Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 12:59:44 (7805)


[12:59]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég taldi að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á Norðurlöndunum væru margar hverjar þannig --- ég er ekki að segja að við þurfum að taka það allt nákvæmlega upp, okkar frændþjóðir geta sjálfsagt líka lært af okkur á einhvern hátt --- að þar væri ýmislegt sem við gætum hagnýtt okkur þegar við ætlum að reyna að leysa eitthvað úr þessum málum. Ég tel einnig að það sem þessi skýrsla bendir okkur á sé að það vantar meiri fræðslu um fjármál því ég hygg að mjög margir hafi, ef maður getur orðað það svo, ekki fattað það þegar verðtryggingin var komin á. Þá voru menn mjög lengi að átta sig á því hvaða áhrif það hefði á skuldastöðu. Menn þekktu bara ekkert inn á það hvaða áhrif verðtrygging hefði. Og fræðsla um hana hefur ekki fylgt í kjölfarið á þessum breytingum. Menn eru kannski aðeins núna, 13 eða 14 árum síðar, að átta sig á þessu og það hefur verið of dýrt.
    Ég held líka, eins og ég sagði áðan, að bankarnir þurfi að temja sér önnur vinnubrögð við að meta lánshæfni, að hún fari meira eftir greiðslugetu en endanlega eftir steinsteypuveði. Síðan tel ég að það þurfi að jafna launin í landinu meira og draga úr skattbyrði einstaklinga sem hefur aukist alveg gífurlega á tíma þessarar ríkisstjórnar.