Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 15:42:22 (7841)


[15:42]
     Eggert Haukdal (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tók fram í mínu fyrra máli einmitt að við ættum láglaunafólkinu að þakka þjóðarsáttina. Það að sjálfsögðu ber hana meira uppi en aðrir. En við fluttum okkur úr 20% verðbólgu. Hv. þm. talaði um að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefði búið til gott veður til að taka við þjóðarsáttinni, en það var eigi að síður yfir 20% verðbólga, ( SvG: 21--26%.) eða 21--26%. Þessa verðbólgu fluttu aðilar vinnumarkaðarins niður í lága eins stafs tölu og tóku þetta á sig. Ég man ekki á þessari stundu hver verðbólga var í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar en við skulum hugsa okkur að hún hafi verið 25%, við skulum aðeins velta því upp, þá gátu að sjálfsögðu aðilar vinnumarkaðarins gert það með sama hætti að flytja 25% niður undir núllið en hvað um það. Þetta er liðin tíð. En þetta tókst þarna og við þökkum á þessari stundu aðilum vinnumarkaðarins fyrir að færa og laga stórlega þá verðbólguófreskju sem allt of lengi var búin að ríða hér húsum.