Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

157. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 00:57:18 (7914)


[00:57]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ég hyggst ekki hafa mjög mörg orð um þetta mál sem hér er til umfjöllunar, það hefur verið rætt mjög ítarlega og engin ástæða í sjálfu sér til að lengja umræðuna mikið. Ég vil aðeins í örfáum orðum segja frá grundvallarafstöðu minni til málsins, afstöðu minni til þessa frv. og ástæðum þess að ég tel nauðsynlegt að frv. sé afgreitt nú fyrir þinglok til þess að afstýra mjög alvarlegum vandræðum sem ella gætu brostið á á Vestfjörðum, nægir eru erfiðleikarnir þar fyrir og við vitum það öll sem hér erum að erfiðleikarnir sem upp á yfirborðið hafa komið eru aðeins hluti af þeim vanda sem við er að glíma í atvinnulífinu og sveitarfélögunum á Vestfjörðum. Þess vegna er það afskaplega brýnt að hægt sé að ljúka afgreiðslu þessa frv. Ég geri mér mætavel grein fyrir því að það má deila endalaust um það með hvaða hætti átti að koma til aðstoðar við þann landshluta, Vestfirði, sem hér um ræðir. En ég vona það að ég hafi skilið þá umræðu rétt sem fram hefur farið í kvöld að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu, hvaða varnagla sem menn slógu annars í 1. umr. málsins, þá hafi hv. þm. samt sem áður komist að þeirri niðurstöðu við frekari íhugun málsins með því að fara yfir tölulegar staðreyndir, með því að kynna sér vandann með eigin augum og með því að hlýða á viðræður við fulltrúa sveitarfélaganna og atvinnulífsins á Vestfjörðum, þá hafi hv. þm. komist að þeirri niðurstöðu að það sé ástæða til þess að taka með sérstökum hætti á þeim vanda sem við er að glíma á Vestfjörðum.
    Nú getum við auðvitað endalaust deilt um það hver er eiginfjárstaða fyrirtækja á Vestfjörðum og hver er eiginfjárstaða fyrirtækja einhvers staðar annars staðar. Það sem ég tel hins vegar að sé ótvíræður mælikvarði á það að vandinn sem við er að glíma á Vestfjörðum sé almennari og meiri en gerist og gengur í heilu landshlutunum eru þær upplýsingar sem m.a. komu fram hjá bankastjóra Landsbanka Íslands á fundi efh.- og viðskn., þeim eina fundi sem ég sat þar sem þessi mál voru rædd og ég sat þar eingöngu sem varamaður í eitt skipti. Þar komu fram þær upplýsingar hjá bankastjóra Landsbankans, aðalviðskiptabanka sjávarútvegsins og aðalbankans á Vestfjörðum, mjög ótvírætt sem ekki er að sjálfsögðu neitt leyndarmál að vandinn væri í fyrsta lagi almennari á Vestfjörðum og í öðru lagi lægi það fyrir að vanskil fyrirtækjanna þar við sínar lánastofnanir eins og Landsbanka Íslands væru meiri og af alvarlegri stærðargráðu hlutfallslega og öðruvísi mælt heldur en annars staðar. Þetta eitt út af fyrir sig undirstrikar alvöru þessa máls. Því vænti ég þess að menn viðurkenni þá sérstöðu sem vissulega er við að glíma á Vestfjörðum. Þessi landshluti hefur auðvitað orðið fyrir mjög miklum áföllum, einkanlega vegna þess að tekjuforsendur höfuðatvinnugreinar landshlutans, sjávarútvegsins, hafa gjörsamlega brugðist. Þessi landshluti er háðari sjávarútvegi, hann er háðari þorskveiðunum heldur en almennt gerist og þorskveiðarnar eru mikilvægari fyrir atvinnulíf þessa landshluta en gerist annars staðar. Það eru að vísu til landshlutar þar sem þorskveiðin er þýðingarmikill þáttur og allt aðeins þýðingarmikill þáttur í sjávarútveginum en það er auðvitað hvergi sem sjávarútvegurinn vigtar jafnframt svona mikið í atvinnulífi eins landshluta. Þannig að ég vænti þess að menn hafi áttað sig á því að þetta mál hefur mikla sérstöðu.
    Ég skal fyrstur manna viðurkenna að það er við álíka vandamál að glíma í nokkrum öðrum byggðarlögum en ég fullyrði það að því er ekki til að dreifa að álíka vandamál sé við að glíma í stórum heilum landshluta eins og Vestfjörðum.
    Ég get tekið sem dæmi um sérstöðuna. Það sem hefur auðvitað gerst mjög gleðilegt í okkar efnahagslífi, okkar sjávarútvegi á þessum vetri er þessi mikla búbót sem hefur komið inn í þjóðarbúið og til einstakra fyrirtækja og einstakra landshluta með loðnuveiðunum. Þetta er auðvitað eitt af því ánægjulegasta sem hefur gerst í vetur. Þetta hefur auðvitað gjörbreytt stöðu atvinnugreina, stöðu einstakra byggðarlaga, stöðu einstakra fyrirtækja frá því sem áður var. Ég skal taka dæmi: Eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um þá þýddi þessi loðnuvertíð sem núna er nýlokið fyrir stærstu loðnufyrirtækin í landinu, eins og t.d. fyrirtækin í Vestmannaeyjum og einstök fyrirtæki á Austfjörðum og e.t.v. víðar, þá þýddi þessi loðnubúbót ein út af fyrir sig viðbótarframlegð inn í þessi fyrirtæki eða skildi eftir framlegð inni í þessum fyrirtækjum upp á 200 millj. kr. í hverju fyrirtæki fyrir sig af þessum stærstu fyrirtækjum sem hægt var að nota til þess að greiða niður þær miklu skuldir sem við var að glíma. Þetta hefur auðvitað gjörbreytt stöðunni á þessum stöðum. Þegar menn hafa í huga og eru að gera tortryggilegt eins og átti sér stað í hinni almennu umræðu um það leyti sem frv. kom fram, að það þurfi að greiða sérstaklega fyrir atvinnulífinu á Vestfjörðum þá held ég að það væri hollt þeim sömu að hafa í huga þann mikla aðstöðumun sem skapast hefur við þessa þróun á þessu ári.
    Það hefur verið nokkuð vikið að því að hér sé gert ráð fyrir því í þessu frv. að skilyrði fyrir aðstoð sé sameining sveitarfélaga í einhverjum dúr. Þá vil ég vekja athygli á því að á Vestfjörðum hefur farið af stað og er að fara af stað og er að verða mjög mikið sameiningarferli þó það sé auðvitað mjög ólíkt því sem umdæmisnefndir hæstv. félmrh., sem ég kýs kannski að kalla svo eða umdæmisnefndirnar á sl. hausti gerðu ráð fyrir. Það er engu að síður að fara af stað gríðarlega mikið sameiningarferli. Við vitum að þegar hafa sameinast fjögur af fimm sveitarfélögum í Vestur-Barðastrandarsýslu. Það er að verða sameining Hólmavíkur og Nauteyrarhrepps. Það er að bresta á sameiningarferli mikið á norðanverðum Vestfjörðum. ( JVK: Ekki á Bolungarvík.) Nei, það hefur greinilega komið fram og ég ætlaði sérstaklega að víkja að því hér á eftir í máli mínu. Það er engin hætta á því, hv. þm., að ég gleymi þeim ágæta stað. En ég vil segja að það er að eiga sér stað gríðarlega mikið sameiningarferli þannig að ég held að menn ofgeri nokkuð að ákvæðið um sameiningu sveitarfélaga, hvort sem menn telja að það eigi erindi inn í þetta frv. eða ekki, þá held ég að menn ofgeri því nokkuð að það hafi svona íþyngjandi áhrif á fyrirgreiðslu af þessu taginu. Og af því að hv. 6. þm. Vestf. vék sérstaklega að Bolungarvík þá er rétt að aðstaðan þar er nokkuð önnur. Þar hefur hins vegar komið fram og er ljóst að það verður ekki um að ræða sameiningu Bolungarvíkur við önnur sveitarfélög. Þar er hins vegar uppi á teningnum mjög mikill vandi í sveitarfélaginu vegna áfalla þar í atvinnulífinu sem sveitarfélagið kom inn í í góðri samstöðu allra íbúa og kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn, kom inn í það mál til að afstýra enn þá meiri vá.
    Það hefur komið fram að fulltrúar bæjarstjórnarinnar í Bolungarvík áttu samtal við hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. og niðurstaðan af því var sú að Byggðastofnun var falið að fara sérstaklega yfir þann vanda og yfir það mál. Það er auðvitað ljóst að samkomulag Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisvaldsins um aðgerðir til að jafna skuldastöðu sveitarfélaga vegna sameiningar mun ekki taka til Bolungarvíkur. Þess vegna þarf með sérstökum hætti að taka á þeim vanda. Ég hef skilið það svo að í framhaldi af athugun Byggðastofnunar verði gengið til þess verks að reyna að leysa þann mikla vanda sem vissulega er við að glíma í fjármálum sveitarfélagsins í Bolungarvík. En það verður ekki gert á forsendum sameiningar. Það verður þá að gerast á sjálfstæðum forsendum. Ég sé ekkert, að sjálfsögðu ekkert í þessu frv. því það er auðvitað ekkert að taka til aðgerða er snúa að sveitarfélögunum og alls ekkert sem útilokar það að það sé gert með þessum sérstaka hætti. Við verðum að átta okkur á því að á sínum tíma þegar umræða um sameiningu sveitarfélaganna fór af stað þá var það ein af viðbárum margra sveitarstjórnarmanna að sú sameining gæti ekki orðið vegna þess að það þyrfti að koma til atbeini ríkisvaldsins til þess að lækka skuldir sveitarfélaganna, greiða fyrir því fjárhagslega að þessi sameining ætti sér stað. Það var ekki síst að kröfu sveitarfélaganna sjálfra og mjög eðlilegri kröfu sveitarfélaganna sjálfra að gengið var í það verk að ríkið kæmi þar inn með einhverjum hætti sem við sjáum niðurstöðuna af hér í samkomulagi sem birt er sem fylgiskjal II með frv., samkomulag um aðgerðir til að jafna skuldastöðu sveitarfélaga vegna sameiningar.
    Það hefur verið nefnt í þessari umræðu að það sé óeðlilegt með öllu að Vestfirðir séu sérstaklega teknir út úr. Ég tel mig hafa fært nokkur rök að því að það séu efnislegar ástæður fyrir því í sjálfu sér að Vestfirðir séu teknir út úr með þessum hætti.
    Ég vil líka benda á það í þessu sambandi að það er auðvitað ekki þannig að þetta mál sé allt í einu að detta hér inn á Alþingi með tiltölulega litlum fyrirvara og það er auðvitað ofmat á áhrifum spássitúrs okkar hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, einn sólríkan vordag, að þannig hafi þetta mál orðið til. Sannleikurinn er sá að ég hygg að það hafi verið í október sl. sem hæstv. forsrh. ritaði Byggðastofnun bréf og óskaði eftir því að þessi mál yrðu sérstaklega tekin til athugunar. Það var síðan eftir mjög ítarlega og vandaða athugun Byggðastofnunar og meðhöndlun þess máls í stjórn Byggðastofnunar sem ég hef alltaf skilið að um hefði ríkt algjör eining í stjórn stofnunarinnar að menn töldu ástæðu til þess að taka sérstaklega á þessum mikla vanda sem við var að glíma í þessum landshluta. Það hefur síðan komið fram og kemur fram í greinargerð sem birt er sem fylgiskjal I með þessu frv. að ætlunin er sú að í framhaldi af þessu verði Byggðastofnun falið að gera samsvarandi úttekt á byggðarlögum sem kunna að hafa orðið fyrir sambærilegum áföllum. Þannig að hér er í sjálfu sér ekki verið að útiloka neitt, það er eingöngu verið að taka upp mál sem þegar er orðið fullunnið, sem ríkisstjórnin hefur þegar farið í gegnum, sem þegar hefur fengið hina vönduðu og góðu efnislegu umfjöllun í Byggðastofnun og flytja það mál sem sérstakt þingmál hér inn á Alþingi. Og þess vegna tel ég að það sé rangt og það sé villandi að stilla málinu upp þannig að afgreiðsla þess hér komi á einhvern hátt í veg fyrir það að aðrir sem e.t.v. hafa orðið fyrir sambærilegum áföllum fái sambærilega meðhöndlun eða sambærilega aðstoð með einhverjum hætti. ( Gripið fram í: Hvenær?) Ég get því miður hv. þm. ekki svarað því. Ég hins vegar vek bara aðeins athygli á því að það eru liðnir sex eða sjö mánuðir síðan hæstv. forsrh. skrifaði þetta tiltekna bréf til Byggðastofnunar, ef ég man dagsetninguna rétt, ég hygg að það hafi verið í október. Ég get út af fyrir sig ekki svarað því hvenær niðurstaðan kemur. Ég var að vekja athygli á því með þessari dagsetningu að þetta mál hefur átt sér æðilangan feril.
    Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér ekki ástæða fyrir mig til að orðlengja um þetta mál. Ég sagði í upphafi að ég mundi vilja ræða það almennt út frá mínum sjónarhóli hvernig þetta mál blasir allt saman við. Ég fagna því að ég tel mig hafa orðið varan við það í umræðunni í kvöld að þó að menn hafi ýmislegt við framsetningu frv. að ræða og ýmis efnisatriði í því þá ríkir hér almennur skilningur á þeim mikla vanda sem við er að glíma á Vestfjörðum. Ég vænti þess að sá skilningur muni koma fram í því að hv. þm. vilji greiða fyrir þingstörfum og greiða fyrir því að þetta mál fái eðlilega, þinglega meðferð. Það tel ég mjög þýðingarmikið og mjög mikilvægt.
    Vegna þess að hv. 18. þm. Reykv. nefndi mig sérstaklega áðan í tilefni af tiltekinni blaðagrein í litlu blaði vestur á Vestfjörðum og þar sem ég hafði verið að gagnrýna nokkuð málsmeðferð hennar, þá verð ég að játa það að mér finnst að sá tónn sem hefur komið fram í ræðu hennar í kvöld nokkuð annar og jákvæðari og elskulegri og betri en mér fannst ég verða var við í fyrri umræðu málsins og fagna því og tel ástæðu til þess að vekja á því athygli. En vegna þess að hv. þm. nefndi að atvinnuleysi á Vestfjörðum væri sannarlega væri að meðaltali minna en í landinu í heild þó að það hafi aukist því miður mjög að undanförnu, þá vil ég samt sem áður vekja á því athygli að meðaltölin eru mjög hættuleg í þessu sambandi og meðaltölin segja ekki nema takmarkaða sögu því að aðstæður eru þannig á Vestfjörðum að atvinnuástand í langstærsta byggðarlaginu, þ.e. Ísafirði, er mjög gott og á Ísafirði er tæplega merkjanlegt atvinnuleysi og það hefur auðvitað villandi áhrif á meðaltalstöluna. Því miður er það svo að í þeim byggðarlögum sem hafa orðið fyrir mjög alvarlegum búsifjum vegna brests í atvinnulífinu er atvinnuleysi býsna mikið, sama á hvaða mælikvarða er mælt. Atvinnuleysi í einstaka byggðarlögum, jafnvel stórum byggðarlögum á Vestfjörðum, er núna mælt með tveggja stafa tölu.
    Ég hygg því að þegar grannt er skoðað og menn reyna að lesa á bak við þessar meðaltalstölur, sem er ekkert einfalt, komi þessi sannleikur í ljós.
    Virðulegi forseti. Ég hafði alls ekki hugsað mér að flytja jafnvel svona langa ræðu. Ég hafði hugsað mér að reyna að stytta mjög mál mitt til þess að verða til þess að þetta mál fengi sem greiðastan farveg. Því miður háttaði málum svo þegar 1. umr. fór fram, sem var mjög ítarleg, að ég var ekki á þinginu. Ég var utan þings og gat ekki tekið þátt í þeim umræðum og þess vegna er ég aðeins að orðlengja þetta miðað við að hér er um að ræða 2. umr. En ég endurtek það að ég vænti þess að í ljósi þess að þrátt fyrir allt hafi hv. þm. lýst yfir skilningi á þeim vanda sem við er að glíma á Vestfjörðum, þá megum við sjá að þetta frv. fái góða, hraða og trygga afgreiðslu fyrir þinglok, vonandi á morgun.