Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

157. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 00:28:21 (7903)


[00:28]
     Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram ítrekað í ræðu síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Norðurl. e., að óskað var

eftir því að hæstv. forsrh. yrði kvaddur til umræðunnar. Þær upplýsingar bárust að hann væri á leiðinni. Nú hefur ekkert til hans sést enn sem komið er en nauðsynlegt er að hann komi til þingfundar og verði viðstaddur þessa umræðu enda var málflutningur 1. minni hluta nefndarinnar þannig. Af því að málið er svo óljóst og illa samið verður það allt að velta á framkvæmdinni og eina brtt. sem gerð er er að hæstv. forsrh. eigi að ákvarða um framkvæmdina með reglugerð. Hann er því eini maðurinn sem getur svarað okkur einhverju um framkvæmd málsins. Því er nauðsynlegt að hann verði hér til svara, til að útskýra þetta frv. sem enginn skilur nema kannski innvígðir í Sjálfstfl. En við hinir þurfum líka að fá upplýsingar um það hver meiningin er með frv. og þar sem hæstv. forsrh. á að vera falið að útfæra málið þá er nauðsynlegt að hann komi hér til að hlýða á ræður manna og svara spurningum og útskýra þetta mál. Þessari umræðu getur ekki lokið án þess og ég tel reyndar að hún geti ekki haldið áfram fyrr en hæstv. ráðherra er kominn til þingfundar.