Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

157. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 00:54:46 (7913)


[00:54]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Ég mun skipa 3. minni hluta í hv. efh.- og viðskn. en örlögin hafa nú hagað því þannig að ég hef verið lítið viðstaddur fundi nefndarinnar að undanförnu, þar með talið þá fundi sem fóru í að fjalla um þetta mál og einnig komst ég ekki í þessa títtnefndu ferð til Vestfjarða. Það breytir því ekki að strax við framlagningu þessa frv. þá hafði ég athugasemdir við það sem ég vil kalla fingrafar félmrh. á þessu frv. sem snýr að þeirri þvingu sem sett er í 2. gr. og snýr að því að ekki sé hægt að aðstoða atvinnuveginn eða fyrirtækin án þess að því fylgi sameining sveitarfélaga. Nú hefur farið fram lýðræðisleg kosning um sameiningu, hún hefur verið felld á mörgum stöðum en samþykkt annars staðar en þarna er sem sagt um slíka þvingun að ræða að það er ekki nokkur leið að una við það. Mér finnst þetta raunar með þeim ógeðfelldari frumvörpum sem ég hef séð vegna þessa tiltekna ákvæðis því í mínum huga segir þetta eitt, það er verið að kaupa þessa sameiningu ákveðnu verði. Það er verið að segja það að ef sameiningin verður ekki þá megi atvinnuvegirnir á Vestfjörðum éta það sem úti frýs. Það er nákvæmlega sá skilningur sem ég legg í þennan texta og við slíkt get ég engan veginn unað. Að sjálfstöðu styð ég það eins og aðrir að atvinnuvegunum á Vestfjörðum sé veitt aðstoð en það á líka að ganga yfir aðra. Þannig að ég vildi einungis láta það koma hér fram að með þessu ákvæði sem hér er inni þá er verið að fara fram á annað og það er annað sem býr að baki þessu heldur en einhver góðvilji til atvinnuveganna á Vestfjörðum. Fingrafar félmrh. er svo augljóst að við það verður ekki unað.