Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 16:18:26 (7851)


[16:18]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þó að húsbréfakerfið sé búið að vera í framkvæmd í þrjú ár þá þekkir hv. þm. ekki enn gangverk þessa kerfis. Hann blæs hér mikið og segir að það fari 55 milljarðar í húsbréfakerfið en einhver hluti af því væri betur kominn í atvinnulífinu. Þetta er nú einu sinni svo að þegar húsbréfakerfinu var komið á þá vorum við að steypa lánveitingum í einn farveg. Koma í veg fyrir að fólk þyrfti að taka skammtímalán í bönkum með þungri greiðslubyrði. Það er alveg ljóst að gangverkið í húsbréfakerfinu er með þeim hætti að þar er um að ræða verulega innri fjármögnun, kannski 50%. Þannig að það er verulegur hluti af útgáfu húsbréfa sem leitar ekki út á markaðinn heldur eru innri viðskipti milli kaupenda og seljenda. Þannig að þetta er bara málflutningur sem stenst ekki sem hv. þm. fer hér með. Ef eitthvað hefur skapað fjármagn fyrir atvinnulífið þá var það húsbréfakerfið vegna þess að 55% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna voru bundin í húsnæðiskerfinu gamla, 86-kerfinu, 55%. Nú er þetta fjármagn ekki bundið inni í húsnæðiskerfinu þannig að lífeyrissjóðirnir hafa meira frjálsræði til þess að nýta einhvern hluta af sínu fjármagni í atvinnulífið. Þetta eru bara staðreyndir málsins. Áður fyrr var þetta þannig að það voru bein framlög úr ríkissjóði sem fóru í lánveitingar en hér er um að ræða allt annað kerfi. Hér er fyrst og fremst um að ræða verulega innri fjármögnun í þessu kerfi og ríkissjóður lætur ekkert til þess að fjármagna þetta kerfi. Það er alveg ljóst.
    Þegar verið er að tala um að hluti af þessum peningum væri betur staddur í atvinnulífinu, hvað er hv. þm. þá að tala um? Að það eigi að veita lægri lán til íbúðakaupenda og auka þar með greiðslubyrði þeirra? Menn skyldu huga að því hér þegar verið er að tala um mikla fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og menn tala um milljarða og aftur milljarða. Jú, það hafa sennilega um 25--27 milljarðar farið í að fjárfesta í félagslega kerfinu á sl. 7 árum og ég er alveg sannfærð um að það er ekki nokkur maður hér inni sem mundi mæla því bót að þeim peningum væri betur varið og öðruvísi en til láglaunafólksins en með þessum hætti.