Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 16:43:41 (7857)


[16:43]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég var ekki í ríkisstjórn eða bar ábyrgð á stjórnaraðild þegar Alþb. fór með húsnæðismálin þegar það var til skammar hvernig staðið var að uppbyggingu félagslega íbúðakerfisins. En á árinu 1991 var ég í ríkisstjórn og ber alveg ábyrgð á því sem þar gerðist. En varðandi vaxtahækkunina sem þingmaðurinn nefndi í félagslega íbúðakerfinu, þá held ég að það hafi verið samdóma álit þeirra flokka sem sátu við stjórnvölinn árið 1990 að það þyrfti að hækka vexti í félagslega kerfinu. Undir það álit rituðu m.a. fulltrúi Alþb., fulltrúi Framsfl. og fulltrúi Kvennalistans, að það þyrfti að hækka vexti í Byggingarsjóði verkamanna um 0,5%--1%.
    Varðandi félagslegu íbúðirnar, þá er fjölgun þeirra um 4 þús. Þeim hefur fjölgað úr 5.700 í 9 þús. og eitthvað, um 4 þús., á síðustu sjö árum. Ég spyr þingmanninn: Hvað fjölgaði þeim mikið þegar Alþb. bar ábyrgð á húsnæðismálunum? Getur hv. þm. svarað því? Ég hygg að það séu örfáar.