Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 15:47:10 (7844)


[15:47]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nú er það þannig að þingstörfum er hvergi nærri lokið eins og sjá má. Við erum hér í mestu rólegheitum að ræða þetta dagskrármál og ég er þess vegna ekkert úrkula vonar um það að einhvern tíma á næstu vikum finnist tími til að halda fund í efh.- og viðskn. og afgreiða þetta mál. Staðreyndin er sú af því að hér var til umræðu það afrek ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar að ná verðbólgunni niður, þó að við séum e.t.v. ekki alveg sammála, ég og hv. þm. Eggert Haukdal, um það hvernig það gekk fyrir sig, þá deilum við varla um tímann. Við erum væntanlega sammála um það að þetta gerðist á árinu 1990. Það er sem sagt komið á fjórða eða komin fjögur ár síðan verðbólga á Íslandi náðist niður í eins stafs tölu. Það var lengi talað um að þegar svo væri komið að verðbólga hefði samfellt í hálft ár mælst í eins stafs tölu, þá mundu menn taka til við að afnema þessa verðtryggingu fjármagnsins. Það var einu sinni formúla sem menn voru með og gott ef ekki þessi ríkisstjórn hafði um það einhver orð í byrjun starfsferils síns að ef tiltekinn árangur næðist í þessum efnum og svo og svo langur tími, þá mundu menn fara að bakka út með lánskjaravísitöluna.
    En hvað hefur skeð? Verðbólga á Íslandi hefur núna verið einhver sú lægsta í hinum vestræna heimi mánuðum saman. Hér hefur meira að segja orðið verðhjöðnun á milli einstakra mánaða. Þau sögulegu skil hafa gerst að Ísland hefur komist í hóp örfárra þjóða í heiminum, Þýskalands og annarra slíkra, þar sem á einstökum köflum innan ársins hefur orðið verðhjöðnun, verðlag hefur beinlínis lækkað, þ.e. minna en ekki nein verðbólga. En lánskjaravísitalan, verðtrygging fjármagnsins, situr sem fastast.
    Þess vegna er það alveg ágætis hugmynd að við notum nú tímann á næstu vikum þinghaldsins til þess að kanna það hvort ekki er hægt að ná þessu fræga máli út úr efh.- og viðskn.