Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 12:01:12 (7795)


[12:01]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég efast ekki um það að til eru þeir sem taka neyslulán án þess að þurfa á þeim að halda og valda síðan ekki því að greiða af þeim. En hvert er frelsi þeirra sem þurfa að koma yfir sig húsnæði á sáralágum tekjum og standast jafnvel ekki greiðslumat Húsnæðisstofnunar nema að einhverju mjög takmörkuðu leyti? Hver er möguleiki þeirra sem hafa 46 eða 47 þús. kr. í ráðstöfunartekjur fyrir sig á mánuði því að þetta eru full mánaðarlaun fyrir fulla vinnu? Og atvinnuleysisbætur sem boðið er upp á, hver er veruleiki þessa fólks og hvert er frelsi þessa fólks? Ég sé ekki að það sé um val að ræða og það sé möguleiki á öðru en reyna að skrapa sér það ráðstöfunarfé sem hægt er og það er boðið upp á slíkt. Ég get tekið undir að það er ekki góð lausn að vísa fólki í þessari stöðu á bankana, jafnvel upp á ótrygg veð eða ábyrgð ættingja sinna og vina og þannig að allt lendi í kaldakoli. Þar af leiðandi verður að gera eitthvað róttækt í afkomumöguleikum fólks, launum og því hvernig fólk getur framfleytt sér og það gerir þessi ríkisstjórn ekki.