Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 12:05:42 (7798)


[12:05]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Hér er vikið að máli sem ég nefndi einnig og tekið er á í þessari skýrslu, að þrátt fyrir þessar tölur, 40 milljarða, sem eru allt of háar tölur, þá kemur fram í skýrslunni að bankakerfið íslenska hefur ekki gengið í gegnum jafnviðamikla kreppu og bankakerfið á Norðurlöndunum sem er gefin sem skýring á því hvers vegna skuldir heimilanna hafa aukist meira hér að undanförnu en á Norðurlöndunum. En þrátt fyrir þetta, og ég tek undir það með þingmanninum, er 40 milljarða tap náttúrlega allt of hátt og ekki skynsamlega reknar stofnanir sem taka jafnmikla áhættu og þar er lýst.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir las upp úr viðtali við Sverri Hermannsson bankastjóra þar sem hann vildi varpa ábyrgðinni af þessu að verulegu leyti á afskipti stjórnmálamanna af bankastofnunum. Ég held að ef við sem stjórnmálamenn ætlum að þrengja að frelsinu á lánamarkaðinum séum við að fara aftur til baka einmitt til þess tíma þegar stjórnmálamenn höfðu of mikil afskipti af lánveitingum stofnana sem m.a. eru orsakir fyrir því hvers vegna útlánatöpin hafa verið svona mikil. Það eru hin pólitisku afskipti af ýmsum málum varðandi atvinnurekstur hér í landinu sem er höfuðorsökin fyrir því að mínu mati að útlánatöpin eru jafnmikil og raun ber vitni.