Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 16:57:02 (7859)


[16:57]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Fræg er sýn alþýðuskáldsins sem orti svo:
          Aumt er að sjá í einni lest
          áhaldsgögnin slitin flest
          dapra konu, drukkinn prest
          drembin þræl og meiddan hest.
    Í þessum sal er ekkert alþýðuskáld en eitt höfum við séð þó sameiginlega í dag undir þessari miklu umræðu um skuldastöðu heimilanna, eina dapra konu sem er hæstv. félmrh. En við höfum líka tekið eftir því að þeir ráðherrar sem bera þyngri og meiri ábyrgð en hún, hún ber að vísu þá ábyrgð að hafa ekki sagt sig frá þessari frjálshyggjuríkisstjórn og veit ég að hún iðrast þess nú, hafa orðið sér til skammar í þessari umræðu. Bæði fyrir það sem þeir hafa sagt og ekki síður fyrir það að þeir hafa hvergi komið til móts við það fólk sem þúsundum saman bíður eftir svari við spurningunni: Hvernig bregst ríkisstjórnin við? Eigum við von? Eigum við ekki von? Verðum við að flýja þetta land og hvert eigum við að fara?
    Hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., sem ber mjög þunga ábyrgð hvíldi sig í þingflokksherbergi Alþfl. undir þessari umræðu og er ég ekki hissa á því miðað við þau fyrirheit sem hann hafði gefið íslenskri þjóð, miðað við það hvernig hann hefur leitt þessa frjálshyggjuríkisstjórn til valda á Íslandi.
    Hæstv. fjmrh. leyfði sér að taka þátt í þessum umræðum með skítkasti í morgunsárið og varð það honum ekki til framdráttar. Manninum sem ber höfuðábyrgð á einu af þessum meinum sem við höfum rætt í dag, ekki síst skattastefnunni.
    Hæstv. forsrh. hefur ekki tjáð sig enn í þessari umræðu. Mér er sagt að hann sé í húsinu.
    Hér hefur margt komið fram sem vert væri að ræða. Þessi skýrsla greinir staðreyndir og hún segir frá þeim erfiðleikum sem íslenskar fjölskyldur eiga við að búa. Ég hef í skýru máli í dag rakið það hvernig sú þróun hefur verið og tel alvarlegast að á þremur síðustu árum í verðbólgulausu þjóðfélagi hafi skuldastaða heimilanna aukist yfir 50% og stefni í hreint óefni. Ég hef rakið það sérstaklega að það þýðir ekki að beita meðaltölum í þessu máli vegna þess að hér á hlut að máli ein kynslóð sérstaklega, fólkið sem fætt er eftir 1950.
    Staðreyndin er sú að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem hér kom á verðbólgulausu þjóðfélagi og þjóðarsátt, átti þá von að það yrði hægt að feta sig í þjóðarsátt áfram í þessu þjóðfélagi. Sú þjóðarsátt hefur verið rofin. Það er engin þjóðarsátt lengur á Íslandi. Það er engin þjóðarsátt eða blessun yfir stefnu þessarar ríkisstjórnar og þeir eru margir sem um þessar mundir tjá sig með þeim hætti að það kunni að leiða til uppreisnar. Hvað veldur því? Það er tekjuskiptingin. Það er eignaskiptingin á Íslandi og þróun hennar. Það eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar, að hengja þyngri og þyngri bagga á alþýðumanninn, sleppa fyrirtækjunum og þeim auðugu við það að taka þátt í þessu þjóðfélagi. Það er glæpurinn að horfa á menn í undirheimum þessa þjóðfélags raka að sér 11--15 milljarða í tekjur sem hvergi koma fram og þeir fá frið fyrir hæstv. fjmrh. sem ætti að sitja í þessum stól en hvarf héðan í morgun eftir útúrsnúninga og hjal sem ekkert kemur málinu við.
    En hverjir boða uppreisn? Hverjir hafa talað til Sjálfstfl. og hvers vegna? Hæstv. forseti. Það er hætta á uppreisn í Sjálfstfl. Ég sagði það í morgun að uppreisnin mundi kannski byrja innan frá. Hún er hafin í Alþfl. Skoðanakönnun sem birtist í morgun staðfestir það að formaður þess flokks hefur ekki nema 20% af sínu flokksfólki, fáu að vísu, sem vill hann áfram meðan hæstv. félmrh. er að ná þar tökum.
    En hver er það sem boðar uppreisnina í Sjálfstfl. og hvers vegna? Það er Sverrir Hermannsson, bankastjóri Landsbanka Íslands, fyrrv. ráðherra þess flokks og alþingismaður Íslendinga. Hvers vegna skyldi þessi Sverrir Hermannsson vera að boða uppreisn? Það er af því að hann er fæddur vestur á fjörðum með alþýðufólki og skilur kjör alþýðunnar. Þessum manni er farið að ofbjóða og ég vitna í texta sem birtist í einu dagblaðanna, með leyfi forseta. Þar segir Sverrir Hermannsson:
    ,,Ég kalla það byltingu þegar menn hætta að hlíta lögum. Það er stórkostleg hætta á því ef miðstýringin verður þannig og ef menn sjá bersýnilegt óréttlæti þar sem verið er að mala undir örfáa menn auðævi þjóðarinnar, sem er ekki örgrannt um að verið sé að gera. Þá verður framin bylting, segir Sverrir Hermannsson.
    Og hann bætir við að sú eignatilfærsla sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu á liðnum missirum sé afskaplega varasöm þar sem hinir ríkari hafi orðið ríkari en þeir fátæku fátækari.``
    Þeim er nefnilega farið að ofbjóða mörgum sjálfstæðismanninum. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir því, sem við vöruðum við, að fyrir kolkrabbann og fjórtán fjölskyldur á Íslandi hefur verið unnið dyggilega á þremur árum. Eignatilfærslan hefur verið í fullum gangi. Hún hefur ekki bara birst í því að gefa ríkisfyrirtæki, hún hefur birst í því líka að leiða hér fram gjaldþrotastefnu í atvinnulífinu þar sem þessir auðugu menn gætu keypt.
    Nóri vinur minn, sem ég hef miklar mætur á og talaði til þjóðarinnar fyrir nokkrum árum, sagði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hann Nóri segir okkur í kolkrabbanum að nóg svigrúm sé fyrir þá sem fram úr skara án þess þeir þurfi að breyta hugsjónaeldi heillar þjóðar í heimilisarin fyrir sig og samstarfsmenn sína.``
    Frjálshyggjumennirnir töldu nefnilega sæmilegt athafnarými en nú sjá þeir það fyrir sér margir hverjir að það verður enginn friður í landinu við þá staðreynd sem nú blasir við: Þessa miklu eignatilfærslu, þessa slæmu skuldastöðu þröngs hóps í þjóðfélaginu, þessa gjaldþrotastefnu, þetta óréttlæti sem ríkisstjórnin hefur leitt fram. Því miður. Þá er eina hjartað í þessari ríkisstjórn, hæstv. félmrh., einnig ábyrg. Því miður. Hefði nú verið léttara hjá hæstv. ráðherra að hóta því að segja af sér af minna tilefni en þeirri stöðu sem hér hefur verið rakin í dag.
    Einhvers staðar segir gamalt spakmæli: Allir geta faðmað björninn en þá fyrst byrja erfiðleikarnir þegar menn ætla að losa sig úr hrömmum hans. Vissulega er hæstv. félmrh. staddur í hrammi bjarnarins, frjálshyggjustjórnarinnar, sem hér hefur ráðið ríkjum um sinn.
    Ég vil hér koma að nokkrum atriðum. Við framsóknarmenn leggjum höfuðáherslu á það nú að menn fari í þá vinnu hvernig megi hjálpa heimilunum frá vandræðum sínum, hvernig megi leysa atvinnumál þessarar þjóðar. Hið fámenna íslenska þjóðfélag þolir ekki þetta atvinnuástand. Þar eru mörg heimili að færast á barm gjaldþrotsins. Við höfum á þinginu í vetur verið með margar tillögur í atvinnumálum. Það hefur ekki verið hlustað á þær enda segir ríkisstjórnin: Mér kemur það ekki við.
    Ég gæti rakið margar þær tillögur sem bæði snúa að því að skapa ný störf í iðnaði, við sjávarútveg, verja störfin í landbúnaðinum og úrvinnslu hans og láta peninga til rannsóknarstarfa og þróunar til þess að skapa megi eitthvað nýtt í þessu þjóðfélagi.
    Hér hefur verið minnst á það og það af hæstv. fjmrh. í morgun að vissulega væri þetta ekki allt svona svart, sagði hann á þá leið. Lífeyrissjóðirnir hefðu verið að bólgna út.
    Ég hef minnt á það í þessari umræðu að nákvæmlega þessi sami hópur sem nú er að kikna undan skuldum sínum mun koma að lífeyrissjóðakerfinu gjaldþrota á árunum 2010--2020 ef Alþingi ekki tekur á því máli. Ég og við framsóknarmenn höfum flutt um það margar tillögur á undanförnum árum. Það hefur ekki verið hlustað á það. En staðreyndin er einföld, hún er þessi: Í dag eru 26.000 Íslendingar 65 ára og eldri. Eftir 25 ár verða 50.000 Íslendingar á þessum aldri. Þá kemur þessi sama kynslóð, sem nú er að kikna, að tómu lífeyrissjóðakerfinu. Þarna blasir því líka við óréttlæti og miklir erfiðleikar sem ber að taka á.
    Hæstv. forseti. Ég vil leggja á það áherslu að verkalýðshreyfingin og atvinnulífið taki fram fyrir hendurnar á þessari ríkisstjórn og setjist yfir þetta mikla mál sem hefur verið rætt hér í dag af þunga og hvernig megi leysa það. Það er engin von til þess að þessi ríkisstjórn leysi það vandamál. Hér hafa enn engin svör komið fram um hvaða tillögur þeir hafa. Ég hygg að stjórnarandstaðan sé öll tilbúin til þessarar vinnu og hafi á takteinum ýmsar tillögur sem gætu komið að gagni.
    Ég vil að lokum þakka þessa umræðu og vænti þess að menn hafi nú séð að ríkisstjórnin er því miður ónýt. Við þessar aðstæður þegar það blasir við að kvöld eftir kvöld á að sýna marmarann og hallirnar sem þeir hafa byggt í Reykjavíkurborg þá er ekki farið á atvinnulausu heimilin, þá er ekki farið í áttundu hverja fjölskyldu sem hefur orðið að leita sér hjálpar hjá félagsmálastofnun. Það er sneitt hjá garði fátæka verkamannsins. Þangað á þessi ríkisstjórn heldur ekki erindi. Hún verður að fara frá, hæstv. forseti, ef hér á að nást samstaða og ef við eigum að standa að einhverju viti að málefnum þessa þjóðfélags í framtíðinni.