Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 14:54:55 (7823)


[14:54]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Málflutningur hv. þm. Sjálfstfl. er auðvitað alveg kostulegur og það er mjög athyglisvert þegar fótgönguliðið kemur hér í málsvörninni, hv. þingmenn Björn Bjarnason og Tómas Ingi Olrich. Og hver er þeirra helsta málsvörn þegar til umræðu er skuldaaukning heimilanna og aukið atvinnuleysi á þessu kjörtímabili? Hver er hún? Hún er að leita á vit fortíðarinnar í anda leiðtogans mikla, hæstv. forsrh. Rökin gagnvart vandamálum nútímans, því sem gerst hefur í tíð þeirra eigin ríkisstjórnar, svörin liggja í fortíðinni.
    Eigum við þá ekki að fara aðeins lengra aftur, hv. þm. Tómas Ingi Olrich? Eða nær minni hv. þm. ekki nema aftur til 1989? Nær það ekki til haustsins 1988? Hv. þm. man e.t.v. ekki við hvaða aðstæður ríkisstjórn var mynduð á haustdögum 1988, þegar ríkisstjórn undir forustu Sjálfstfl. gafst upp, hrökklaðist út úr Stjórnarráðinu. Hæstv. núv. forsrh. hefur orðað það þannig á landsfundum Sjálfstfl. að flokkurinn hafi verið borinn út úr Stjórnarráðinu og eru orð að sönnu. Eigum við ekki að muna eftir því við hvaða aðstæður ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar byrjaði þegar Sjálfstfl. hafði gefist upp, hafði verið borinn út úr Stjórnarráðinu? Samt tókst þeirri ríkisstjórn að kveða verðbólgudrauginn niður. Og það er alveg sama í hvaða málæfingar hv. þm. fer hér. Þegar sagan verður skoðuð þá mun ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar fyrst og fremst verða minnst fyrir þau tímamót að verðbólgan var kveðin niður. En núv. ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., studd af hv. þm., einum fótgönguliðanna, Tómasi Inga Olrich, verður minnst --- fyrir hvað? Fyrir stóraukið atvinnuleysi og auknar skuldir heimilanna.