Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 23:39:14 (7902)


[23:39]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 1233. Efh.- og viðskn. klofnaði í þrennt við afgreiðslu málsins og enginn meiri hluti myndaðist í nefndinni.
    Það kom hér fram áðan í framsöguræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálms Egilssonar, að nefndin fór til fundar við heimamenn á Vestfjörðum og var þar dagpart í viðræðum við þá og einnig fékk nefndin allmargar umsagnir frá aðilum sem málið varðar og aðila til viðtals við sig hér á slóðum syðra.
    Það er skemmst frá því að segja, hæstv. forseti, að þetta frv. hefur sætt mjög harðri gagnrýni og í raun og veru á það sammerkt með því frv. sem hér var á dagskrá síðast að það á sér fáa formælendur í óbreyttri mynd. Það kom ekki fram í máli frsm. 1. minni hluta sem hefði gjarnan mátt gera að það var ekkert síður í viðræðum við heimamenn á Vestfjörðum sem þessi gagnrýni kom fram á einstaka efnisþætti frv. og nánast skýlaus krafa flestra þeirra sem þar mættu á fund nefndarinnar um a.m.k. tilteknum þáttum frv. þyrfti að breyta. Þetta á við, og ég leyfi mér að túlka það svo, bæði um viðhorf forsvarsmanna sveitarfélaga fyrir vestan, forsvarsmanna úr atvinnulífi og forsvarsmanna úr verkalýðshreyfingu. Allir þessir aðilar töldu þá þröngu skilyrðingu ráðstafananna við sameiningu bæði fyrirtækja og sveitarfélaga óheppilega eins og í pottinn væri búið vestra. Sömuleiðis hafa nefndinni borist beinlínis athugasemdir frá einstökum aðilum eins og Bolungarvíkurkaupstað og er bréf bæjarstjórans í Bolungarvík ritað fyrir hönd bæjarráðs þess kaupstaðar birt með sem I. fylgiskjal með nál. 2. minni hluta.

    Það er einkum tvennt, hæstv. forseti, sem gagnrýnt hefur verið sérstaklega í tengslum við þetta mál. Hið fyrra er að þessu máli skuli ekki vera ætlað að taka til byggðarlaga alls staðar á landinu sem eru í sambærilegri stöðu hvað áhrif af þorskaflabresti snertir. Nú er það svo eins og ráðið verður af fyrirsögn frv. og margoft hefur komið fram að rökstuðningurinn fyrir aðgerðunum er samdráttur í þorskafla og þeir erfiðleikar sem það hafi skapað byggðarlögum á Vestfjörðum sem vissulega og sannarlega eru háð þorskveiðum og búa við einhæft atvinnulíf og að ýmsu öðru leyti erfiðar aðstæður. En á hitt verður að líta að sambærilegar aðstæður fyrirfinnast víðar.
    Hið síðara sem frv. hefur verið gagnrýnt fyrir er, eins og áður sagði, sú þrönga skilyrðing ráðstafananna við að eingöngu komi til greina fyrirtæki sem hafa sameinast öðrum enda séu þau jafnframt staðsett í byggðarlögum þar sem sveitarfélög hafi sameinast. Hvor tveggja skilyrðin þurfa að vera fyrir hendi samkvæmt þeim skilningi sem staðfestur hefur verið á frv. Það leiðir auðvitað af sjálfu að þarna er um mjög takmarkandi bindingu að ræða.
    Nú er það svo, hæstv. forseti, að það er engin deila um það að sem landshluti hafa Vestfirðir verulega sérstöðu. Vestfirðir eru hlutfallslega mjög háðir þorskveiðum, sjávarútvegur er þar algjör undirstaða atvinnulífs og atvinnulífið er einhæft. Einnig hafa verið miklir rekstrarerfiðleikar í fjölmörgum mikilvægum sjávarútvegsfyrirtækjum í þeim landshluta. En hitt er alveg jafnljóst og kemur m.a. fram með alveg óhrekjandi hætti í gögnum sem efh.- og viðskn. hefur aflað að það finnast sambærilegar aðstæður, algjörlega sambærilegar aðstæður í byggðarlögum víðar í landinu. Það eru byggðarlög sem eru hlutfallslega mjög háð þorskveiðum þar sem atvinnulífið er einhæft, þar sem menn búa við tiltölulega mikla samgöngulega eða landfræðilega einangrun og þar sem erfiðleikar hafa gengið yfir í atvinnurekstrinum.
    Það er því skoðun 2. minni hluta að mismunun af því tagi milli jafnsettra fyrirtækja eða byggðarlaga og þetta frv. gerir ráð fyrir með því að binda ráðstafanirnar við einn landshluta að þetta séu ekki boðlegir stjórnsýsluhættir.
    Hvað hin síðari ákvæðin snertir sem gagnrýnd hafa verið eru þar á ferðinni ákvæði m.a. 1., 2. og 3. gr. frv. þar sem það er gert að skilyrði, að vísu með mismunandi orðalagi í hverju tilviki, að um sameiningu fyrirtækja sé að ræða og ekki bara það heldur skuli hin sameinuðu fyrirtæki jafnframt vera staðsett í byggðarlögum eða sveitarfélögum sem hafi sameinast öðrum. Það er skoðun 2. minni hluta að þessi framseting málsins fái ekki staðist, hvort sem heldur er litið til gildra jafnræðissjónarmiða eða staðreynda málsins. Það getur á engan hátt verið réttlætanlegt, svo dæmi sé tekið, að útiloka tvö fyrirtæki á Vestfjörðum sem hafa sameinast og fullnægja í einu og öllu þeim skilyrðum sem frv. gerir ráð fyrir, en útiloka þau frá fyrirgreiðslu á þeim grundvelli einum að íbúar í viðkomandi sveitarfélagi hafi í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu fellt það að sameinast öðru sveitarfélagi. Hvers konar stjórnsýsluhættir eru það að láta slíkt valda því að mismuna í framkvæmd að öðru leyti og að öllu öðru leyti jafnsettum aðilum?
    Einnig hlýtur það að geta orkað mjög tvímælis þegar litið er til aðstæðna, bara raunveruleikans eins og hann kemur fyrir, að gera sameiningu fyrirtækja sem slíka, fortakslaust að skilyrði í þessu sambandi. Ef við hugsum okkur nú það dæmi að í hlut eigi annars vegar tvö fyrirtæki sem hvort um sig hafa velt kannski 200 millj. kr. Þau sameinast og úr verður eining sem að óbreyttu mundi þá velta 400 millj. kr. og þau taka til að hagræða í sínum rekstri og stokka upp spilin og þau fá fyrirgreiðslu enda hafi þau verið í sveitarfélögum sem hafa sameinast.
    En hugsum okkur nú annað fyrirtæki sem veltir 700 millj., er stærra en hin til samans, er burðarás atvinnulífs í sínu byggðarlagi og þar hafa sveitarfélög sameinast, allt er í lagi, en það vill bara svo til að þetta er eina fyrirtækið á viðkomandi stað. Það hefur engan til að sameinast. Ef það vill nú endurskipuleggja sinn rekstur, sameina vinnslu í einu húsi sem áður hefur verið í tveimur, hagræða og endurskipuleggja sín mál á allan hátt þannig að það er sambærilegt við hin sameinuðu fyrirtæki. Nei, þá skal það ekki verða. Bara af því að sameiningin sem slík er skilyrði. Það er sem sagt ógilt, kemur ekki til greina að annars konar rekstrarleg eða fjármálaleg endurskipulagning komi til álita í þessu sambandi.
    Hæstv. forseti. Þá er á það að líta að ég held að þeir sem hefðu sett saman þetta frv. sem prófverkefni í íslensku í 2. bekk menntaskóla hefðu ekki fengið háa einkunn fyrir vandaða málsmeðferð og skarpan skilning á því viðfangsefni sem fyrir þeim lá því staðreyndin er sú að orðalag á þessum pappír hér er svo misvísandi og ruglingslegt að engu tali tekur. Í tveimur lagagreinum frv., sem hvor um sig er um þrjár eða fjórar línur, og í umsögn með annarri þeirra koma fyrir fimm mismunandi útgáfu af þessari sameiningarskilgreiningu. Ég verð að segja alveg eins og er að eftir þá yfirferð sem málið fékk við 1. umr. þá ætlaði ég ekki að trúa því að hv. meiri hluti legði ekki til lagfæringar á þessu orðalagi hér við 2. umr. um málið.
    Í 1. gr. er talað um það að heimilt sé að standa straum af víkjandi lánum til sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum sem vilji sameinast. Þar með virðist viljinn vera forsendan. Það þurfi sem sagt að leiða það í ljós með einhverjum sannanlegum hætti að það sé fyrir hendi vilji til að sameinast og þá séu fyrirtækin gjaldgeng í ráðstafanirnar.
    Í 2. gr. er talað um sveitarfélög sem verði sameinuð. Gagnvart sjávarútvegsfyrirtækjum sem ætli að sameinast, þá er viljinn ekki nóg heldur skuli þau beinlínis að ætla það. Svo er sagt: ,,Sama gildir um þau sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum sem hafa sameinast á undangengnum árum.``
    Þegar svo farið er í umsögn um 2. gr. þá kemur það fram að þetta taki til sjávarútvegsfyrirtækja sem hyggist sameinast. Þar fundu menn fimmtu útgáfuna af þessu orðalagi. En hvað gerir meiri hluti hv. efh.- og viðskn.? Hann lætur þetta standa óbreytt. ( Gripið fram í: Það er enginn meiri hluti.) Eða 1. minni hluti, þeir sem tilheyra hinum svokallaða meiri hluta á Alþingi sem er náttúrlega orðinn harla tætingslegur eins og raun ber vitni. Svo kemur hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hér og skýtur sér á bak við það að auðvitað skipti þarna miklu máli túlkunin og framkvæmdin, en það sem er sett niður í lagatexta með tilteknum hætti á náttúrlega ekki að túlka öðruvísi en þar stendur eða hvað? ( VE: Skiptir þá framkvæmdin engu máli?) Það er ekki þar með sagt, hv. þm. En væntanlega ætla menn sér að virða ákvæði laganna í framkvæmdinni og hvernig eru ákvæði laganna? Það hefur verið farið margítrekað yfir það í efh.- og viðskn. að það er ekki hægt að skilja þetta og lesa þetta saman öðruvísi en svona. Það verður að uppfylla hvort tveggja, að fyrirtækin sem í hlut eiga hafi sameinast og að þau séu í sveitarfélögum, annað eða bæði, ef fleiri eru sem hafa jafnframt sameinast öðrum. Svo hláleg er nú þessi framsetning.
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað satt best að segja ótrúlegt hvernig málið er hér fram borið og þó enn ótrúlegra að eftir þá gagnrýni sem það hefur fengið og þá umfjöllun sem um það hefur farið fram, m.a. á heimaslóðum gagnvart þeim aðilum þar sem þetta á þó að koma til bjargar, þá er þetta engu að síður afgreitt hér óbreytt. Hvaða byggðarlög ætli það séu á Vestfjörðum sem hafa verið mest til umfjöllunar vegna erfiðleika í atvinnumálum undanfarna mánuði eða missiri? Ætli það sé ekki þannig að í hugum okkar margra standi eitthvað æði ofarlega vegna mikilla áfalla sem yfir hafa dunið, Bolungarvík? Og ætli það sé ekki þannig að ýmsir hafi heyrt talsverðar fréttir af því svæði fyrir ekki löngu síðan vegna erfiðleika sem þar gengu yfir? Hvernig snýr þetta að Bolungarvíkurkaupstað? Það er þannig að bæjarstjórn Bolungarvíkur hefur sent alveg sérstaka umsögn um þetta mál til nefndarinnar og þar er því auðvitað mjög harðlega mótmælt að þessi binding ráðstafananna, aðgerðanna við sveitarfélög sem séu að sameinast öðrum útiloki byggðarlag eins og Bolungarvík frá þessum aðgerðum, algerlega burt séð frá því hvernig ástandið að öðru leyti kann að vera þar og hversu rík þörfin kynni að vera þar og einmitt þar fyrir það að menn væru þá með í aðgerðum af þessu tagi ef þær eiga að koma að einhverju gagni. En það er þannig að Bolungarvíkurkaupstaður sem uppfyllir þær lágmarkskröfur sem félmrn. hefur verið að tala um að sveitarfélög þurfi að gera er sem sagt nú þegar það fjölmennt byggðarlag að það er yfir þeim lágmarksmörkum sem þar hefur verið talað um eða 1000 íbúar ef ég man rétt, það skuli samt sem áður vera sett út af sakramentinu í máli af þessu tagi af því að menn hafa valið það þar í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu að vera sjálfstætt sveitarfélag. Hvað á þetta að þýða? ( KHG: Þeir mega ekki vera sjálfstæðir menn.) Hvað á þetta að þýða? Ég verð að segja alveg eins og er að ég bara botna ekkert í því að menn skuli láta hafa sig í það að standa svona að málum.
    Sama má auðvitað segja um ýmis önnur byggðarlög. Menn geta sagt það sem þeim sýnist um það að Tálknafjörður hefur endurtekið í kosningum valið þá leið að ráða sínum málum sjálft, vera sjálfstætt sveitarfélag, taka þátt í sameiningu sveitarfélaganna á sunnanverðum Vestfjörðunum. Menn geta talið það vitlaust, verið á móti því og allt það, en þetta vald var nú einu sinni sett í hendur fólkinu sjálfu að ráða því í atkvæðagreiðslu hvað það mundi gera og það er búið að svara því, ekki einu sinni heldur tvisvar að það vilji áfram reka sitt sveitarfélag sem sjálfstæða einingu og ég skil Tálknfirðinga vel því að Tálknafjörður er myndarlegt, þriflegt og að mörgu leyti vel uppbyggt pláss sem hefur haldið vel á sínum málum. Þar hefur verið jöfn og þétt fólksfjölgun. Þar hefur verið talsverð sameiginleg uppbygging og ágætis aðstaða til skólahalds og fleiri hluta. En hvað þýðir þetta á hinn bóginn? Þetta þýðir þar með samkvæmt þessu frv. að það byggðarlag er dæmt úr leik og hafa þá einmitt gengið þar yfir áföll, menn neyðst til þess að selja burtu stærsta skip staðarins og hafa kannski einmitt hugsað sér að með hagræðingu og e.t.v. uppstokkun í fyrirtækjum staðarins mundu menn geta styrkt sína stöðu. En nei takk, þið eru ekki með af því að það er skilyrði að sameinast einhverju öðru sveitarfélagi. Auðvitað er þetta alveg gersamlega út í hött og fáránlegt. Þá er þarna einhver allt önnur aðgerð á ferðinni en sú sem látið er í veðri vaka. Ef hæstv. félmrh. hefur komist með puttana í þetta mál og hefur verið ákveðið að setja þumalskrúfur á menn til að sameinast, þá á að gera það með öðrum hætti en þessum að dulbúa það í frv. um ráðstafanir vegna samdráttar í þorskafla. Hverju eru menn að hræra hér saman? Og vel að merkja, hæstv. forseti, hvar er hæstv. forsrh. sem ef ég man rétt ber þetta mál fram? ( Gripið fram í: Fjmrh.) Er það fjmrh.? Jæja. Þess þá heldur. Ég held að það væri ástæða til að hv. málsvarar þessa máls kæmu hér til fundarins nema hæstv. utanrrh. sé tekinn við þessum verkefnum fyrir ríkisstjórnina.
    ( Forseti (VS): Hæstv. fjmrh. er í þinghúsinu og forseti mun láta hann vita að nærveru hans sé óskað.)
    Já, er hann að fela sig niðri í þingflokksherbergi Sjálfstfl.?
    Ég held líka, hæstv. forseti, að það sé alveg nauðsynlegt að fá hæstv. forsrh. hingað því að það á að heita svo að þetta sé öðrum þræði byggðaaðgerð og byggðamál heyra undir hæstv. forsrh. eins og kunnugt er. ( KHG: Hann á að setja reglugerðina.) Og svo er það upplýst hér að hæstv. forsrh. eigi að setja reglugerðina sem er náttúrlega afar kúnstug útgáfa. Ég verð að segja alveg eins og er að það er mikil snilld að við frv. sem hæstv. fjmrh. flytur hér, flytur meiri hlutinn brtt. um það að forsrh. skuli setja reglugerð um það mál. Hvers konar verkaskipting í Stjórnarráðinu er hér eiginlega orðin? Er þess að vænta að hæstv. félmrh. fari að setja reglugerðir við frumvörp sem iðnrh. flytur o.s.frv.? Ég held að það sé þá enn meiri ástæða, hæstv. forseti, til að fá hæstv. forsrh. hér úr því að hann á að setja þessa reglugerð og ég óska eindregið eftir því, hæstv. forseti, ég óska eindregið eftir því að hæstv. reglugerðarsmiður, hæstv. forsrh., verði

kvaddur til umræðunnar. Ég held að það sé þá ekki seinna vænna að fá það upplýst hvernig hæstv. forsrh. hyggist blanda sér í þetta mál með reglugerðarsetningunni nema þetta sé hluti af einhverju æðra samkomulagi í ríkisstjórninni að hæstv. fjmrh. fær að vísu heiðurinn af því að flytja þetta merka mál, en hæstv. forsrh. á að ganga frá reglugerðinni. ( VE: Honum verður ekki skotaskuld úr því.) Það er svo aftur annað mál þó að út af fyrir sig sé kannski ekki ástæða til að efa að hæstv. forsrh. komi frá sér reglugerðinni. En það væri fróðlegt að vita hvað á að vera í henni og ég sé ekki, hæstv. forseti, að reglugerð breyti því að í raun og veru er frv. þannig úr garði gert að ef menn láta hafa sig í það að samþykkja það óbreytt, þá gengur það engan veginn upp fyrir nú utan það sem verst er af öllu, að ég hef ekki trú á því að þetta komi Vestfirðingum að svo til neinu gagni. ( VE: Jú.) Það er að vísu hugsanlegt að einhver 2--3 tilvik nái í gegnum síurnar báðar eða allar þannig að í hlut eigi fyrirtæki sem hafa sameinast öðrum fyrirtækjum í sveitarfélögum sem hafa sameinast öðrum sveitarfélögum. Þau dæmi verða væntanlega ekki mörg, enda var það nú reyndar svo að upplýst var af þeim talsmönnum Byggðastofnunar sem höfðu komið að þessu máli að það væri út af fyrir sig alls ekki ætlunin að þetta yrðu nema tvö eða þrjú tilvik. Menn eru kannski þegar búnir að ganga frá því og velja hvaða fyrirtæki eiga að fá náð fyrir augum þessa merka frv. og passa inn í reglugerðina sem hæstv. forsrh. setur.
    Auðvitað er það þannig, hæstv. forseti, að þetta mál verður í raun og veru því dularfyllra eftir því sem það er betur skoðað og satt best að segja er það þannig að þegar maður er búinn að fara rækilega yfir það og átta sig á því, ræða við heimamenn, þá er manni alveg lífsins ómögulegt að skilja hvað fyrir mönnum vakir að halda til streitu afgreiðslu á þessu frv. í óbreyttri mynd. Að menn skuli virkilega ætla að bjóða sér það að hengja þetta á Vestfirði með þeirri í sjálfu sér að mörgu leyti neikvæðu umræðu sem það hefur kallað yfir þann landshluta og var þó svo sem nóg fyrir, en hafa það svo þannig úr garði gert að í raun og veru taki það ekki til nema örfárra tilvika í fjórðungnum. Stór hluti þeirra tilvika sem þyrftu virkilega á fyrirgreiðslu að halda séu fyrir fram útilokuð, Bolungarvík, Tálknafjörður, Þingeyri jafnvel, Hólmavík. Ekkert þessara dæma virðist koma til greina þar sem þar er ekki um neina sveitarfélagasameiningu að ræða og/eða þá sameiningu fyrirtækja. ( VE: Breytingar koma til greina.) Það er kannski hugsanlegt að menn finni sér svo einhverjar leiðir fram hjá þessum vandræðum með því að Bolungarvík fari að bjóða í einhvern hrepp inni í Djúpi til að reyna að fá hann til að sameinast sér þannig að þeir geti uppfyllt þau skilyrði. En er það þá boðlegur frágangur á málinu ef menn þurfa að fara út í einhvern slíkan hráskinnsleik til þess að geta að forminu til fullnægt skilyrðum. Þetta er svona, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Það þýðir ekkert að tuða hér fram í og hrista svo hausinn stanslaust. Þetta er svona. Frumvarpið er svona úr garði gert. ( VE: Þú átt að lesa þetta.) Ég er búinn að lesa þetta nokkuð vel, hv. þm., tel mig geta rökrætt það við hv. þm. alveg eins og fara gerir. ( Gripið fram í: Þú verður að lesa reglugerðina.) Hún hefur hins vegar ekki verið birt enn þá. Það er voðalega erfitt að lesa óútgefna reglugerð frá hæstv. forsrh. við frumvarp sem hæstv. fjmrh. flytur. ( VE: Beittu hugarfluginu.) Og svo er hæstv. utanrrh. eini maðurinn sem er hér til málsvara fyrir ríkisstjórnina en þetta er orðið mikið þríeyki sem að þessu máli kemur.
    Nei, hæstv. forseti. Það er margt mjög ámælisvert í þessari málsmeðferð. Það er til að mynda alveg ljóst, að hæstv. ríkisstjórn hefur misnotað alveg gersamlega Samband ísl. sveitarfélaga í þessu máli, alveg gersamlega, þannig að framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga hefur séð sig knúinn til þess að mótmæla því harðlega. Í nefndaráliti 2. minni hluta er birt bréf frá Sambandi sveitarfélaga það sem framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga er að mótmæla því harðlega hvernig samkomulag sveitarfélaganna og ríkisins um skuldastöðu sveitarfélaganna og jöfnun á skuldastöðu sveitarfélaganna er misnotað í tengslum við flutning þessa frumvarps. Með því að flytja það hér, birta það hér sem fskj. aftast í þskj. Þetta tvennt er gersamlega óskylt og hvað öðru óviðkomandi. ( VE: Er eitthvert leyndarmál þetta samkomulag?) Ja, það er ósköp einfaldlega þannig, hv. þm., ef hv. þm. tekur ekki mark á því sem hér er verið að segja, þá er rétt að lesa ofan í hausinn á hv. þm. þetta bréf frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, en það er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Sambands sveitarfélaga hefur á fundi sínum 24. mars 1994 staðfest samkomulag um aðgerðir til að jafna skuldastöðu sveitarfélaga vegna sameiningar, dags. 10. mars 1994.
    Stjórn sambandsins mótmælir því harðlega að ofangreint samkomulag skuli vera tengt frv. til laga um ráðstafanir til að stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum í kjölfar samdráttar í þorskafla og prentað sem fskj. með því frv. Samkomulagið sem stjórn sambandsins er aðili að var gert áður en frv. var lagt fram og er byggt á ákvæðum sveitarstjórnarlaga og laga um tekjustofna sveitarfélaga og er gert til að stuðla að sameiningum sveitarfélaga, hvar sem er á landinu með því að jafna skuldastöðu þeirra. Samkomulagið á ekkert skylt við sértækar ráðstafanir ríkissjóðs á tilteknum landsvæðum í kjölfar samdráttar í þorskafla.

Virðingarfyllst,

Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri.``

    Þetta er svona. Og hvað er hæstv. ríkisstjórn að gera þarna? Hún er að misnota sér þetta samkomulag sem þarna er gert í óskyldum tilgangi og gefa það í skyn með því að prenta það hér sem fskj. að þetta sé einhvers konar samkomulagsbundinn hluti af aðgerðum í sameiningu sveitarfélaganna. Staðreyndin er auðvitað sú að sveitarfélögin sjálf, Samband sveitarfélaga er náttúrlega algerlega andvígt því verklagi sem hér er ástundað og hefur verið frá upphafi. ( VE: Mega sveitarfélög ekki sameinast á Vestfjörðum?) Vegna hvers

er það, hæstv. forseti? Það er vegna þess að Samband sveitarfélaga hefur frá upphafi verið andvígt þvingaðri sameiningu sveitarfélaga. Eðlilega. Þar hafa menn viljað að sveitarfélögin fengju að ráða þessu sjálf, en það er ekki ætlunin. Það er ekki meiningin. Auðvitað er það þannig að þetta frv. er öðrum þræði þvingunaraðgerð gagnvart þeim sveitarfélögum sem hafa kosið í kosningum eða með öðrum hætti að standa sjálfstæð, það á að reyna að neyða þau eða múta þeim til þess að sameinast. ( VE: Gera það hagstætt.) Þetta er nú svona, hæstv. forseti.
    Ég held að það sé í sjálfu sér ekki ástæða til að fara yfir öll þau fylgiskjöl sem hér fylgja með þó að það sé fróðleg lesning fyrir margan manninn hygg ég. Ég hvet menn til þess, tímans vegna, að kynna sér til að mynda þá úttekt sem Þjóðhagsstofnun og Byggðastofnun unnu fyrir efh.- og viðskn., það mun hafa verið fyrst og fremst Byggðastofnun reyndar, hæstv. forseti, og er rétt að leiðrétta það, þar sem m.a. kom fram upplýsingar um hlutdeild þorskafla í lönduðum afla í einstökum verstöðvum. Þar kemur það mjög skýrt í ljós sem og kemur það í ljós í úttekt Þjóðhagsstofnunar og afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna að þó að Vestfirðir hafi vissulega eins og hér sagði áður sérstöðu sem landshluti, þá eru fjölmörg byggðarlög annars staðar á landinu í mjög sambærilegri stöðu. Hvað segja t.d. þingmenn Vesturlands? Hvar eru stjórnarsinnarnir úr þingmannahópi Vesturlands? Ætla þeir að horfa upp á það að byggðarlög hjá þeim í stórum stíl sem eru hlutfallslega a.m.k. jafnháð ef ekki háðari þorskveiðum séu sett út úr myndinni af þeim sökum einum að landfræðilega tilheyra þau ekki Vestfjörðum þó að þau hafi að öllu öðru leyti ef svo ber undir sambærilega aðstöðu, séu jafnháð eða háðari þorskafla o.s.frv.?
    Það er líka athyglisvert að skoða nýjustu gögn frá Þjóðhagsstofnun um einfaldlega fjárhagsstöðu sjávarútvegsins í einstökum kjördæmum. Hvað kemur þá í ljós? Það kemur í ljós að tvö kjördæmi eru því miður verr á vegi stödd en Vestfirðir hvað það snertir. Það eru Vesturland og Suðurland þar sem ástandið er langverst. Ef menn eru að líta til fjárhagsstöðunnar eins og hún er að meðaltali með öllum þeim fyrirvörum sem auðvitað verður að hafa á slíku, þá eru líka rök til þess að líta á fleiri staði en Vestfirðina. Og sama má segja um aðrar breytur í því samhengi, hagnað og annað því um líkt.
    Þetta er ekki sagt hér, hæstv. forseti, vegna þess að ræðumann langi til að gera lítið úr vanda Vestfirðinga. Hann er mikill. Auðvitað er það alveg ljóst að í byggðalegu tilliti á enginn landshluti sem heild við jafnerfiðan vanda að glíma og Vestfirðir. Þess vegna er það svo að 2. minni hluti hefur líka fullan skilning á því að það er mikil þörf á því að grípa þarna til aðgerða og við styðjum það. En við viljum reyna að ganga þannig frá því máli að það sé frambærilegt. Þess vegna flytjum við um það brtt., hæstv. forseti, og leggjum til að frv. verði breytt á þann veg að í fyrsta lagi verði felldar út þær bindingar við sameiningu sveitarfélaga sem 2. gr. gerir ráð fyrir og fyrirtæki sem eru að sameinast eða endurskipuleggja rekstur sinn með öðrum hætti komi til greina burt séð frá því hvort þau standa í fyrirtækjum sem hafa sameinaðst eða ekki sameinast.
    Við gerum í öðru lagi ráð fyrir því að sú upphæð sem þarna er sett til ráðstöfunar verði nokkru hærri, enda komi þá landið allt til skoðunar og staða byggðarlaga eða fyrirtækja sem er sambærileg annars staðar á landinu verði þá líka metin og falli undir þessar ráðstafanir. Ég held, hæstv. forseti, að það sé í raun og veru ekki nokkur leið, ég segi það a.m.k. fyrir mitt leyti, að standa að því að afgreiða þessar sértæku ráðstafanir með þessum hætti öðruvísi en að gera a.m.k. tilraun til þess að þær séu þannig úr garði gerðar að þingmenn geti farið til síns heima, hvaða kjördæmi landsins sem þeir tilheyra og sagt sem svo, að menn hafi gengið þannig frá þessum málum að þeir sem jafnsettir séu hvað varðar áhrif af þorskaflasamdrættinum sitji við sama borð.
    Auk þess, hæstv. forseti, leggjum við til að sú upphæð sem Byggðastofnun er heimilað í 5. gr. samkvæmt ákvæðum þar að verja til að styðja nýjungar í atvinnumálum verði nokkuð hækkuð. ( KÁ: Hvernig er með þessa ráðherra?) Hæstv. forseti. Þetta er alveg með endemum og ólíkindum, þeir tolla bara ekki í salnum aumingja ráðherrarnir. Ég legg til að hæstv. forseti fresti fundi úr því að þetta er orðið svona neyðarástand. ( ÓÞÞ: Fresta þessu máli.) Fresta þessu máli úr því að hæstv. ráðherrar geta ekki lengur tollað í salnum, hafa ekki þrek eða úthald til að sinna skyldum sínum. Við höfum fullan skilning á því að hæstv. ráðherrar kunni að vera þreyttir, það er gjarnan mikið vinnuálag á þeirri tegund, homo sapiens, sem gegnir ráðherrastörfum hverju sinni.
    ( Forseti (VS) : Forseti vildi gjarnan fá að komast aðeins að. Þannig háttar til með hæstv. fjmrh. að hann er í þinghúsinu og sást í hliðarsal fyrir örstuttri stundu. ( SJS: Hann sást meira að segja.) Hæstv. forsrh. er á leiðinni samkvæmt upplýsingum ( VE: Fjmrh. er genginn í salinn.) sem forseti fékk nýlega.)
    Það eru náttúrlega mikil tíðindi að hæstv. fjmrh. hafi meira að segja sést, honum sást bregða fyrir.
    En af því að þetta er fyrsta ræða mín, hæstv. forseti, get ég til samkomulag fallist á að ljúka henni þó að hæstv. forsrh. sé ekki kominn. En það er alveg ljóst að af minni hálfu þá lýkur þessari umræðu ekki með góðu fyrr en hæstv. forsrh. hefur verið viðstaddur og m.a. komið inn á það og svarað því hvernig hann hyggst standa að útgáfu þeirrar reglugerðar sem með stórkostlegri brtt. á að heimila honum að gefa út við lög sem heyra undir hæstv. fjmrh. Ég leyfi mér að spyrja hvort hæstv. forseti viti þess dæmi, hvort hér sé ekki beinlínis verið að brjóta í blað í löggjafarstörfum og þingsögunni að ætla einum ráðherra að setja reglugerð við lög sem heyra undir annan. ( VE: Gott samkomulag.) Það snýst ekki um það, hæstv. forseti, hv. frammíkallandi ,,par exellans``, Vilhjálmur Egilsson, sem hefur haldið uppi líflegum samræðum í allt kvöld, heldur snýst þetta um verkaskiptingu í Stjórnarráði Íslands. Það þarf að vera sæmilega skýrt hver

ber ábyrgð á hverju. Hæstv. fjmrh. hefur orðið þess einstaka heiðurs aðnjótandi að fá að flytja þetta mál og hann tjáir sig væntanlega um það hvort hann telji það venjulega stjórnsýsluhætti að hæstv. forsrh. setji hins vegar reglugerðina.
    Að lokum, hæstv. forseti, langar mig að koma aftur inn á það mál sem ég tel að mörgu leyti mest umhugsunarefni í sambandi við þennan málatilbúnað allan. Það varðar það að hér er á ferðinni mjög sértæk stjórnsýsluaðgerð þannig að ég leyfi mér að draga það í efa að með sambærilegum hætti hafi jafngrimmilega sértæk ráðstöfun litið dagsins ljós af því að rökstuðningurinn fyrir henni er almenns eðlis, þ.e. samdráttur í þorskveiðum. Væri það svo að þorskur væri þannig kvikindi að hann hefði eingöngu sést og veiðst og komið á land fyrir Vestfjörðum, í því kjördæmi, þá væru kannski rök fyrir því að láta það koma fram í heiti frv. að þetta væru eingöngu ráðstafanir sem tækju til Vestfjarða en nú er ekki svo. Við vitum það öll hér inni, hv. þm., að það finnast fjölmörg byggðarlög hringinn í kringum Ísland þar sem þorskurinn er algjör undirstaða atvinnulífs og menn hafa ekki að miklu öðru að hverfa, þar sem atvinnulífið er einhæft, þar sem eru erfiðleikar í rekstri o.s.frv. Hvað eigum við þingmenn Norðurlands eystra að gera standandi frammi fyrir frv. af þessu tagi og hafandi nýlega horft upp á byggðarlög í okkar kjördæmi verða fyrir ekki minni áföllum og hremmingum heldur en hver önnur. ( VE: Eru þið ekki búnir að bjarga því?) Þetta snýst ekki um það, hv. þm., að vera með einhverja hótfyndni í frammíköllum af þessu tagi. Vonandi tekst að leysa þau vandamál sem þar eru uppi en það er ekki málið.
    Hv. þm. virðist ekki skilja hvað þetta snýst um. Þetta snýst um hvort menn geti í ráðstöfunum af þessu tagi bundið þær við einstakan landshluta þó að rökstuðningurinn fyrir þeim sé almenns eðlis. Þetta er ekki borið fram sem sértæk byggðaaðgerð gagnvart landshluta sem á í erfiðleikum. Nei. Þá væri málið betra. Ef þetta hefði snúist um 300 millj. kr. til Byggðastofnunar vegna vanda í byggðamálum á Vestfjörðum hefði sá sem hér talar ekki sagt eitt orð um það annað en stutt það því sá byggðavandi er fyrir hendi. En að búa þetta út í þann búning að það sé vegna samdráttar í þorskveiðum en heimfæra það svo upp á eitt kjördæmi gengur ekki upp. Þá hefði verið mikið nær að ganga frá málinu með þeim hætti sem ég sagði áðan.
    Nú er það svo, hæstv. forseti, að um áramótin ganga í gildi svonefnd stjórnsýslulög sem ég veit að virðulegum forseta vorum eru kunn. Þessi lög eru á margan hátt merkileg vegna þess að í þeim er til að mynda í fyrsta skipti, að mér skilst af fróðum mönnum, lögfestar vissar grundvallarreglur góðra stjórnsýsluhátta sem menn hafa að vísu verið að reyna að höfða til á undanförnum árum en hafa ekki byggst á lögum eða lagastoð nema að litlu leyti í fornum ákvæðum í okkar gömlu stjórnarskrá sem er eins og kunnugt er að stofni til dönsk smíð frá meira en aftan við miðja síðustu öld og ber eðlilega nokkurn keim af því.
    En í nýju stjórnsýslulögunum eru lögfest ýmis merkileg ákvæði. Þar á meðal segir í gildissviði laganna í 1. gr. að lög þessi taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Og svo segir: ,,Lögin gilda þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna.``
    Og hvað segir svo í 11. gr. þessara laga? Hún er mjög merkileg því þar er lögfest, hæstv. forseti, svonefnd jafnræðisregla. Nú er mikill skaði að hv. þm., frammíkallandi Vilhjálmur Egilsson, skuli vera farinn úr salnum. Ég held að hv. þm. hefði gott af því að heyra þetta með jafnræðisregluna. Gott ef ekki bara ágætt fyrir hæstv. fjmrh. að velta þessu fyrir sér líka. Jafnræðisreglan í 11. gr. er svona, með leyfi forseta:
    ,,Við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.``
    Þetta er jafnræðisreglan. Hún er mjög göfug og gagnmerk.
    Nú er að vísu samkvæmt orðanna hljóðan fyrst og fremst hafður í huga persónubundinn réttur. Ég vek þó athygli á því að orðalagið er aðilar, það er talað um aðila ekki einstaklinga: ,,Óheimilt er að mismuna aðilum``.
    Mér er líka ljóst að við lagalega túlkun á ákvæðum af þessu tagi skiptir máli hvort um íþyngjandi eða ívilnandi aðgerðir er að ræða. Það er allt á sínum stað. En samt er það svo að einmitt á þeim tímamótum þegar nýbúið er að lögfesta reglu af þessu tagi sem á að bæta stjórnsýsluna, á að tryggja mönnum jafnari réttarstöðu í landinu gagnvart stjórnsýsluháttunum, hlýtur það að leita á mann hvort ekki sé ærið mótsagnakennt að einmitt þá í kjölfar slíks skuli frv. af þessu tagi líta dagsins ljós þar sem gefin er tiltekin forsenda almenns eðlis um samdrátt í þorskveiðum en síðan er þeim sem til greina koma grimmilega mismunað eins og reglan er útfærð. Ég ætla ekki að halda því fram, hæstv. forseti, ég teldi það oftúlkun, að frv. eins og það liggur fyrir væri skýlaust brot á þessari jafnræðisreglu. Ég ætla ekki að ganga svo langt vegna þess, eins og ég sagði, að mér er ljóst að þar kemur til álita við lögskýringuna hvort tveggja að e.t.v. er meira horft til persónubundins réttar en hægt sé að tala um í þessu tilviki og það skiptir máli hvort um ívilnandi eða íþyngjandi aðgerðir af hálfu stjórnvalda er að ræða. Það er ekki endilega svo að allir aðrir en þeir sem njóta geti gert kröfu til þess þó að stjórnvöld ákveði ívilnandi ráðstafanir í einhverjum tilvikum.
    En staðreyndin er sú að hér er um persónubundin réttindi að ræða. Hér er um einstaklingshagsmuni að ræða vegna þess að það fólk sem í hlut á, í þeim byggðarlögum sem undir málið heyra, á beina persónubundna hagsmuni af því hvernig þetta mál er útfært. Auðvitað er það þannig. Ef þessi mismunun rýrir stöðu íbúanna á Tálknafirði vegna þess að þeir eru ekki jafnsettir íbúum annarra byggðarlaga á Vestfjörðum, svo

ekki sé talað um íbúa í öðrum byggðarlögum landsins, þá kemur til álita hvort þeir stjórnsýsluhættir standist.
    Ég held að á hæstv. ríkisstjórn og hv. þm. stjórnarliðsins, svo ég tali nú ekki um hv. þm. stjórnarliðsins úr öðrum kjördæmum en Vestfjörðum, hafi þeir á annað borð eitthvað hugleitt þetta mál, hljóti að leita efasemdir eða ég vona það a.m.k. gagnvart þessu máli. Ég held að það hljóti að vera. Ég spyr mig að því hvort menn eigi svo hægt um vik að ganga svona frá þessu ef þeir á annað borð hafa velt málinu eitthvað fyrir sér.
    Hæstv. forseti. Að síðustu bara til að undirstrika það og fyrirbyggja allan misskilning af því að ég hef farið nokkuð rækilega yfir það mál og tekið að mér það sem einhver varð að gera, að flytja inn í þessa umræðu þá þungu gagnrýni sem þetta mál hefur fengið í umsögnum til efh.- og viðskn. í viðtölum við aðila, ekki síst þá aðila sem hafa gagnrýnt það mjög hvernig útfærsla málsins er, en til að fyrirbyggja misskilning hafandi flutt þau sjónarmið hingað inn þá vil ég aftur undirstrika það að skoðun 2. minni hluta er sú að það sé rík ástæða til að grípa til aðgerða gagnvart þeim vanda sem ekki síst Vestfirðir hafa orðið fyrir. Og ég ætla að vona að ég verði ekki umfram aðra menn sakaður um að hafa ekki reynt að leggja Vestfjarðakjördæmi lið að breyttu breytanda í varnarbaráttu manna á þeim slóðum í atvinnu- og byggðarlegu tilliti. En við teljum að þarna eigi fleiri um sambærilega sárt að binda og það hljóti að vera markmið og keppikefli manna við löggjafarstörf á Alþingi sem og almennt í stjórnsýslunni að þegnar landsins búi við sæmilegt jafnræði gagnvart aðgerðum af þessu tagi. Ég skora því á hv. þm., hv. meiri hluta, að ljá máls á því að það verði skoðað að gera lagfæringar á þessu frv. Það er okkar vilji, það er okkar ósk, að fá að taka þátt í því að lagfæra málið þannig að um það megi nást sæmileg sátt og góð afgreiðsla á því áður en þinginu lýkur. Það er hægt að gera það með tiltölulega litlum breytingum. Ég vil segja við hæstv. fjmrh., ef hann skyldi hafa áhyggjur af útgjaldaþætti þessa máls, að ég held að með því að skilgreina ráðstafanirnar með svipuðum hætti og gert er í brtt. minni hlutans, að til greina kæmu eingöngu þau byggðarlög þar sem þorskaflabresturinn er mestur, þar sem samdráttur veiðiheimilda er yfir landsmeðaltali og þar sem að öðru leyti um sambærilegar aðstæður er að ræða, þá sé ekki ástæða til að óttast í sjálfu sér að um miklu meiri útgjöld þyrfti að vera að ræða. E.t.v. yrði það niðurstaðan að til viðbótar byggðarlögum á Vestfjörðum kæmu tvö, þrjú byggðarlög önnur í landinu sem skilgreindust í sambærilegri stöðu en þá væri ekki lengur um það að ræða að þessi mikla sértæka binding aðgerðanna við einn landshluta, eitt kjördæmi, væri á ferðinni sem að mínu mati er mikið kappsmál að reyna að ná fram.
    Það leita á hugann umræður, hæstv. forseti, fyrr á öldinni um sértækar aðgerðir. Mikill málflutningur, sem fór fram m.a. á þingi, hjá þingmönnum Sjálfstfl. ekki síst þar sem gagnrýndar voru mjög harðlega sértækar aðgerðir í atvinnumálum. Hvernig voru þessar sértöku aðgerðir? Hver var gagnrýnin á þær? Hún var sú að það væri verið að raska samkeppnisstöðu atvinnugreinanna innbyrðis af því að það væru á ferðinni ráðstafanir sem tækju eingöngu til útflutningsgreinanna, sjávarútvegsins og annarra útflutningsgreina en ekki annarra þátta í atvinnulífinu. ( VE: Þá var gengið vitlaust.) Þetta væri svo sértæk ráðstöfun, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, að það væri gagnrýni vert. En þá verð ég að leyfa mér í lokin að spyrja: Hvers konar aðgerðir eru þá þetta? Þær eru ekki bara sértækar í þeim skilningi að þær taki bara til útflutningsgreina. Nei, þær eru sértækari en það. Þær taka bara til sjávarútvegsins. Þær eru ekki bara sértækar í því að þær taki bara til sjávarútvegsins, þær taka bara til sjávarútvegsins á Vestfjörðum. Þær eru ekki bara sértækar í því að þær taki til sjávarútvegsins á Vestfjörðum, nei, þær eru sértækari en það. Þær taka bara til þeirra sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum sem hafa sameinast. Og þær eru ekki bara svo sértækar. Þær eru enn sértækari en það. Þær taka bara til þeirra sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum sem eru í sveitarfélögum sem hafa sjálf sameinast og þá held ég að ekki verði öllu lengra komist í sértækninni. Nema þá ef því væri bætt inn í að forsvarsmenn viðkomandi fyrirtækja skyldu svo allir vera í sömu tveimur stjórnmálaflokkum.
    Hæstv. forseti. Ég tel málið alvarlegra en svo að það þjóni í sjálfu sér tilgangi að fara út í samanburð eða upprifjun af þessu tagi en ég mátti eiginlega til bara sögunnar vegna að minna aðeins á þetta. Það kemur ýmislegt upp í hugann svona á síðkvöldum þegar málin eru brotin til mergjar eins og hér er verið að gera. En ég leyfi mér að vænta þess að þrátt fyrir allt sé það enn tilraunarinnar virði að eiga hér einhver orðaskipti og ég segi það fyrir mitt leyti að ég teldi það geta greitt fyrir þingstörfum og þinglokum ef menn féllust á að setjast aðeins yfir það hvort ekki væri með góðum hug hægt að lagfæra þetta mál þannig að allir gætu staðið saman að afgreiðslu þess.
    Ég leyfi mér líka að ímynda mér og reyndar þykist ég viss um það að hv. þm. Vestfjarða þyki þetta ekkert þægileg spor að vera að knýja fram afgreiðslu á máli af þessu tagi í þessari mynd með þeim augljósu annmörkum sem á því eru í stað þess að reyna að ná frekar samstöðu og samkomulagi við þingmenn annarra kjördæma, stjórnar og stjórnarandstöðu, um afgreiðslu á máli sem er almenns eðlis og setur alla í sambærilegri stöðu við sama borð. Auðvitað eigum við að reyna að leita að farvegi fyrir málið og afgreiðslu á því í slíkri mynd.