Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 09:48:42 (7935)


[09:48]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Skýrsla sú sem ég mæli fyrir um rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis er unnin á grundvelli þingsályktunar sem samþykkt var 7. maí á sl. ári. Áður hafði farið fram á vegum félmrn. könnun á högum og aðstæðum atvinnulausra sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
    Sú skýrsla sem hér er til umræðu og annað sem fram hefur komið í umfjöllun um atvinnuleysið, svo sem könnun sú sem ég áður nefndi, sýnir margar hliðar á því mikla vandamáli sem atvinnuleysið er. Vandamálið snertir heimili, fjölskyldur og einstaklinga og þjóðfélagið í heild og hefur víðtæk áhrif á ýmsum sviðum þjóðlífsins. Það snertir einstakar félagseiningar í samfélaginu, ekki síst fjölskylduna, og síðast en ekki síst þann einstakling sem lendir í atvinnuleysinu hverju sinni og þarf að aðlaga sig að gerbreyttum aðstæðum um lengri eða skemmri tíma.
    Vandamál hvers einstaklings eru undantekningarlaust erfið bæði fjárhagslega og félagslega. Ef samfélagið skipuleggur ekki viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðir og aðstoð sérstaklega við langtímaatvinnulausa, þá verða vandamálin enn verri viðureignar, samfélaginu dýrari og ekki síst getur það kostað upplausn og óhamingju fjölda heimila og einstaklinga.
    Atvinnuleysið er víða meginbölvaldur í ríkjum Evrópu og umtalsvert atvinnuleysi er alltaf það vandamál sem mikilvægast er að taka á hverju sinni. Vissulega erum við á þröskuldi mikils atvinnuleysis þó vonir standi til að mesta atvinnuleysið sé tímabundið. Atvinnuleysið hefur mælst frá 6--7,7% í janúar til mars, en samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir sl. mánuð mælist atvinnuleysið um 5,6% en var 6,3% í mars og fer væntanlega lækkandi á næstu mánuðum.
    Þekking okkar á atvinnuleysi og þeim vandamálum sem tengjast atvinnuleysi eru á ýmsan hátt takmarkaðri en margra annarra þjóða. Félmrn. hefur því unnið markvisst að því að afla sér vitneskju og reynslu á þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem aðrar þjóðir er búið hafa við mikið atvinnuleysi hafa gripið til og hrint sumum þeirra í framkvæmd. Félagsvísindastofnun stóð fyrir yfirgripsmikilli könnun á vegum félmrn. á högum og aðstæðum atvinnulausra sem sýnir að áhrif atvinnuleysis eru afar víðtæk og koma beint fram í fjárhagslegum vandamálum, sálrænum og félagslegum erfiðleikum og geta haft áhrif á líkamlegt heilbrigði. Ljóst er af þessari könnun að mikil fylgni er milli langtímaatvinnuleysis og fjárhags, heilsufars og félagslegra erfiðleika.
    Ófaglært fólk, sem er líklega nálægt 40--50% af atvinnulausum, svo og unga fólkið hefur orðið sérstaklega hart úti í því atvinnuleysi sem við höfum búið við og tel ég brýnt að beina sérstaklega aðgerðum að því að tryggja betur hag þessara hópa. Ástandið er líka sérstaklega erfitt þar sem báðar fyrirvinnur eru atvinnulausar, en samkvæmt könnuninni, sem ég nefndi, eiga 10% þeira sem spurðir voru í könnuninni atvinnulausa maka. Fram kom einnig að 50% atvinnulausra eiga í greiðsluerfiðleikum og að þriðjungur atvinnulausra er með minna en 1 millj. í fjölskyldutekjur á ári.
    Ég legg áherslu á að það er mikilvægt að samfélagið byggi upp tryggt öryggisnet til að koma í veg fyrir að jafnmikilvæg verðmæti tapist og líf, heilsa og starfskraftur. Við verðum að byggja hér upp öryggis- og þjónustunet sem með einum og öðrum hætti aðstoðar fólk við að koma aftur inn á vinnumarkaðinn eða a.m.k. viðhalda og bæta kunnáttu og starfsþrek þeirra sem bíða eftir tækifærum til að koma inn á vinnumarkaðinn og að því er nú unnið.
    Starfshópur er nú að fara yfir þjónustu- og öryggiskerfi atvinnulausra, einkum atvinnulausra barnafjölskyldna, og mun væntanlega ljúka störfum innan skamms eða í þessum mánuði. Starfshópnum var ætlað að kanna sérstaklega réttindi atvinnulausra með tilliti til bótakerfis almannatrygginga, fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga, starfsmenntunar og námsframboðs. Starfshópnum er ætla að leggja fram úrbætur er tryggi betur framfærslumöguleika þeirra sem búið hafa við langvarandi atvinnuleysi og athuga sérstaklega hvort unnt sé að nýta bótakerfi hins opinbera þannig að það nýtist betur þeim sem höllustum fæti standa. Einnig að athuga hvernig beita megi frekari vinnumarkaðsaðgerðum fyrir atvinnulausa, einkum ófaglærða og unga fólkið og þá sem búið hafa við langvarandi atvinnuleysi. Skal þar einkum hugað að atvinnutilboðum gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð í samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga en í starfi sínu á samstarfshópurinn að hafa samráð við aðila vinnumarkaðarins.
    Það er ljóst að það bótakerfi og þjónustukerfi sem atvinnulausum er búið er sniðið að allt öðrum

aðstæðum en við búum við núna og tekur á ýmsan hátt ekki mið af því atvinnuleysi sem við búum við. Við því er þessari nefnd ætlað að bregðast og leggja fram tillögur sem samræmi betur okkar bótakerfi, sem og þjónustu- og atvinnutilboð fyrir þá sem búið hafa við atvinnuleysi, ekki síst um langan tíma, og með það að markmiði að hagur og framfærsla þeirra atvinnulausu verði betur tryggð.
    Það er vissulega áhyggjuefni að ungt fólk sem kemur úr námi og fær ekki vinnu fær ekki heldur bætur hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og á því máli verður að taka, undan því verður ekki komist.
    Ég vil einnig minna á að í frv. til laga um vinnumiðlun sem nú liggur fyrir Alþingi felast veigamikil nýmæli sem bæði munu tryggja betri þjónustu við atvinnulausa og auka atvinnumöguleika þeirra, ekki síst þeirra sem búið hafa við langvarandi atvinnuleysi, sem og að tryggja betur virkari vinnumiðlanir í landinu. Ég er sannfærð um það að ýmis ákvæði þessa frv. sem liggur fyrir Alþingi og verður ekki afgreitt nú en vonandi á næsta þingi mun bæta verulega hag atvinnulausra og tryggja betur að þeir geti komist út á vinnumarkaðinn aftur og tryggja þeim ýmsa ráðgjafaþjónustu, námsframboð og starfsmenntun meðan á atvinnuleysi stendur.
    Kostnaður við atvinnuleysi verður aðeins að litlu leyti metinn í krónum og aurum. Hins vegar er augljóst að nauðsynlegt er að meta það fjármagn sem ætlað er til aðgerða gegn atvinnuleysi sem fjárfestingu á móti þeim kostnaði sem atvinnuleysi felur í sér, enda kemur margvísleg verðmætasköpun í staðinn. Starfsmenntun skapar varanlegan mannauð sem nýtist bæði einstaklingum og samfélaginu til frambúðar, en um tíu þúsund manns hafa notið góðs af lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu sem samþykkt voru fyrir sennilega um þrem árum síðan á hv. Alþingi.
    Kostnaður þjóðfélagsins í heild af atvinnuleysinu var áætlaður á sl. ári um 8 milljarðar kr. Auk þeirra mannlegu verðmæta sem tapast vegna atvinnuleysisins sýna þessar tölur hve mikils virði það er fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið að nýta alla starfskrafta í stað þess að greiða óvirkar atvinnuleysisbætur.
    Við þurftum ekki síst að hafa áhyggjur af umtalsverðri tekjuskerðingu heimilanna. Síðan bætist við mikill kostnaður ríkissjóðs og sveitarfélaga. Beinn kostnaður ríkissjóðs vegna atvinnuleysis felst annars vegar í minni sköttum, beinum og óbeinum, en hins vegar í meiri útgjöldum, svo sem til atvinnuleysisbóta. Stærsti liðurinn í kostnaði sveitarfélaga vegna atvinnuleysis eru tapaðar útsvarstekjur. Til viðbótar kemur ýmis kostnaður vegna framfærsluskyldu sveitarfélaganna sem erfitt er að meta. Tekjutap heimilanna er líka mikið eins og fram kemur í þessari skýrslu. Því er mikilvæg sú aðstoð sem ríkisvaldið greip til í október sl. um skuldbreytingu á húsnæðislánum einstaklinga og lögum um frestun á vanskilum og afborgunum vaxta á þessu ári.
    Aðgerðir gegn atvinnuleysi til eflingar atvinnulífinu þurfa fyrst og fremst að vera markvissar og leysa vandann til einhverrar frambúðar. Aðgerðir af þessu tagi snúa að því að efla hráefnisöflun sjávarútvegs, efla samkeppnishæfni framleiðslu á sem flestum sviðum og efla markaðssetningu innlendrar framleiðslu, bæði heima fyrir og erlendis, og bæta starfsumhverfi fyrirtækja eins og ríkisstjórnin hefur gert. Þáttur ríkisins í slíkum aðgerðum gerist að mestu með óbeinum hætti. Í fyrsta lagi með því að efla rannsóknir tengdar framleiðslugreinum, í öðru lagi með skipulagðri starfsmenntun vinnuafls og í þriðja lagi aðgerðum til að stuðla að lágum framleiðslukostnaði, þar með talið lækkun vaxta, og bættri samkeppnisstöðu, m.a. við erlenda framleiðslu.
    Bein afskipti af framleiðslugreinum er hins vegar ýmsum annmörkum háð vegna þess alþjóðlega viðskiptaumhverfis sem við búum við auk þess sem reynslan hefur iðulega leitt í ljós að vandinn leysist ekki heldur frestast og vex með tímanum. Skoðaðir eru hins vegar allir slíkir möguleikar þegar þeirra er þörf og sem dæmi um það er aðstoð við sjávarútveg, landbúnað, skipaiðnað og skinnaiðnað hér á landi. Hins vegar er mikil þörf á að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið og hlúa að þeim vaxtarbroddum sem eru í hefðbundnum atvinnugreinum.
    Það hefur víða komið fram að ríkisstjórnin hefur brugðist við vandamálum vaxandi atvinnuleysis með ýmsum hætti og hún er að vinna að aðgerðum á mörgum sviðum. Á sl. ári brást ríkisstjórnin við skyndilegu atvinnuleysi með verulegu fjármagni til opinberra framkvæmda með því að flýta verkefnum sem átti að ráðast í síðar. Það er einungis tímabundið sem hægt er að flýta opinberum framkvæmdum. Atvinnusköpun verður að vera vel ígrunduð svo hún verði ekki of dýru verði keypt og auki jafnvel á vandann til frambúðar eða tefji varanleg úrræði. Umfangsmiklar opinberar framkvæmdir sem standa yfir tímabundið eru fjárhagslega mjög dýr úrræði og skapa aðeins takmarkaða tímabundna vinnu fyrir fólk og sjaldan einhverja vinnu til frambúðar. Hætta er á að slík úrræði auki erlenda skuldabyrði eða fjárlagahalla sem enn frekar auka vandann í framtíðinni auk þess sem slík úrræði duga aðeins í skamman tíma. Við hljótum því jafnframt að huga að ódýrari, varanlegri og mannaflafrekari úrræðum sem treysta atvinnuástandið til frambúðar. Hins vegar eigum við að láta einskis ófreistað í að virkja atvinnulausa með einum eða öðrum hætti á meðan þeir búa við atvinnuleysi.
    Ég hef gert grein fyrir framkvæmdaleiðinni sem veitt getur atvinnu tímabundið og er nauðsynleg til að bregðast við tímabundnum sveiflum á almennum vinnumarkaði. Ég vil hins vegar leggja áherslu á langtímaaðgerðir til að bæta atvinnuástandið, virkar vinnumarkaðsaðgerðir og að treysta það öryggis- og þjónustunet sem atvinnulaust fólk þarf að reiða sig á. Það er mikilvægt að vel sé vandað til atvinnuskapandi aðgerða með þeim 1.200 millj. sem Atvinnuleysistryggingasjóður getur veitt til virkra vinnumarkaðsaðgerða í átaksverkefnum ríkis og sveitarfélaga. Hafa m.a. ákvæði varðandi framkvæmd átaksverkefna ríkis og sveitarfélaga verið rýmkuð í því skyni. --- Ég vil spyrja, virðulegur forseti. Ég sé að það blikkar á mig ljós.
    ( Forseti (SalÞ) : Þá eru að verða búnar 10 mínútur og setur þá forseti aftur á 10 mínútur ef ráðherra vill nota meiri tíma.)
    Ég sagði að ákvæði varðandi átaksverkefni ríkis og sveitarfélaga hefðu verið rýmkuð í því skyni að hægt væri að nýta betur þær 1.200 millj. sem varið er í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð til að stuðla að virkum vinnumarkaðsaðgerðum og atvinnutækifærum. Átaksverkefni ríkis og sveitarfélaga ásamt því viðbótarfjármagni sem varið var til samgöngubóta og viðhaldsverkefna sköpuðu 800 heilsársstörf á sl. ári og munu væntanlega skapa 1.400 ný heilsársstörf á þessu ári.
    Ég hef sagt að það þurfi sérstaklega að huga að því að þær aðgerðir sem gripið er til nýtist vel ófaglærðum og unga fólkinu og ég legg einnig áherslu á atvinnuskapandi aðgerðir fyrir konur sérstaklega, en fjármagn sem ráðstafað var úr Atvinnuleysistryggingasjóði í þessu skyni á sl. ári nýttist mun betur körlum en konum. Í því sambandi minni ég á þær 80 millj. sem sérstaklega var veitt til atvinnumála kvenna á sl. ári. Þær hafa reynst mjög vel og tel ég að stærri fjárveiting hefði átt að renna af framlagi ríkissjóðs til atvinnuskapandi verkefna í þessu skyni. Fjármagni var þar einkum veitt til nýsköpunar, framþróunar og markaðssetningar og nýttist fjármagnið m.a. til handiðnaðar ýmiss konar sem unninn var úr íslensku hefni. Einnig var fjármagni veitt til aðhlynningarstarfa, námsaðstoðar og svokallaðra vinnuskipta þar sem fólk fer í hlutavinnu á móti námi og heldur engu að síður sínum launum og rýmir þannig fyrir einstaklingum á atvinnuleysisskrá.
    Þær vinnumarkaðsaðgerðir sem hafa verið notaðar í öðrum löndum hafa einnig verið skoðaðar með tilliti til þess hvort þær gætu komið að gagni hér á landi. Þetta á t.d. við um aðgerðir sem stuðla að hreyfanleika vinnuafls innan lands, aðgerðir sem hvetja menn til sjálfstæðrar atvinnusköpunar, námsatvinna, deildar stöður og vinnuskipti, sem að litlu leyti hafa verið reyndar hér á landi.
    Framboð námskeiða fyrir atvinnulausa hefur aukist mikið en ljóst er að þörfin er enn meiri og mikilvægt er að auka framboð og fjölbreytni námskeiða fyrir atvinnulausa og að markvisst sé unnið að uppbyggingu starfsmenntunar í landinu á næstu árum.
    Ég vil einnig nefna það að ég tel mjög brýnt að taka sérstaklega á atvinnumálum fatlaðra og hefur nefnd verið að vinna að því og lagt fram hugmyndir, sem ég tel að þurfi að vinna úr, en þær stuðla allar að því að gera fötluðum kleift að vera á almennum vinnumarkaði með ákveðinni aðstoð sem þar er lögð til.
    Í lokin vil ég segja þetta: Þó mikilvægur árangur hafi náðst í baráttunni við atvinnuleysið, en það er ekki langt síðan aðilar vinnumarkaðarins spáðu að atvinnuleysi stefndi í 20%, þá verður baráttan gegn atvinnleysinu höfuðviðfangsefni ríkisstjórnar næstu missirin. Við þurfum að skapa hér a.m.k. 3 þús. ný störf á ári og til þess að það takist þurfum við að hefja víðtækt framleiðni- og markaðsátak, m.a. í sjávarútvegi og iðnaði, og nýta þau tækifæri sem opnast hafa í gegnum alþjóðlega samninga sem Ísland á aðild að. Við höfum alla möguleika til að vinna okkur út úr atvinnuleysinu en til þess þarf þjóðarsamstöðu og að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins leggist á eitt til þess að það takist.