Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 15:49:23 (7845)


[15:49]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Í sjálfu sér er það rökrétt að beina máli sínu til hæstv. félmrh. þegar menn ræða skuldastöðu heimilanna, en nokkurt umhugsunarefni er það nú samt hvort ekki sé eðlilegt að formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., sé kallaður til nokkurrar ábyrgðar. Ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir því að hæstv. utanrrh. væri hér við er að ef einhver núlifandi stjórnmálamaður hefur dregið upp draumsýn fyrir venjulegan óbreyttan mann í þessu landi, flutt boðskap sem boðaði tímamót í lífi hans, þá er það hæstv. utanrrh. Það gerði hann þegar hann var að berjast um völdin í Alþfl., þegar hann var að berjast til þeirra áhrifa að verða stjórnmálamaður á Íslandi sem tekið yrði eftir og eitt stærsta mál sem hann hefur flutt, hæstv. utanrrh., var till. til þál. um stighækkandi eignarskattsauka til tveggja ára. Þetta er flutt af Jóni Baldvin Hannibalssyni, hæstv. utanrrh., Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. félmrh. og aðrir flutningsmenn voru Karvel Pálmason, Kjartan Jóhannsson, Magnús H. Magnússon og Eiður Guðnason. Það er kannski nafn Kjartans Jóhannssonar sem gerir það að verkum að menn trúðu því þá að hér væri tölfræðilega búið að fara yfir hlutina. Hér væru lausnir á öllum fjárhagsvanda heimilanna og slíkum hlutum. Hér var boðað slíkt réttlæti að það er ekki skrýtið þó að menn þurfi að vitna í það og með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa nokkur atriði úr þessu fræga plaggi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er hafi það verkefni að semja frv. til laga um stighækkandi eignarskatt.``
    Þetta segir svo í 4. lið: ,,Þessi nýi skattstofn geti komið í stað niðurfellingar tekjuskatts á launþega, sbr. þingsályktun um það sem samþykkt var á síðasta þingi. Tekjuauka ríkissjóðs af hækkuðum eignarskatti má að nokkru leyti miða við ákvarðanir Alþingis um tekjuskattslækkun við afgreiðslu fjárlaga.``
    5. liðurinn: ,,Það er ætlun flutningsmanna að nýjum tekjum ríkissjóðs af þessum skattstofni verði a.m.k. að hluta til varið til að stórauka framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins og verkamanna til þess að styrkja fjárhag sjóðanna og létta greiðslubyrði húsbyggjenda og íbúðarkaupenda.``
    Hérna var boðað framhald á samþykktri tillögu um það að tekjuskattur launþega yrði afnuminn. Og hvaða flokkar komu því í gegn á Alþingi Íslendinga? Alþfl. og Sjálfstfl. Hvar eru efndirnar? Ef þessir aðilar þyrftu ekki í dag að borga tekjuskatt, þá hefðu þeir peninga til að gera upp skuldir sínar sem í dag hrannast upp og neyða menn til þess að tapa íbúðarhúsnæði á nauðungaruppboðum. Það er að vísu búið að breyta reglunum í dómsmrn. þannig að mig minnir að það kosti 150 þúsund að gera mann gjaldþrota og þess vegna hefur beiðnunum heldur fækkað. En í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur stöðugt verið að gera fleiri og fleiri einstaklinga gjaldþrota.
    Hvar er hæstv. utanrrh. sem boðaði himnaríki á jörðu í skattamálum Íslendinga þegar þetta var sett fram, til þess að fá völd? Ætli þeir séu ekki að bjóða upp ansi marga einstaklingana sem skulda opinber gjöld í dag? ( Gripið fram í: Þá áttu að kalla hann í salinn.) Hæstv. utanrrh. hefur ekki sést í salnum, en hæstv. viðskrh. var hér á ferli fyrir stuttu síðan.
    ( Forseti (VS) : Forseti getur upplýst það að hæstv. utanrrh. situr niðri í þingflokksherbergi Alþfl. og heyrir hvert orð sem hv. þm. mælir.)
    Það er út af fyrir sig umhugsunarefni, hæstv. forseti, hvort þingflokksherbergi Alþfl. er orðið hluti af þingsalnum. Það er þá spurning hvort þingflokksherbergi Framsfl. er ekki líka orðið hluti af þingsalnum og hvort hæstv. forseti telur það nægjanlegt þegar atkvæðagreiðslur fara fram að menn sitji þá í þingflokksherberginu. Er það það sem verið er að fara fram á? Það er sama krafa um mætingu hér í salnum til að hlusta á ræður manna og til þess að greiða atkvæði. Það er í sama textanum sem skrifaður er um þingsköp. Ætlar forseti þingsins að skorast undan því að fara eftir þingsköpunum? Ég vil svar úr forsetastól.
    ( Forseti (VS) : Forseti hefur komið þeim boðum til hæstv. utanrrh. að hans sé óskað í þingsalinn og meira getur forseti ekki gert.)
    Ég óska eftir frestun á þessari ræðu og þessum fundi ef forseti er ófær um það að halda mönnum við þinglegar skyldur. Svo einfalt er það mál. Hæstv. utanrrh. getur mætt hér í salnum ef hann telur að hann þurfi að vera á launaskrá hjá Alþingi Íslendinga. Ellegar er lágmark að hann sé tekin tafarlaust af skránni. Ég óska eftir afstöðu forseta þingsins til þessa.
    ( Forseti (VS) : Hv. þm. er heimilt að fresta ræðu sinni ef hann óskar þess.)
    Hæstv. forseti. Það getur vel verið að sá hæstv. forseti sem nú situr í stólnum telji að utanrrh. þurfi ekki að gegna þinglegum skyldum, það getur vel verið. En hæstv. forseti verður þá jafnframt að gera sér grein fyrir því að hér var borin fram krafa um það að þessari umræðu verði frestað þar til hæstv. ráðherra komi í salinn.
    ( Forseti (VS) : Svar við því er nei.)
    Þá hefur hæstv. forseti orðið sér til ævarandi skammar og verður nú að segjast eins og er að ósvífni af forsetastóli er með ólíkindum. Hér skilur einn stigi á milli þingsalsins og þess staðar sem hæstv. ráðherra dvelur á. Engu að síður er það svo að hæstv. forseti telur að það sé fullnægjandi að ráðherrann sitji í þingflokksherbergi Alþfl., hæstv. ráðherra.
    ( Forseti (VS) : Forseti sagði ekkert um það að það væri fullnægjandi að hæstv. utanrrh. sitji þar, heldur getur forseti ekki gengið lengra en óskað eftir því að hæstv. utanrrh. komi í þingsalinn og það er niðurstaða forseta í þessum efnum.)
    Hæstv. forseti getur ef hæstv. forseti þorir frestað hér fundi. Ef hæstv. forseti þorir ekki að fresta hér fundi, þá er það í sjálfu sér nokkur tíðindi. Ég vil lesa hér upp úr þessum texta af því að hér hefur þó annar þeirra hæstv. ráðherra sem ég bað um að væru viðstaddir mætt þannig að ég greini hann úr mínum stól.
    ,,Nú þegar er svo komið að í landinu búa tvær þjóðir. Hættan er sú að það sem skilur hinar tvær þjóðir í sundur vegi smám saman þyngra á metunum en það sem sameinar þær. Við höfum tvö hagkerfi, opinbert hagkerfi sem gefur okkur rangar og villandi upplýsingar um lífskjör og afkomu fólks og fyrirtækja og neðanjarðarhagkerfi þar sem tekjur eru faldar og lúxuslífsstíll afhjúpar tilbúnar tölur hins opinbera hagkerfis og afkomu fólks og fyrirtækja.``
    Þetta var boðskapur hæstv. utanrrh., Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem nú þorir ekki að mæta í þingsalinn, sem þorir ekki að gera grein fyrir því hvers vegna hann hefur ekki notað völd sín á undanförnum árum til þess að framkvæma það sem hann lofaði fólkinu þegar hann var að brjótast til valda. Hann hefur velt

þyngri skattbyrðum yfir á alþýðu manna en nokkur annar fulltrúi í forustusveit Alþfl. sem fengið hefur það hlutverk að stýra þeim flokki. Og hverju lofaði hann? Hann lofaði því að taka af fólkinu engan tekjuskatt, ekki eina einustu krónu. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. aðeins einnar spurningar: Telur hann að þær tillögur sem Alþfl. lagði fram á sínum tíma hafi verið óábyrgar? Telur hann að þær hafi verið óábyrgar, óframkvæmanlegar? Telur hann að þær hafi verið hugsaðar til þess eins að ná völdum?
    Það er nefnilega svo að það er söguleg staðreynd, að hæstv. utanrrh. notaði völd sín til þess að framkvæma hér það sem helst hann varast vann. Hann fór í það að flýta fyrir því eins og hægt var að hér byggju tvær þjóðir í einu landi. Þetta var ráðherrann, þetta var foringinn sem fór um landið og spurði: ,,Hverjir eiga Ísland?`` Og hvað sagði hann þeim á þeirri siglingu sinni? Þá boðaði hann þetta um tvær þjóðir í einu landi. Þá boðaði hann það að tekjuskatturinn skyldi afnuminn af launafólki í landinu. Og hann sópaði saman atkvæðum íslenskrar alþýðu út á þessi loforð og það skyldi engan undra. Það vill nefnilega svo til að hæstv. ráðherra átti mann í forustusveit íslenskra stjórnmála fyrir föður, Hannibal Valdimarsson, sem barðist oft hart fyrir alþýðu þessa lands og átti tiltrú hennar. Hæstv. viðskrh. á einnig fyrir föður stjórnmálamann á Ísafirði á sínum tíma sem starfaði fyrir alþýðuna, stóð við sína samninga og hafði almannatraust í því byggðarlagi. Út á þá trú töldu menn að treysta mætti orðum hæstv. núv. formanns Alþfl., Jóns Baldvins Hannibalssonar. Það var út á trú sem alþýða Íslands hafði á hinum foringjunum sem Alþfl. hafði haft á Ísafirði.
    Nú blasir það aftur á móti við að þessi orð voru skrumsýning ein á sínum tíma, skrumsýn ein, og alþýða manna sem trúði því að sá tími réttlætisins væri runninn upp að eignamenn þessa lands ættu að greiða stighækkandi eignarskatt og hætt yrði að eltast við eignalausa menn út af tekjuskatti sem e.t.v. var hindrunin fyrir því að þeir gætu eignast nokkurn skapaðan hlut, þeim var haldið á lægstu kjörum. Það er til ævarandi skammar fyrir Alþfl. að hafa safnað atkvæðum út á þennan boðskap og svikið svo öll sín loforð.
    Afleiðingin blasir við. Skuldasöfnun heimilanna vilja margir kenna við hæstv. félmrh. Sá vopnaburður er ekki heiðarlegur að öllu leyti vegna þess að það verður að segjast eins og er að ef hugsjón jafnaðarmanna brennur í brjósti einhvers af ráðherrum Alþfl. í núverandi ríkisstjórn, þá er það þó í brjósti hæstv. félmrh.