Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 12:26:05 (7802)


[12:26]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það hefði verið æskilegt ef hæstv. fjmrh. hefði treyst sér til að vera viðstaddur. Staðreyndin er náttúrlega sú að þetta mál sem hér er til umræðu kemur ekkert síður inn á starfssvið hæstv. fjmrh. en hæstv. félmrh. þó að það sé félmrh. sem afhendi þessa skýrslu og beri sem slík ábyrgð á þessum málum. En auðvitað er afkoma heimilanna og skuldaaukning þeirra, sem hér er sérstaklega til umræðu, nátengd því hvernig byrðunum er skipt í okkar þjóðfélagi og þá ekki síst hvernig þeim er dreift með tilliti til þess hvað menn leggja af mörkum í sameiginlega sjóði. Ég tel reyndar og vil láta það koma hér fram að þessi skýrsla, góð svo langt sem hún nær, gangi allt of skammt og það sé mikil þörf á því að vinna mikið betur úr þessum málum. Ég vil eindregið óska eftir því að hæstv. félmrh. taki það til skoðunar að láta halda þessu starfi áfram og vinna ítarlegri gögn þar sem m.a. verði í sama plagginu borin saman þróunin í þessum efnum, ekki bara innbyrðis milli fjölskyldnanna og milli fjölskyldna á Íslandi og í öðrum löndum heldur líka þróunin gagnvart fyrirtækjunum, ríki, sveitarfélögum og öðrum aðilum í landinu vegna þess að ef við viljum fá einhverja heildarmynd af því hvernig málin eru að þróast, skuldabyrðin er að breytast, þá verðum við að geta borið saman helstu aðilana í þjóðfélaginu og þó að það séu til gögn í hagskýrslum um þessa hluti þá eru þeir ekki teknir saman á einum stað.
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi sýnir þessi skýrsla það svart á hvítu að skuldaaukningin hjá almenningi á síðustu árum er alveg geigvænleg. Það skiptir nánast ekki máli þó að lítils háttar villa hafi slæðst inn í skýrsluna, sem reyndar er búið að leiðrétta, að skuldaaukningin á föstu verðlagi milli áranna 1992 og 1993 sé 18 milljarðar en ekki 26. Það breytir ekki því að þarna er á ferðinni alveg óhuggulegar tölur.
    Í öðru lagi er nauðsynlegt að ræða um orsakir þessa mikla vanda, hvernig stendur á því að á sama tíma

og almennt ríkir samdráttur, minni eyðsla og miklu minni innflutningur á vörum, þá skuli skuldir heimilanna eftir sem áður halda áfram að aukast svona gífurlega. Ef heimilin og eyðsla þeirra væri í takt við annað í landinu þá hefðu auðvitað skuldirnar átt að minnka hjá heimilunum í takt við minni eyðslu, minni innflutning og almennan hægagang í efnahagsstarfseminni en því er ekki aldeilis að heilsa. Staðreyndin er sú að þarna heldur áfram alveg óhugguleg skuldaaukning.
    Hver er þá ástæðan, hæstv. forseti? Menn verða auðvitað að skoða skuldaaukninguna í samhengi við aðrar breytur og það er ekki bara nóg að mæla þetta eftir kjörtímabilum og segja af því að skuldir heimilanna hafa aukist í tíð fyrri ríkisstjórna þá er þetta í lagi eða a.m.k. ekki verra núna en áður, eins og hv. þm. Björn Bjarnason var að reyna að sanna. Staðreyndin er sú að út úr þessum gögnum má lesa miklu ískyggilegri skilaboð gagnvart síðustu árum, síðustu missirum, heldur en sennilega nokkurn tímann fyrr þegar þetta er sett í það samhengi sem vera ber. Með öðrum orðum held ég því fram að þessi skuldaaukning sé algjörlega þvinguð í þeim skilningi að þarna er ekki á ferðinni í neinum tilvikum, eða í miklum minni hluta tilvika, einhver frjáls, sjálfstæð ákvörðun fólks um það að taka lán til að gera einhverja tiltekna hluti. Það er ekki svo. Það sér maður á því að skoða samdráttinn í húsnæðisbyggingum, samdráttinn í fjárfestingum, samdráttinn í vöruinnflutningi og öðru því sem venjulega stendur fyrir eyðslu fólks. Það er ekki um slíkt að ræða á þessum síðustu tímum. Þetta er örvæntingarfullt fólk í neyð sem neyðist til þess að safna skuldum til að geta haldið áfram að reka sín heimili og vera til í samfélaginu. Ástæðurnar fyrir því að þetta gengur svona til á síðustu árum eru auðvitað margþættar en ég held að þar megi nefna hluti eins og minni atvinnu. Þá er ég ekki bara að tala um þær þúsundir atvinnulausra sem í tíð þessarar ríkisstjórnar verða auðvitað safna skuldum til að draga fram lífið því engin framfærir stórri fjölskyldu af atvinnuleysisbótum. Þarna er á ferðinni líka minni yfirvinna og minni launatekjur almennt, mikill samdráttur í heimilistekjum vegna minni yfirvinnu. Þetta endurspeglar fallandi kaupmátt ráðstöfunartekna. Kaupmáttarhrapið er orðið geigvænlegt, líklega einhvers staðar á bilinu 15--18% síðan 1987--1988 og þar af sjálfsagt að nálgast 10% í tíð þessarar ríkisstjórnar.
    Síðan má spyrja sig að því hvort að einhverju leyti sé þarna á ferðinni, eins og reyndar er gefið í skyn í skýrslunni, breytt áhersla bankakerfisins. Að bankakerfið hafi ósköp einfaldlega þegar það stóð frammi fyrir hinum miklu töpum í atvinnulífinu farið að reyna að flytja útlánin að einhverju leyti yfir á almenning og beitt til þess öllum hefðbundnum markaðsaðferðum og klækjum að gylla fyrir almennningi að eiga viðskipti við bankana og að einhverju leyti sé um slík áhrif að ræða. Ég ætla ekki að útiloka það en þau eru væntanlega ekki stórvægileg í þessu enda er mönnum svo sem engin afsökun í því ef þeir fara ógætilega í lántökum af slíkum ástæðum þó lögð séu fyrir þá gylliboð.
    Ég óttast því miður að að langmestu leyti sé þetta þvinguð lántaka fólks sem í örvæntingu sér engin önnur ráð til að framfleyta sér frá degi til dags og sínum fjölskyldum heldur en að skuldsetja sig.
    Það er athyglisvert í fjórða lagi eða þriðja, hæstv. forseti, að hér koma fram upplýsingar um hlutfall húsnæðisskulda sem ganga þvert á þá kenningu sem uppi hefur verið undanfarin ár. Sérstaklega hefur það verið íþrótt íhaldsmanna að útskýra skuldaaukningu heimilanna með því að það væri rekið hér eitthvert sérstakt velferðarkerfi í húsnæðislánum sem hefði þýtt að stórauknar skuldir hefðu færst yfir á heimilin í gegnum auknar lántökur vegna húsnæðiskaupa. En þessar tölur benda til þess að hlutfall húsnæðisskulda af heildarskuldum fólks hafi farið lækkandi á undanförnum árum og það er auðvitað þetta hlutfall sem við hljótum að horfa fyrst og fremst á og vantar þá inn í þann samanburð eftirstöðvalánin sem áður stóðu fyrir verulegum hluta af lántökum fólks vegna húsnæðiskaupa, oft þriðjung til fjórðung sem voru svonefnd eftirstöðvabréf. Ég held því að það sé ástæða til að staldra við þá staðreynd að þarna er að verulegu leyti hrakin sú klisja að þessi skuldaaukning sé fyrst og fremst vegna þess að menn hafi getað vaðið í opinbera sjóði og fengið þar ótakmörkuð lán til húsnæðiskaupa. Það er ekki skýringin, a.m.k. ekki eina skýringin. Ber þar allt að sama brunni. Þarna er á ferðinni lántaka af öðrum toga sem á rót sína að rekja beint til versnandi lífskjara í landinu.
    Ískyggilegasta talan í þessu er þó sú staðreynd, sem hér er dregin fram með skýrum hætti, hvernig skuldirnar dreifast á aldurshópa í þjóðfélaginu. Hér er það alveg staðfest, sem ræðumaður a.m.k. hefur oft haldið fram á undanförnum árum, að það er einn þjóðfélagshópur, einn aldurshópur sem er alveg sérstaklega píndur eins og við Íslendingar höfum haft hlutina undanfarin ár og það er ungt fólk, ungar barnafjölskyldur, það er aldurshópurinn 30--40 ára. Langmestar skuldir eru hjá fólki á aldursbilinu 31--35 ára og fara síðan að lækka eftir að þeim aldri er náð. Hvaða hópur er þarna á ferðinni? Þessi aldurshópur, með ytri mörkum kannski yfir 25--40 ár er þetta sama fólk sem er að koma sér upp húsnæði, er með börn á framfæri, fær á sig allar þær skerðingar og þær ráðstafanir til íþyngingar sem gerðar hafa verið undanfarin ár, skuldar mest, borgar vextina o.s.frv.
    Að sama skapi eru auðvitað athyglisverðar tölur á hinn veginn sem sýna að 70% fjármagnseigna og eigna eru hjá elsta aldurshópnum og sá hópur nýtur að sama skapi góðs af háum vöxtum og skattfrjálsum tekjum af þeim. Ég held því að hér sé enn ástæða til að staldra við og velta því fyrir sér hvort ekki er búið að ganga allt of langt í íþyngjandi aðgerðum gagnvart þessum aldurshópi á síðustu árum. Það er þessi hópur sem fær á sig af fullum þunga skerðingu barnabóta, það er þessi hópur sem fær á sig af fullum þunga skerðingu vaxtabóta, það er þessi hópur sem lendir í útgjöldum vegna barna í heilbrigðiskerfinu og fleiri og fleiri þættir og ber þar allt að sama brunni. Það er þessi hópur sem býr við langhæstu jaðarskattprósentuna eins og hún er nú útfærð. Það er þetta fólk sem býr við það að á vissu tekjubili, kannski frá 120--200 þús. kr. á mánuði, þá fara 60--70% sem það vinnur sér inn í skatta vegna þess að á móti koma skerðingar á vaxtabótum, barnabótum og fleiri þáttum. Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt, hæstv. félmrh., að vinna þarna rækilega vinnu og fara yfir það hvernig byrðunum er dreift í þessu efni. Þetta fólk er gjarnan líka í þeim hópi sem fékk á sig misgengið á sínum tíma, a.m.k. eldri hluti þessa fólks.
    Að lokum, hæstv. forseti, af því að tíminn er naumur til að ræða svona stórt mál og hefði auðvitað þurft að hafa svona tveggja daga umræðu um þessa stöðu, skuldir heimilanna, atvinnuástandið og það örvæntingarástand sem liggur á bak við þessar tölur hjá þúsundum heimila í landinu. Að lokum skulum við hugleiða: Hvað segir þessi skýrsla okkur um þær ráðstafanir sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gera í skattakerfinu undanfarin 2--3 ár? Skuldaaukningin upp á 18 milljarða á síðasta ári --- hvað stór hluti hennar er beinlínis afleiðing af því að ríkisstjórnin flutti til byrðar yfir á þetta fólk í skattkerfinu? Þriðjungur segi ég. Milli 5 og 6 milljarðar króna voru fluttir af fyrirtækjum og fjármagnseigendum yfir á launafólk á síðasta ári í formi þess að aðstöðugjald var fellt niður á einu bretti og tekjuskatturinn hækkaður á móti. Í formi þess að skattfrelsismörkin voru lækkuð og tekjuskattur fyrirtækjanna lækkaður á móti. Er einhver glóra í því að í tíð þessarar ríkisstjórnar skuli vera búið að lækka tekjuskattsprósentu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Eimskipafélags Íslands úr 45 í 33% og þetta eru fyrirtæki sem græddu annars vegar 600 millj. og hins vegar 400 millj. á síðasta ári? Og hvert eru byrðarnar fluttar? Þær eru fluttar yfir á launafólkið sem er að safna skuldum. Sem er að safna skuldum svo milljörðum og milljarðatugum skiptir. Ég segi: Hafi menn haft einhverja ástæðu til að gagnrýna þetta fyrr þá eru þær tvöfaldar og margfaldar nú.
    Það er þannig að útkoman úr þessu dæmi hjá hæstv. ríkisstjórn, þegar það er skoðað hvernig byrðunum er dreift, er með miklum endemum. Við skulum minnast þess að skattfrelsismörkin hafa frá því að staðgreiðsla skatta var tekin upp lækkað úr því sem þau ættu að vera núna, um 70 eða 75 þús. á mánuði, niður í hvað? Eru þau ekki um 57 þús. á mánuði í dag? Í tvígang hefur hæstv. ríkisstjórn lækkað skattfrelsismörkin. Hvað segir það okkur gagnvart því fólki sem á í hlut og hefur verið að auka skuldir sínar stórkostlega á undanförnum árum?
    Það kemur hér fram, hæstv. félmrh., að það er tekjulægsta fólkið sem hefur aukið skuldir sínar mest. Samkvæmt skattframtölum ársins 1993 eru skuldir hlutfallslega mestar hjá þeim sem telja fram lægstar tekjur. Þar kemur m.a. fram að hjón sem eru með tekjur undir 1 millj. kr. greiða að meðaltali 20% tekna sinna í vexti og er svo sem engin furða. Auðvitað er þetta þannig að þessar byrðar hafa færst yfir á þá sem síst skyldi og það er í raun og veru stjórnarstefnan í hnotskurn, hæstv. forsrh., og velkominn í salinn. Væri nú gaman ef hæstv. forsrh. hefði tíma til að staldra við svona 20--30 sekúndur þegar þetta dagskrárefni, skuldir heimilanna, er að fara fyrir þingið.
    Í hnotskurn er niðurstaða málsins þessi, hæstv. forseti. Það er staðfest hér í þessari skýrslu, þó hún sé takmörkuð og gangi ekki nógu langt, að það sem gerst hefur í tíð hæstv. ríkisstjórnar er stórfelldur tilflutningur skattbyrðar frá fyrirtækjum yfir á launafólk og það kemur verst við þá sem lægstar hafa tekjurnar. Ég hygg að það megi segja að sá hópur sem standi hér alveg upp úr þegar allt er skoðað sé tekjulágt barnafólk á aldrinum 30--35 ára. Það er markhópurinn sem hæstv. ríkisstjórn hefur fundið sér til að þrautpína, það sannar þessi skýrsla.