Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 17:36:17 (7877)


[17:36]
    Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra viðurkennir að hún hafi ekki farið með málið í heild sinni, að það vanti upp á sannleikann sem hún flutti áðan og hún veit ekki hvernig samanburðurinn verður ef hann yrði gerður miðað við 1994 og 1991. Hún segir ,,ég hygg``. Það er ekki nóg að segja hvað hún heldur, heldur hvað það er í reynd, því hægt er að reikna það út, það er búið að ákvarða reglurnar og auðvitað á að vera með hreinan samanburð eins og reglurnar eru. En það sem mér finnst standa upp úr sem niðurstaða úr þessari umræðu um skuldir heimilanna er að skuldir heimilanna hafa vaxið gríðarlega mikið á síðustu árum, ekki hvað síst undir stjórn núv. ríkisstjórnar, en möguleikar heimilanna til að borga skuldirnar hafa minnkað verulega. Fólkið hefur minni vinnu, það eru margir sem hafa enga vinnu, og það er þannig með skuldir að

ef menn ætla að borga skuldir verða menn að hafa tekjur og til að hafa tekjur verða menn að hafa atvinnu.