Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

157. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 02:04:34 (7924)


[02:04]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég held að frekari orðaskipti hafi svo sem ekki mikið upp á sig í þessu máli og flest það komið fram sem koma þarf fram. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að hafa verið viðstaddur umræðuna og eftir atvikum svarað því sem til hans hefur verið beint. Það er framför eða kannski ekki framför af hálfu hæstv. forsrh. heldur framganga sem hann mætti gjarnan minna ýmsa fótgönguliða sína í hæstv. ríkisstjórn á að taka sér til fyrirmyndar, til að mynda hæstv. sjútvrh.
    Ég tel að það hafi komið mjög skýrt fram í umræðunni og ekki síst núna undir lokin, bæði í máli hæstv. forsh. og hv. 1 þm. Vesturl., að enginn mælir því á móti að sambærilegar aðstæður og þær sem finnast á Vestfjörðum og eru að mörgu leyti einkennandi fyrir þann landshluta eru fyrir hendi í byggðarlögum víða í landinu. Þvert á móti er það svo að hæstv. ríkisstjórn, hæstv. forsrh. og stjórnarliðar, eru að biðja um gott veður fyrir afgreiðslu þessa máls með loforðum um að vandamál annarra byggðarlaga sem sambærileg eru verði tekin til skoðunar í framhaldinu. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að koma hér upp og viðurkenna að sú gagnrýni sem málið hefur fengið á sig, komið hefur fram og stjórnarandstaðan byggir sína afstöðu og sinn málflutning á er réttmæt. En auðvitað er ekki á nokkurn hátt gengið þannig frá efndum gagnvart öðrum sem í hlut eiga að þar sé neitt í hendi og það er ekki sá blær á þessari afgreiðslu sem maður hefði viljað sjá við þinglokin að annars vegar sé afgreitt lagafrv. með tiltekinni fjárhæð til ráðstöfunar í einum landshluta en gagnvart vandamálum aðila sem eru sambærilega settir annars staðar í landinu sé ekki á öðru að byggja en almennum viljayfirlýsingum um það að á þeirra vandamál verði litið. Hvenær og hvernig og með hvaða hætti verði þá heimilda aflað til að bregðast þar við er ekki á neinu að byggja.
    Þetta vildi ég bara, hæstv. forseti, láta koma fram og undirstrika undir lokin og tel nauðsynlegt að sé ljóst til viðbótar því sem áður hefur komið fram og verið gagnrýnt af okkar hálfu. Þetta er ekki sú frammistaða sem maður hefði viljað sjá þó að ég sé ekki með þessum orðum að gera lítið úr því að hæstv. ríkisstjórn viðurkennir hvernig málið er vaxið.