.
    Það er eitt atriði sem ég vil gera sérstaklega að umtalsefni og hefur vakið mig mjög til umhugsunar. Það er það sem hér kemur fram varðandi aukningu á skuldum námsmanna. Ef litið er á töfluna á bls. 17 og ef við lítum yfir tímabilið frá 1980--1993, þá eru þarna ógnvænlegar tölur á ferð. 1980 voru skuldir við Lánasjóð ísl. námsmanna 168 millj. en árið 1993 eru þær komnar upp í rúmlega 31 milljarð kr. Með þeim breytingum sem núv. ríkisstjórn gerði á Lánasjóði ísl. námsmanna þá mun skuldabyrði einstaklinganna aukast verulega. Við munum horfa upp á það á næstu árum að fólk gengur út á vinnumarkaðinn, ungt fólk með miklar og þungar námsskuldir á bakinu og fólk sem síðan þarf með einhverjum hætti að koma sér upp húsnæði. Ég vitna í það sem núv. formaður Lánasjóðs ísl. námsmanna, Gunnar Birgisson, sagði á fundi með námsmönnum úti í háskóla: Þið munuð aldrei ráða við þetta. Þið munuð aldrei geta komið ykkur upp húsnæði, sagði núverandi formaður Lánasjóðs ísl. námsmanna. Þetta er staðan sem ungt fólk stendur frammi fyrir. Þarna er um mjög mikla skuldabyrði að ræða sem er fram undan og finnst okkur, sem erum nú að greiða upp okkar námslán núna, vísitölutryggð námslán, þó nóg um að standa undir því sem við erum að borga. Þarna er því fram undan mikill vandi. Skuldirnar við lánasjóðinn eru nú þegar miklar og þung greiðslubyrði á þeim en fram undan er enn meiri vandi.
    Ég vil líka benda á að þessi vandi kemur sérstaklega við konur og þá ekki síst einstæðar mæður því eins og kemur fram í þessari skýrslu þá er ástandið einna verst hjá því fólki sem lægstar hefur tekjurnar. Eins og kemur fram í skýrslunni greiðir fólk með tekjur í kringum milljón og þar undir 20% af tekjum sínum í vexti sem er gífurlega mikið. Sumt af því er vegna húsnæðismála en þetta er auðvitað líka vegna skammtímalána og annarra lána sem fólk er að taka til þess að bjarga sér áfram. Ég veit það að þetta hefur komið afar þungt niður á konum sem eru einar með sín heimili og sín börn og þar er víða mikið neyðarástand. Þetta verðum við að horfast í augu við.

    Virðulegi forseti. Tíma mínum er nú alveg að verða lokið. En ég á síðasta liðinn eftir, þ.e. hvernig á að bregðast við þessu. Ég tek undir það sem fram kemur í skýrslunni og fram kom hjá hæstv. félmrh. að það er mjög brýnt að auka fræðslu um fjármál í skólum landsins og til alls almennings til þess að fólk átti sig betur á sinni stöðu og því hvernig hægt er að halda utan um fjármálin. Ég tek undir að það er mjög nauðsynlegt að setja lög um greiðsluaðlögun, en það er líka nauðsynlegt að taka á því kerfi sem bankarnir styðjast við, þ.e. ábyrgðarmannakerfið sem hefur bitnað mjög illa á mörgum einstaklingum. Það er eins og bankarnir horfi fyrst og fremst á það hvort einhverjir aðrir geta tekið á sig byrðarnar, ekki hvort þeir sem eru að taka lánin geti staðið undir þeim. Við þekkjum eflaust öll mörg dæmi þess hve fólk hefur lent í miklum vandræðum vegna þess að það skrifaði upp á lán hjá ættingjum sínum eða kunningjum.
    Síðast en ekki síst vil ég enn einu sinni ítreka að það verður að eiga sér stað uppstokkun í launamálum í þjóðfélaginu, ekki síst hjá hinu opinbera því að sú mikla pressa sem láglaunastefnan veldur og sú mikla klemma sem hún setur fólk í og það mikla óréttlæti sem láglaunastefnan felur í sér er algerlega óviðunandi og breyting verður að eiga sér stað.