Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 17:12:50 (7860)


[17:12]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér hefur um margt orðið gagnleg umræða um þessa skýrslu um skuldastöðu heimilanna og af því góða að stjórn og stjórnarandstaða skiptist á skoðunum í þessu efni. Eins og hér hefur komið fram er í þessari skýrslu fyrst og fremst að finna greiningu á skuldastöðu heimilanna og orsökum þeirra og þó að menn hafi verið að skiptast á skoðunum um það hverjum þetta væri að kenna þá hygg ég að þegar grannt er skoðað þá bera þeir ábyrgð á þessu sem haladið hafa um stjórnvölinn a.m.k. síðustu 10--15 ár. Kemur það alveg glöggt fram í töflum í skýrslunni að það er raunverulega sama hvaða flokkur hefur verið í ríkisstjórn á því tímabili sem þessi skýrsla fer yfir, frá 1981--1993, að skuldaaukningin hefur vaxið mjög á þessum tíma. Af því að menn hafa mikið verið að tala um árið 1993 þá er breytingin á raungildi þar á milli ára 7% á meðan hún er mun hærri ef farið er lengra aftur í tímann.
    Það hefur nokkuð verið rætt hér um húsnæðismálin og ætla ég ekki að bæta miklu við það. Ég held að það sé alveg ljóst og ég hélt að það væri bærileg sátt um það á Alþingi að veita íbúðarkaupendum lán til langs tíma. Ég hélt það væri einnig bærileg sátt um það að veita fólki tiltölulega hátt lánshlutfall á einni hendi þannig að það þyrfti minna að leita til bankanna með skammtímalán. Það er auðvitað svo að þegar við veitum lán til langs tíma eykur það skuldastöðu heimilanna. Við gætum vissulega, sem ég held að enginn vildi, fært okkur til þess horfs sem t.d. Finnar eru í, að veita lán til mjög skamms tíma. Skuldir heimilanna þar eru ekki miklar en greiðslubyrði mjög þung og ég hygg að það sé enginn sem vill breyta til í því efni.
    Við getum t.d. rætt um þá aukningu sem hefur orðið á félagslegum íbúðum. 4.000 félagslegar íbúðir kosta mikla peninga. Ég hygg að það kosti 25--27 milljarða sem það hefur aukið skuldir heimilanna. En við getum líka spurt okkur í hinu orðinu hver væri staða þessa fólks ef ekki hefði verið farið út í þessa miklu uppbyggingu á félagslegum íbúðum. En þetta er það sem þingið hefur valið, t.d. með fjárveitingum í þennan málaflokk, að fara í þessa uppbyggingu og það eykur vissulega skuldir heimilanna. En á móti er, eins og hér hefur komið fram, er þjóðarauður í íbúðarhúsnæði mjög mikill á móti þeim skuldum sem við höfum verið að ræða í dag, um 450 milljarðar og skuldirnar 256 milljarðar.
    En ég ætla ekki, virðulegi forseti, að ræða meira um þessi húsnæðismál. Við höfum farið nokkuð ítarlega yfir þau í dag þó að væri hægt að ræða meira um þau. En það er alveg ljóst og mér finnst margir hafa tekið undir það sem talað hafa í dag að aukinn og gjörbreyttur aðgangur fólks að lánsfé hefur verulega aukið skuldir heimilanna. Lenging lána í húsnæðiskerfinu hefur aukið skuldir heimilanna. Og það er staðreynd að við þurftum í byrjun 9. áratugarins að endurfjármagna mikið af húsnæði sem fólk átti þá skuldlaust, mikið til vegna neikvæðra vaxta. Við höfum farið í gegnum af hverju varð til misgengishópur á árinu 1983 og við höfum farið í gegnum það að 20% af þessum auknu skuldum heimilanna má rekja til að fjölgun ungmenna á húsnæðismarkaðinum á sl. áratug.
    Það er alveg ljóst, sem mér finnst margir hafa tekið undir, að neyslulánin, aukinn aðgangur að bankakerfinu og hvernig fólki býðst að skuldsetja sig með neyslulánum sem í boði eru raunverulega á hverju horni, hafa auðvitað aukið skuldsetningu heimilanna. En ég ætla ekki að fara út í það, virðulegi forseti.
    Ég held að það sem hefur komið fram og hefur staðið upp úr hjá mörgum sé að það þarf auðvitað að skoða hvernig málin ganga fyrir sig í bankakerfinu. Það er alveg ljóst að þar skortir kannski verulega á ráðgjöf og fræðslu og bankarnir veiti lánin meira í samræmi við greiðslugetu fólks en horfi ekki bara til ábyrgðanna og hvernig þeim sé háttað. Það er allt of mikið um það, eins og hér hefur komið fram að það falla ábyrgðir á vini og venslamenn eins og útlánastefnunni hefur verið háttað.
    Hér hafa útlánatöp bankanna nokkuð verið til umræðu og þau eiga auðvitað þátt í þessu líka.
    Það er alveg ljóst, eins og hefur komið fram í máli manna og ég tek alveg undir það, að misréttið í eigna- og tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu er allt of mikið en það hefur ekki orðið til í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það á sér miklu lengri sögu. Ég hygg að t.d. það að þegar fólk bjó við neikvæða vexti, sem t.d. á árinu 1974 voru neikvæðir um 25% og neikvæðir allan þann áratug um 15%, hafi hjálpað fólki til þess að greiða niður sínar skuldir enda sýna kannanir það að 67% íbúðareigenda á aldrinum 50 ára og eldri hafa greitt upp sínar skuldir. Þetta sama fólk eða fólk 50 ára og eldra á um 70% inneigna einstaklinga í bönkum. Ég tek því alveg undir það að misrétti í eigna- og tekjuskiptingu er allt of mikið og þar vil ég undirstrika að það er ekkert sem hefur orðið til í tíð þessarar ríkisstjórnar.
    Ég held ég fari ekki frekar yfir þetta nema tilefni gefist til. Ég vil þó aðeins nefna af því að vaxtabætur hafa verið teknar upp hér að í þeim útreikningum sem ég hef fengið kemur fram að þegar skoðaðar eru vaxtabætur til fólks með 2 millj. kr. og undir þá hafa vaxtabætur, sem hlutfall af vaxtagjöldum, aukist í samanburði við árið 1991. Við getum tekið t.d. að fyrir einhleypan með undir 1 millj. kr. í tekjur voru vaxtabætur sem hlutfall af vaxtagjöldum þá tæplega 40% en árið 1993 tæplega 44%. Ef við tökum einstætt foreldri með tekjur undir 2 millj. þá voru vaxtabætur sem hlutfall af vaxtagjöldum 40,4% en voru

44,5% á sl. ári. En þær hafa lækkað hjá fólki sem er með tekjur þar yfir en þess hefur verið gætt að hlutur þeirra sem hafa minni tekjur væri frekar bættur varðandi vaxtabæturnar.
    Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talaði fyrir því að það þyrfti að stytta lánstímann í félagslega íbúðakerfinu ef ég skildi hann rétt. Ég get ekki verið sammála hv. þm. um það. Hann var að tala um hvernig eignamyndunin er í félagslega kerfinu, talaði um hæga eignamyndun og það er rétt. Það er til að mynda vegna þessa langa lánstíma. En ef við færum út í það að stytta lánstímann í félagslega kerfinu þá mundum við auka verulega greiðslubyrðina og ég hygg að af tveimur kostum í því efni þá vilji ég frekar hafa lánstímann lengri og greiðslubyrðina minni en að stytta lánstímann. Ef við færum með lánstímann í félagslega kerfinu úr 43 árum niður í t.d. 30 ár þá værum við að auka greiðslubyrðina sennilega um 5.000 kr. á mánuði. Menn verða að horfa á hlutina í samhengi í því efni þannig að ég tel að það sé ekki leið sem hv. þm. talaði fyrir að stytta lánstímann.
    Ég skal, virðulegi forseti, ekki lengja þessa umræðu sem hefur orðið nokkuð löng og er það að vonum vegna þess að hér er verið að ræða um mjög stórt mál sem snertir öll heimilin í landinu. En ég vil ítreka það sem mér finnst líka hafa komið fram hjá mörgum hv. þm. sem hér hafa talað að ég tel ástæðu til að láta fara fram ítarlegri greiningu á þessari skuldastöðu með tilliti til kynslóða, lífskjara, skulda, eigna og afkomumöguleika og fá fram samanburð á þeim tilfærslum sem orðið hafa í þjóðfélaginu, þess vegna milli heimilanna eins og hér hefur komið fram, og til atvinnurekstrarins og sveitarfélaganna þannig að að því verður unnið í framhaldinu að láta fara fram ítarlega athugun og könnun á þessu máli.