Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 16:41:08 (7856)


[16:41]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vona að stöðugleikinn sem hæstv. félmrh. er að tala um sé ekki stöðugt atvinnuleysi upp á 7.500 manns eða þaðan af meira. Það þýðir náttúrlega ekki fyrir hæstv. félmrh. að fara í samanburð á þessum málum með þeim hætti sem hér var gert. Staðreyndin er sú að í gegnum söguna má sýna fram á að það er verkalýðshreyfingin og Alþb. sem hafa staðið fyrir þeirri uppbyggingu í félagslegu húsnæðiskerfi, bæði löggjöf og skipulagsbreytingum á því sviði sem mest munar um. Það er svo furðulegt með það að Alþfl. hefur mikla áráttu til þess þegar mátulega langt er um liðið að fara að eigna sér hluti sem aðrir hafa staðið fyrir en þvo af sér sem hann hefur hins vegar sjálfur gert og málflutningur hæstv. félmrh. bar mikinn keim af því hér áðan. Það var talsvert annað ástand bæði á lánsfjármarkaði varðandi vaxtastig og allar aðstæður í þjóðfélaginu á árunum í kringum 1980 sem hæstv. félmrh. var að rifja hér upp. Ég vona að hæstv. ráðherra ætli ekki að færa ábyrgðina af félagsmálaráðherratíð Alexanders Stefánssonar, hæstv. fyrrv. ráðherra, yfir á herðar Alþb.
    Hæstv. félmrh. segir að vextir hafi lækkað. Af hverju hafa þá ekki vextir lækkað í Byggingarsjóði ríkisins? Af hverju eru þeir jafnháir og þeir hafa hæstir orðið í sögunni? Er það þannig að hæstv. félmrh. geti ekki lækkað þá úr því að hann gat hækkað þá? Úr því að hægt er að lækka vexti annars staðar af hverju er það þá ekki gert í Byggingarsjóði ríkisins? Það er náttúrlega gífurlega þýðingarmikil vaxtaprósenta sem er á öllum almennum lánum þar og er núna 4,9% og var hækkuð í tíð hæstv. félmrh. Þegar hæstv. félmrh. er svo að beina skeytum að fyrrv. ríkisstjórn þá er aðeins eitt að athuga í því. Það er eins og mig minni að hæstv. félmrh. hafi verið í henni. Er það ekki rétt munað?
    Það er nefnilega þannig með hæstv. félmrh. að þegar það hentar, þá hefur hæstv. ráðherra aldrei komið nálægt neinu. Þegar hæstv. ráðherra er að tala um fátæktina á Íslandi minnist hæstv. ráðherra ekki á það

að hann hafi verið félmrh. í sjö ár. Þetta er því svona eftir atvikum. Þegar það er eitthvað jákvætt og gott þá man hæstv. ráðherra eftir því að hún er búin að vera félmrh. lengi, en þegar það er eitthvað sem hefur farið heldur úrskeiðis, þá er helst að heyra að hæstv. ráðherra hafi verið á tunglinu eða á Mars meðan þessir hlutir voru að gerast.