Þróunarsjóður sjávarútvegsins

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 22:55:40 (7896)


[22:55]
    Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Þessi umræða hefur nú staðið um nokkra hríð. Sérstaklega vil ég þakka hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir merkt framlag til þessarar umræðu. Það hefur verið sönn ánægja af því að hlusta á ræður hans hér í kvöld og ég hef tekið eftir því að þingmenn hafa fylgst með af mikilli athygli. Þingsalurinn hefur verið þétt setinn þingmönnum sem hafa fylgst með af mikilli athygli, enda hafði hv. þm. mjög margt fram að færa og má segja að flug hans hafi verið hátt, jafnvel svo hátt að það hafi minnt á flug valsins þegar við köllum hann fálka.
    En það er nú samt svo, þó að hér hafi hv. þm. farið fram af allri þeirri leiftrandi mælsku sem hann býr yfir, þá hafði ég það á tilfinningunni að allt það sem hér var sagt hafi komið fram við 1. umr. málsins. Allar þær fyrirspurnir sem hv. þm. bar fram, utan ein, höfðu komið fram við 1. umr. málsins og verið svarað þar og vísast til þess. En það er satt og rétt að hér kom fram ein fyrirspurn sem eðlilega gat ekki komið fram við 1. umr. vegna þess að hún á rætur að rekja til brtt. sem hv. sjútvn. hefur flutt við frv. ( SJS: Það er meiri hlutinn en ekki nefndin.) Já, það er rétt athugasemd hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., það er meiri hluti nefndarinnar.
    Það er svo að meiri hluti nefndarinnar hefur lagt til að hlutverki sjóðsins verði breytt nokkuð þannig að meiri áhersla verði lögð á nýsköpunarverkefni af ýmsu tagi, vöruþróunarverkefni í sjávarútvegi helst, og eðlilegt þótti að láta í meginatriðum sömu reglur gilda um þau verkefni og hin sem áður var ráðgert að sjóðurinn hefði með höndum varðandi þátttöku Íslendinga í sjávarútvegi erlendis. Fyrir þá sök var sú breyting gerð á orðalagi að því er þetta varðar og beinar styrkveitingar felldar niður. Það er rétt að taka þetta fram því þessi fyrirspurn hafði ekki áður verið borin fram í umræðum hér og eðlilegt að skýra það út fyrir hv. þingmönnum, áður en umræðan héldi lengra, að gefnu tilefni.