Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 14:48:29 (7818)


[14:48]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég geri mér ekki miklar vonir um hv. þm. Svavar Gestsson sem kennara í þessum efnum og hef ekki hugsað mér að læra mikið af honum, enda hygg ég að það sé ekki mikið af honum að læra í þessum efnum. Hann fjallaði svolítið um verðbólguna og þá staðreynd að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar varð að beygja út af stefnu sinni eftir samningana sem gerðir voru eftir áramótin 1991 og varð að endurskoða þá stefnu frá upphafi og setja bráðabirgðalög á þá sem þeir höfðu samið við og talið að þeir hefðu gert tímamótasamninga við.

    Að því er varðar svo atvinnuleysið þá held ég að það sé rétt fyrir hv. þm. að gera sér grein fyrir því að það hefur að vísu mikið atvinnuleysi skapast hér nú, en sumt af þessu atvinnuleysi hefur komið í ljós og það var í raun og veru hér í meira en áratug. Í meira en tvo áratugi þá var hér sköpuð atvinna með mjög sérkennilegum hætti, með óðaverðbólgu og fjárfestingum sem áttu engan grundvöll fyrir sér. Ég veit ekki hvort hv. kennari minn í þessum fræðum er kannski að mæla með því að við hyrfum til baka til þeirra tíma.