Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 15:43:59 (7842)


[15:43]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna þess að hv. þm. Eggert Haukdal bar hér inn í umræðuna frv. það sem hann hefur flutt með mikilli elju undanfarin líklega sjö ár um afnám verðtryggingar og þeirra orða sem hann lét falla um að seint gengi og reyndar alls ekki að ná því máli út úr efh.- og viðskn., þá hefur hv. þm. þar nokkuð til síns máls. Sá sem hér talar vill taka fram að ég hef stutt það að þetta mál fengi fengi að koma til afgreiðslu og til atkvæða því að ég held að þinginu sé best að standa frammi fyrir því hvað það vill gera í þessum efnum. Og auðvitað er það með ólíkindum þegar mál er flutt af þessu tagi ár eftir ár og það jafnvel af því sem má kalla þungavigtarmönnum eins og formönnum flokka og núverandi seðlabankastjóra, að það skuli ekki duga til.
    Reyndar minnir elja hv. þm. okkur á það suma hverja og það var rifjað hér upp áðan þegar Sæunn gamla á Bergþórshvoli barði arfasátuna allt sumarið með þeim orðum að það mundi illa fara fyrir sér og sinni fjölskyldu ef hún yrði ekki fjarlægð. Því miður daufheyrðust menn við þessum áköllum kerlingar og sátan var til staðar þegar Flosi kom og kveikti brennuna. En við skulum vona að það fari ekki eins eftir alla þá atorku sem hv. þm. Eggert Haukdal hefur lagt í það á undanförnum árum að losna við lánskjaravísitöluna. Auðvitað er það alveg hárrétt hjá hv. þm. að þegar búið er að afnema þessa verðtryggingu af verðlagi, af launum og af öllum öðrum þáttum en fjármagni, þá er það hreint siðleysi að halda henni áfram. Verðtryggingin á fjárskuldbindingum er að sjálfsögðu einn þátturinn sem fellur undir skuldaaukningu heimilanna og ástæða væri til að tala um. Þess vegna var það á hárréttum stað sem hv. þm. kom með þetta inn í umræðuna.