Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 14:44:58 (7816)


[14:44]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ástæðulaust að halda því fram af hálfu hv. þm. Svavars Gestssonar að Sjálfstfl. hafi eitthvað skirrst við því að taka ábyrgð á því að hækka skatta á einstaklinga. Hann hefur alltaf viðurkennt það. Það er verið að taka hér fram heildarskattheimtu. Það var að sjálfsögðu ákvörðun Sjálfstfl. og Alþfl. í stjórnarsamstarfi að flytja skattheimtu frá fyrirtækjum til einstaklinga. Og hvers vegna var það gert, hv. þm.? Vegna þess að það var óhjákvæmilegt að reyna að rýmka stöðu fyrirtækjanna vegna þess að í stöðu fyrirtækjanna er fólgin von um að atvinnulífið taki við sér aftur. En þegar litið er á heildarskattheimtuna, og það ber að sjálfsögðu að líta á heildarskattheimtuna á ársgrundvelli, þá er nú staðan svona og þessi plögg get ég sýnt þingmanninum ef hann vill líta á þau.
    Varðandi það að þessi ríkisstjórn hafi gert hlut hinna tekjuminnstu verri en áður þá er það ekki rétt. Það hefur einmitt verið hækkuð hlutdeild ýmissa þeirra sem hafa haft minnstu tekjurnar. Hv. þm. minntist á barnabætur að þær hefðu verið lækkaðar. Það er rétt. En hvað um barnabótaaukann? Var hann ekki hækkaður? Og það eru einmitt tekjulægstu aðilarnir sem fá þennan barnabótaauka.
    Að því er verðbólguna varðar þá er ekki hægt að mæla því mót að stefna ríkisstjórnarinnar undir miðjan feril sinn, þ.e. á árunum 1989--1990, endurspeglast í þeim samningi sem gerður var um kjaramál kennara. Þeim samningi sem gerður var við kennarastéttina, og mér er minnisstæður vegna þess að ég var kennari í þann tíð, var lýst sem sérstökum tímamótasamningi og fól í sér talsverðar launahækkanir. Þessi samningur var gerður að engu með samningi sem aðilar vinnumarkaðarins neyddu upp á ríkisstjórnina.