Fullgilding ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um bókun 47

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 17:41:17 (7881)


[17:41]
    Frsm. meiri hluta utanrmn. (Geir H. Haarde) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Mér er kunnugt um að hæstv. forsrh. hefur verið hér á þingfundi í allan dag en vegna óhjákvæmilegra skyldustarfa þurfti hann að hverfa af fundi núna. Ég veit ekki hvenær hann getur verið kominn aftur. Hann átti von á því að þetta mál kæmist miklu fyrr á dagskrá fundarins heldur en raun hefur orðið á og ég hygg að svo hafi verið um okkur fleiri. En hitt er rétt að það var áður búið að ganga út frá því að hæstv. forsrh. tæki hér til máls í umræðunni og mér finnst það ekkert óeðlileg ósk sem fram er komin að hann verði viðstaddur og þessu máli verði nú frestað. En ég mundi vilja óska eftir því að fá að mæla fyrir nál. meiri hluta nefndarinnar og þætti jafnframt vænt um ef aðrir nefndarmenn, sem þess óska, fengju að mæla fyrir sínum álitum til þess að greiða fyrir þingstörfum og koma þessum málum eitthvað áleiðis. Að öðru leyti get ég fallist á þá ósk sem fram er komin.