Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

157. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 01:43:11 (7922)


[01:43]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. gat þess í ræðu sinni að það væri verið að auglýsa að svona væri komið fyrir Vestfjörðum eftir að hv. 1. þm. Matthías Bjarnason og sjálfstæðismenn hefðu haft trúnað Vestfirðinga umfram aðra til þess að fara með þeirra goðorð, ef svo mætti komast að orði. Í sjálfu sér er ekkert annað að gera en viðurkenna það að svona er komið fyrir Vestfjörðum þrátt fyrir þetta. Það er hin alvarlega staðreynd. Ég held að það sé ástæðulaust að horfa á margar myndir í fylgiskjali Byggðastofnunar um þróun byggðar og núverandi ástand til að átta sig á þessu. Þar er mynd sem sýnir hlutfallslega breytingu á íbúaþróun. Íbúum hefur fækkað meira en helmingi meira á Vestfjörðum en Vesturlandi. Þar er líka mynd sem sýnir búferlaflutning innan lands eftir landshlutum 1988--1994 og þar hefur líka fækkað mun meira á Vestfjörðum en annars staðar.
    Hvers vegna er ekki atvinnuleysi á Vestfjörðum? spyrja menn. Það er vegna þess að framfærslukostnaður á Vestfjörðum er tiltölulega hár. Ef menn þurfa að lifa á atvinnuleysisbótum í landinu þá eru Vestfirðir óheppilegasti staðurinn til búsetu í þeim efnum. Þá er betra að færa sig inn á þau svæði þar sem hitaveitur veita mönnum möguleika á lægri kostnaði í orkuverði og þeir geta lifað á lægri tekjum.
    Ég vil ekki flokka það undir illvilja hjá hæstv. ríkisstjórn að flytja það frv. sem hér er flutt. Ég hef lýst stuðningi við það. Ég held að það hafi verið mjög þung spor hjá hæstv. ráðherrum að þurfa að standa upp og flytja þetta frv. vegna þess að það er stílbrot í þeirra stefnu. Það er yfirlýsing um það að sértækar aðgerðir geta verið nauðsyn. Reyndar viðurkenndi hæstv. ríkisstjórn þetta með stuðningi sínum við Suðurnes upp á 300 millj. og viðurkenndi þetta einnig með stuðningi sínum við Járnblendiverksmiðjuna þegar annaðhvort hefði orðið að stöðva þann rekstur eða veita stuðning. Tilfellið er að hvort sem mönnum líkar það betur eða verr hafa margir skipstjórar sem hafa ætlað að leggja í sjóferð þurft að snúa við vegna veðurs og breyta um kúrs. Og eru menn að meiri. Það er nefnilega kannski eitt af því örfá sem hægt er að taka sem dæmi um það að þeir menn sem nú stjórna hafi þrátt fyrir stór orð og yfirlýsingar séð að sér að þeir hafa farið í að flytja þetta frv.
    Ég skildi vel hv. þm. Tómas Inga Olrich þegar hann snerist af hörku gegn því að aðeins yrði tekið þetta svæði. Atvinnuleysið á Akureyri er alveg spauglaust, það vita það allir, og ástandið á Grenivík er erfitt að sjálfsögðu. Það er líka rétt sem fram hefur komið og má segja sem svo að viðhorf Sturlu Böðvarssonar voru eðlileg í því ljósi. Það liggja fyrir upplýsingar um hvernig staðan er á utanverðu Snæfellsnesi. Þær lágu fyrir að verulegu leyti áður en bréf þingmanna Vesturlands var skrifað til Byggðastofnunar einfaldlega vegna þess að Byggðastofnun hefur vissan gagnabrunn þar sem stöðugt er safnað upplýsingum um stöðu mála. Ég get alveg tekið undir að það er ekki á nokkurn hátt óeðlilegt að útvíkka þessar hugmyndir eins og komin er fram brtt. um þannig að hægt sé að taka á vandamálum fleiri svæða.
    Hins vegar hefur núverandi ríkisstjórn valið þann kostinn að gera þetta í áföngum. Ég vona þá að hæstv. ríkisstjórn sé ljóst að það getur orðið of seint að styðja Snæfellsnesið eftir að þar hefur orðið meira hrun. Það gildir það sama með Snæfellsnesið og Vestfirði að þorskurinn skiptir öllu máli nema í Stykkishólmi. Þess vegna var sú ákvörðun að skerða eins og gert var að færa ekki aðrar fiskveiðiheimildir til þeirra svæða sem urðu fyrir mestri skerðingu á þorski í sjálfu sér ákvörðun sem ekki gekk upp hjá hæstv. sjútvrh. án þess að stuðningsaðgerðum yrði beitt. Ég minnist þess að þegar loðnuflotinn varð fyrir mikilli skerðingu á sínum tíma var ákveðið að veita honum vissan þorskkvóta til stuðnings. Nú ætla ég ekki að fara að rifja þetta upp.
    Ég gæti út af fyrir sig stutt brtt. Ef slík tillaga hefði samstöðu á Alþingi teldi ég það af hinu góða. Ef hún væri felld teldi ég engu að síður rétt og mundi styðja það frv. sem hér er lagt fram.
    Menn geta sagt að það sé niðurlægjandi fyrir Vestfirði að taka við víkjandi lánum. Það hefur þá verið mikil niðurlæging fyrir Reykjavíkurborg að fá víkjandi lán frá Seðlabanka Íslands til þess að geta átt hálfa Landsvirkjun á móti ríkinu. Án þess stuðnings Seðlabankans hefði Reykjavíkurborg aldrei getað átt þann hlut í Landsvirkjun sem hún á. Þar fyrst kom hugtakið ,,víkjandi lán`` inn á lánamarkað Íslands og ég held að á engan sé hallað þó ég minni á að það mun hafa verið Þorvaldur Garðar Kristjánsson sem á sínum tíma, þegar hann var að vinna að stofnun Orkubús Vestfjarða, rakst á þennan málatilbúnað hjá Landsvirkjun, að víkjandi lán hefðu verið notuð svo að hægt væri að tryggja Reykjavíkurborg þann hluta sem hún á í Landsvirkjun.

    Ég vildi aftur á móti gjarnan, og þar tek ég undir með hv. þm. Kristni Gunnarssyni, að Vestfirðir væru ekki í þeirri stöðu að þeir þyrftu á þessu að halda.
    Auðvitað getum við deilt um texta frv. og eins hvort það sé rétt að tala jafnmikið um sameiningu og hér er gert, sameiningu sveitarfélaga og sameiningu fyrirtækja, en umhugsunarefni hlýtur það að vera vestfirskri byggð að við Eyjafjörð á Akureyri er rekið eitt stórt fiskvinnslufyrirtæki, ÚA, sem á sínum tíma naut mikils stuðnings Akureyrarbæjar og var byggt upp með ráðdeild og skynsemi en á Ísafirði höfum við mörg fiskvinnslufyrirtæki, mörg rækjuvinnslufyrirtæki og við náum ekki fram þeirri hagkvæmni sem þyrfti hvort sem okkur líkar það betur eða verr.
    Ég held að Vestfirðingum sé hollt að gera sér grein fyrir því að sameinaðir munu þeir standa en sundraðir munu þeir falla. Þeir verða að endurskipuleggja margt í sínum málum til að ná vopnum sínum eins og ágætur þingmaður ættaður að vestan hafði gjarnan sem orðatiltæki.
    Ég vil ekki lengja þessa umræðu. Ég vona að þetta frv. verði að lögum. Ég sat undir þeim ámælum, eins og margir fleiri, þegar Hlutafjársjóður var stofnaður og veitt voru lán í gegnum Atvinnuleysistryggingarsjóð að nú ætti að fara að mismuna, nú ætti að fara að nota pólitík og því miður féll hv. núv. 3. þm. Vestf. í þá gryfju að trúa því að það væri markmiðið. Það var aldrei markmiðið þótt það kæmi fram í blaðaskrifum og ég ætla ekki að fara að bera það á núverandi ráðherra að þeirra hugmynd sé sú að mismuna í þessu dæmi eftir pólitík. Ég ætla að þeir geri sér grein fyrir því að það yrði aldrei til bóta að fara að vinna á þann veg.
    Það er eitt atriði aftur á móti í þessu frv. sem ég skil ekki þó að hæstv. forsrh. segi að það sé auðskilið. Það getur vel verið að það sé vegna þess að ég sé orðinn syfjaður og það sé eitthvað sem bara sé ,,black out``, en það er þessi merkilega setning í 4. gr.: ,,Lánin skulu vera afborganalaus fyrstu þrjú árin.`` Þetta skil ég. En svo kemur: ,,Næstu þrjú ár skal einungis greiða vexti.`` Þá skil ég þetta á þann veg að þarna séu komin sex ár og að það eigi að borga afborganir á seinni þremur árunum en samt standi að það eigi aðeins að greiða vextina og hvort þá sé hugsað að afborganirnar megi vera í vanskilum. Mér finnst að þarna hafi eitthvað slegið út í textanum, ætla ekki að gera þetta að neinu stórmáli. Ég hygg að þetta hafi átt að vera þannig: ,,Lánin skulu vera afborganalaus fyrstu árin. Þá skal aðeins greiða vexti.`` Þ.e. að á fyrstu þremur árunum skal aðeins greiða vexti en svo eigi að greiða vexti og afborganir. En það má vel vera, eins og ég segi af því að það er áliðið, að það sé eitthvað í mínum haus sem hafi gripið þetta rangt, en mér sýnist að þarna hafi orðið pennaglöp en ég ætla ekki að gera það að neinu stórmáli.
    Ég vil trúa því að þetta geti orðið til góðs ef rekstrargrundvöllur verður fyrir fiskvinnslu í landinu. Ef ekki verður rekstrargrundvöllur, þá munu þessi fyrirtæki að sjálfsögðu ekki halda lengi velli þrátt fyrir þetta. Töpin hafa verið mjög mikil. Töpin hafa verið það mikil að þessi upphæð dugar alls ekki fyrir þeim töpum sem hafa orðið á Ísafirði einum á því tímabili sem núv. ríkisstjórn hefur verið við völd. En það breytir ekki þeirri staðreynd að stundum getur farið svo að skjótt skipist veður í lofti. Hv. 3. þm. Vestf. gat um það hvílík búbót rækjan hefði verið ýmsum aðilum. ( EKG: Loðnan.) Loðnan hefði verið ýmsum aðilum. Það að loðnu sé landað á Vestfjörðum skiptir miklu máli því að þá geta fyrirtækin farið í loðnufrystingu. Það þyrfti að vera líka aðstaða til þess á sunnanverðum Vestfjörðum að taka loðnu í bræðslu til þess að fyrirtækin gætu farið í loðnufrystingu.
    Ég hygg að störf mín í Byggðastofnun hafi orðið til þess að það er einhvern veginn orðið innbyggt að horfa til landsins alls þegar rætt er um atvinnumál. Ég er sannfærður um það að við þingmenn þurfum að efla þá samstöðu með okkur að við séum ekki að bítast á milli byggðarlaga þegar við erum að takast á um svona mál. Við þurfum að sameinast um það að leysa þau hvar sem þau eru af þeirri stærðargráðu og þeim vanda sem þau eru t.d. í dag á Vestfjörðum.
    Ég gat um atvinnuleysið á Akureyri. Grenivík er stórt vandamál í dag. Stöðvarfjörður og Breiðdalsvík eru það fyrir austan og Snæfellsnesið utanvert. Þetta eru allt staðreyndir sem við vitum um. Það þýðir ekkert að horfa fram hjá því að vandinn á Reykjanesinu er líka stór. Hins vegar verð ég að segja eins og er að þar finnst mér að menn þurfi að einbeita sér að því að byggja upp iðnað vegna þess að ef ekki er hægt að byggja upp iðnað á suðvesturhorninu, þá spyr maður sjálfan sig: Á hvaða forsendum ætti að vera hægt að taka einhver úrelt fiskverkunarhús vestur á fjörðum eða austur á fjörðum eða úti á Snæfellsnesi og byggja þar upp iðnað við miklu erfiðari aðstæður?
    Ég vona að hæstv. forsrh. geri sér einnig grein fyrir því að reglugerð þeirri sem sett var um Byggðastofnun þarf að breyta. Það er stórmál og ég vænti þess að eins og skilningur hefur vaxið á þessum vandamálum, þá muni einnig skilningur vaxa á því.