Þróunarsjóður sjávarútvegsins

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 23:02:44 (7899)


[23:02]
    Frsm. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu alveg gilt svar að það sé þá ætlunin að innleiða í raun og veru þessa mismunandi meðferð mála eftir því hvort skip er úrelt endanlega og tekið á móti styrk vegna þess eða eftir því hvort rúmmál skips sé nýtt til endurnýjunar á móti öðru. En hér er þá greinilega verið að innleiða það. Ég er ekki viss um að hæstv. ráðherra hafi hugsað þetta mál alveg til enda. Er endilega einhver munur á því hvort skipið er svipt veiðileyfi sínu í íslenskri efnahagslögsögu, allar veiðiheimildir þess fluttar yfir á annað og þar með í raun og veru skipið tekið úr rekstri í skilningnum innan íslensku efnahagslögsögunnar, hvort það gerist með þessum hætti eða því að það er t.d. tekið út á móti nýju skipi sem kemur í staðinn inn flotann og fær veiðiheimildir og veiðileyfi. Ef það er meðvituð ákvörðun og niðurstaða hæstv. ráðherra að hafa þetta svona þá er það fullgilt svar. En þá er náttúrlega eftir sú spurning: Er það skynsamleg ráðstöfun, er rétt að hafa þetta svona? Ég hef miklar efasemdir um það. Hvers vegna skyldu menn ekki mega nýta skip þó þau hafi verið úrelt út úr íslenska flotanum í þessum skilningi til veiða á fjarlægum miðum ef fyrir því eru forsendur? Ég sé enga ástæðu til þess í raun og veru að gera þarna greinarmun á. Menn eru að minnka íslenska flotann eftir sem áður, bæði í tonnum og færa þar saman veiðiheimildir. Þannig að ég leyfi mér að efast um að hæstv. ráðherra hafi kannski hugsað þetta í botn og teldi ástæðu til að þetta mál yrði skoða milli umræðna. Ef þetta er endanleg niðurstaða hjá hæstv. ráðherra eða hv. meiri hluta stjórnarflokkanna hér á þinginu þá verður málið sjálfsagt afgreitt svona, en ég er ekki viss um að það sé skynsamlegt.