Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 17:23:09 (7861)


[17:23]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. ræðu hennar. Sjálfstæðismönnum þarf ekki að þakka en bresku íhaldsfurstarnir eru áreiðanlega ánægðir með frammistöðu þeirra. Þeir hafa skilað núll í þessari umræðu.
    Hæstv. félmrh. Íslenskar fjölskyldur vantar ekki íbúðir eins og stendur. Það vantar vinnu og fólk vantar að geta séð sínum fyrir daglegum nauðsynjum í stórum stíl. Hvað þá að geta staðið við skuldir sínar sem hér kemur fram. Það þýðir ekkert að státa af því. Hæstv. félmrh. hefur staðið fyrir því að stækka íbúðarhúsin á Íslandi. Hér eru á mann stærstu húsrými á Norðurlöndum. Þrátt fyrir það er í þessu atvinnuástandi sem nú ríkir öllum sterkustu verktökum þessa lands sigað í það að græða á afa og ömmu og byggja félagslegar íbúðir fyrir aldraða. Þetta er ekki þjóðhagslega hagkvæmt. Þess vegna ítreka ég það, hæstv. félmrh., það eru önnur úrræði sem hér þarf.