50 ára afmæli lýðveldisins

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 09:45:32 (7932)


[09:45]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það væri áreiðanlega ekki forustuleysi hvorki í forsætisnefnd þingsins né forustu þingflokka ef hv. 4. þm. Austurl. kæmi þar nærri. En ég vil út af þessum umræðum sem hér hafa farið fram, virðulegi forseti, eingöngu geta þess af minni hálfu og míns þingflokks að við munum leggja okkur fram um að ná samstöðu við aðra þingflokka um verðugt umræðuefni á hátíðarfundinum hinn 17. júní. Það hafa farið fram umræður milli formanna þingflokka um þetta efni sem fram undir það síðasta hafa verið mjög gagnlegar og góðar. Ég tel að við höfum ástæðu til að halda að við náum niðurstöðu í þessu máli sem allir geta verið fullsæmdir af. Það er allt of snemmt að vera hér með einhverjar hrakspár um að þetta muni allt fara í vaskinn eða ekki vera staðið að þessu með nægilegri reisn. Slíkar hrakspár eiga ekki við.
    Við formenn þingflokka höfum ákveðið að hittast fljótlega eftir að þingi lýkur. Ég geri ráð fyrir að þingflokkar verði jafnframt boðaðir til funda til þess að vera með í ráðum. Síðan er eðlilegt að þingið komi saman einum eða tveimur dögum fyrir hátíðarfundinn til að ganga frá formsatriðum sem þarf að ljúka. Það er ekki hægt að afgreiða mál á Þingvöllum nema búið sé að taka það til fyrri eða 1. umr. eftir atvikum. Það þarf að gera það fyrir fundinn sem haldinn verður hinn 17. júní. Ég tel að það séu öll efni til þess að ná samstöðu um málefni sem Alþingi er til sóma á þessum tímamótum og ástæðulaust að gera því skóna að svo fari ekki.