Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 15:08:06 (7828)


[15:08]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil nú taka undir það með hv. þm. að hér stendur ekki yfir nein leit að sökudólgum. Við viljum fá svör ríkisstjórnarinnar: Hvernig ætlar hún að bregðast við svörtu skýrslu sem hún ber fulla ábyrgð á, þeim staðreyndum sem sú skýrsla geymir?
    Ég heyri að hv. þm., eins og hæstv. félmrh., gumar mjög af því að hlutfall húsnæðisskulda hafi lækkað miðað við aðrar skuldir. Þó er það ljóst að á sl. þremur árum hafa húsnæðisskuldir þjóðarinnar aukist um 65 milljarða eða hækkað um 52%. En segir þetta kannski ekki ljótustu söguna af staðreyndum þriggja síðustu ára, einmitt lausaskuldir. Fólk er að framfæra sig á lánum. Stefna ríkisstjórnarinnar í skattamálum, í atvinnumálum, þýðir það að aðrar skuldir hafa aukist svo ógnvænlega að þessi vandi blasir við. Það kemur fram í þessari skýrslu, þó það sé ekki tíundað til skulda heimilanna, að hjá Kreditkortum eru 7 milljarðar í vanskilum, við ríkissjóð 1992 8 milljarðar. Hvað skyldi hafa gerst á árinu 1993 o.s.frv.? Þannig að það er ekkert til að grobba af, hv. þm., að hlutfall húsnæðisskulda hafi lækkað. Það segir aðeins þá staðreynd að vandinn er stór að fólkið í landinu er að framfleyta sér og á mjög erfitt vegna lausaskulda og skammtímaskulda.